28.10.1935
Neðri deild: 58. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (4141)

141. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég vil láta þess getið nú þegar við þessa umr., að þetta mál hefir verið í undirbúningi hjá stj. frá því seinnipartinn í sumar. Það hefir meira að segja verið rætt á ráðherrafundi, og hefir þar náðst samkomulag um, að því skyldi flýtt. Til þess að undirbúa málið voru fengnir þeir menn, sem einna bezta þekkingu hafa á þessum hlutum hjá okkur, þeir Steingr. Steinþórsson búnaðarmálastjóri og Bjarni Ásgeirsson alþm., og hafa þeir m. a. athugað, hvar myndi heppilegastur staður fyrir slíkan skóla sem þennan, og var fyrst talað um Laugarvatn sem ákjósanlegan stað, en frá því var svo horfið, og Reykir í Ölfusi urðu fyrir valinn. Þá hefir og verið rannsökuð kostnaðarhlið málsins, bæði að því er snertir stofnkostnað og rekstrarkostnað. Reykjum er nú hús, sem er eign sérstaks félags og notað hefir verið fyrir börn að undanförnu nokkurn tíma ársins. Það var og athugað, hvort ekki myndi tækilegt að nota hús þetta fyrir skólahús í þessu tilfelli, en eftir að smiðir höfðu skoðað húsið, var frá því horfið, ekki talið mundu borga sig. Í gær var svo lokið við áætlun um það, hvað myndi kosta að koma upp slíkum skóla sem þessum og reka hann.

Meðan á þessum athugunum hefir staðið virðist svo sem nokkrir hv. þm. hafi fyllzt áhuga um þetta mál, og því borið fram frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. nú. Mun það stafa af því, að þeir hafi ekki fylgzt með, hvað var að gerast í málinu. Frv. það, sem stj. mun bera fram og samið er af hinum sérfróðu mönnum, búnaðarmálastjóranum og Bjarna Ásgeirssyni, er að sjálfsögðu töluvert mikið fullkomnara en þetta frv. Í þessu frv. er t. d. gert ráð fyrir, að garðyrkjuskólinn eigi að heyra undir kennslumálaráðuneytið, en ég tel, að hann eigi að heyra undir landbúnaðarráðuneytið eins og búnaðarskólarnir.

Úr því að svo hefir nú viljað til, að frv. þetta er fram komið, þá held ég, að bezt yrði, að landbn. legði það til hliðar. a. m. k. þar til frv. stj. kemur fram; það er vel undirbúið, en þetta er auðsjáanlega samið í flýti.