19.10.1935
Neðri deild: 52. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (4105)

117. mál, sjóðir líftryggingafélaga

Héðinn Valdimarsson:

Ég fæ ekki skilið, að hægt sé að kenna meiri hl. Alþingis um það, hvort útbýtt sé dagskrá eða ekki. Eigi einhver sök í því efni, þá er það vitanlega skrifstofan. En þar sem mér skilst, að ýmsir hv. þm. beri því við, að þeir hafi ekki fengið dagskrá og geti því ekki greitt atkv., vil ég leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann taki málið út af dagskrá nú og fresti atkvgr.

Vegna radda þeirra, sem komið hafa fram um það, að mál þetta sé ekki komið frá allshn., heldur aðeins frá meiri hl. hennar, vil ég taka það fram, að það er venjul. lítið svo á, að málin komi frá nefndunum í heild, þegar ekki er ágreiningur um þau innan nefndanna. Hvað þetta mál snertir, þá var enginn ágreiningur um það í allshn., en að vísu var hv. 8. landsk. ekki á fundi. þegar það var afgr. frá n., en að hann mæti ekki á fundum allshn. er ekkert óvenjulegt.