20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í C-deild Alþingistíðinda. (4258)

175. mál, landssmiðja

Frsm. (Emil Jónsson):

Ég get verið stuttorður, vegna þess m. a., að hv. þm. Ak. hefir farið fram frá því í fyrri ræðu hans. Nú er hann miklu sanngjarnari í máli, vill taka frv. til athugunar o. s. frv. Sérstaklega taldi hv. þm. rétt að byrja á að smíða einn mótor og leita umsagnar um hann. Ég veit ekki betur en að byrjað sé þegar á þeirri smíði, og að hann muni innan skamms standa tilbúinn, svo að hv. þm. geti sjálfur skoðað hann fljótlega. (GÍ: Ég er ekki fagmaður). Við erum ekki allir fagmenn í hverju einu, en verðum að skoða hlutina og gagnrýna eftir þeirri skynsemi, sem við eigum. Ég skal fúslega viðurkenna, að ég hefi ekki mikið vit á þessari grein, en teikningar og útreikningar hafa verið fyrir mig lagðir, og ég trúi því, sem fagmaður — eins og t. d. vélfræðingur Fiskifél. — hefir sagt mér um þessa hluti, en hann hefir ásamt forstjóra landssmiðjunnar gengið frá teikningu á þessum mótor, sem nú er í smiðum. Hafa þessi gögn verið fyrir mig lögð, og eftir minni þekkingu og dómgreind eru útreikningar þeirra mjög sennilegir. Sé ég ekki ástæðu til að fara út í það hér í þessari hv. deild, af því hér munu vera fáir, sem skilja hina teknisku hlið málsins eða hafa aðstöðu til þess. Ég tel málið vera komið á það góðan rekspöl, að vel megi um tala, og það, sem landssmiðjuna vantar, er bætt húsnæði til starfrækslu sinnar (m. a. til smíða á mótorum) og fé til að kaupa þær vélar, sem nauðsynlegar eru að dómi fagmanna, og þetta er það, sem frv. fer fram á.

Ég spurði þennan hv. þm., í hverju væru fólgin fríðindi þau, sem hann taldi landssmiðjuna hafa umfram önnur hliðstæð fyrirtæki. Hann vildi svara með því, að ríkisstofnanir keyptu smiði af henni við því verði, er smiðjan setti. Það er einmitt sú sorglega staðreynd, að það gera þau ekki, af hvaða ástæðum, sem það kann að vera, að sumir forstjórar virðast hafa ríka tilhneigingu til að ganga framhjá smiðjunni. Í einstökum tilfellum má vel vera, að hún standist ekki samkeppni um verð og gæði, en ekki er það algilt. — Þá eru það ein fríðindin, að smiðjan sé útsvarsfrí, sem hún er samkv. hæstaréttardómi, og tekur dæmi á þann einkennilega hátt, að hann pillar út það eina ár, sem landssmiðjan hefir sýnt tap, árið 1933, en aftur á móti hin árin hefir hún sýnt gróða, t. d. 1934 er hagnaðurinn 29 þús. kr., 1932 er hann 6300 kr. og svo er um önnur ár, er ég hefi séð reikninga yfir, að hún sýnir rekstrarhagnað, að undanteknu árinu 1933, sem hv. þm. þurfti að vera svo seinheppinn að grafa upp til stuðnings máli sínu.

Þá taldi hann, að mér skildist, að ein fríðindin væru, hvað menn væru þar vel launaðir; forstjórinn hefði ráðherralaun, og fjöldi starfsmanna allt að prófessorslaunum. Um þetta er ekki annað að segja en það, að starfsmenn smiðjunnar vinna fyrir taxtakaupi járniðnaðarmanna, eða sama kaupi og unnið er fyrir við allar aðrar smiðjur í bænum eftir samningi, sem þar um er gerður milli félags járniðnaðarmanna annarsvegar og verkstæðiseigenda hinsvegar. Viðvíkjandi launum forstjórans ætla ég, að þau séu sízt hærri en laun forstjóra annara sambærilegra fyrirtækja, og gæti trúað, að þau væru allmiklu lægri. Um fríðindi hvað snertir landssmiðjuna hefir því aldrei verið að ræða; þvert á móti er hún sett á fót alveg kapitallaus og í lélegum húsakynnum. Auk þess hefir stjórn hennar verið svo losaraleg, að hún hefir selt annað árið það, sem hún hefir keypt hitt. Þykir mér því mesta furða, hvernig hún hefir staðið, að hún skuli hafa getað staðið af sér harða samkeppni, og veit ég, að hv. þm. hafa þann skilning, að þeir játa, að svo sé, og að mjög sé það virðingarverð starfsemi og nauðsynlegt að gefa henni möguleika til nýrra verkefna, færa starf hennar inn á ný svið og skapa með því nýja smíðisatvinnu í landinu. Eins og ég hefi þegar margskýrt frá, er ætlunin, að aukning smiðjunnar verði einkum nýsmíði og að ekki verði tekið frá einstökum mönnum, heldur verði ný vinna í landinu. Þetta hafa hv. þm. vitað, þó að þeir hafi haldið öðru fram, og sósíalistagrýlan er ekki það hræðileg, að þeir þurfi að vera hræddir við frv. þetta.