03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í C-deild Alþingistíðinda. (4365)

195. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Flm. (Bjarni Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það hefir að undanförnu farið fram allýtarleg rannsókn á skilyrðum fyrir því, hvort hægt væri hér á landi að framleiða köfnunarefnisáburð á fjárhagslega tryggum grundvelli. Hefir ríkisstj. hlutazt til um þær athuganir, og Sigurður Jónasson forstjóri gengið rækilega fram í því að afla þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru, og m. a. að útvega mjög duglegan, erlendan verkfræðing til þessara rannsókna. Þessi verkfræðingur hefir um mörg undanfarin ár starfað að rannsóknum við stærstu og merkustu áburðarverksmiðjur á Norðurlöndum. Hann kom hingað til landsins í septembermán. síðastl. og hefir kynnt sér hér rækilega öll skilyrði til áburðarframleiðslu. Hann hefir lagt fram ýtarlega skýrslu um málið, sem hv. þdm. geta átt kost á að kynna sér.

Ég ætla svo aðeins að gera grein fyrir nokkrum atriðum málsins áður en frv. verður vísað til n. — Eins og hv. þm. er kunnugt frá umr., sem hér fóru fram um annað mál — vinnslu sements á Íslandi —, þá er til hér á landi geysimikil náma af kalksandi, sem hefir sýnt sig að innihalda 90% af kalki. Þetta kalk er dæmt að vera ágætt bæði til sementsgerðar og köfnunarefnisáburðarframleiðslu. Það er hægt að nota innlend efni í áburðinn að öðru leyti en því, að ekki er hægt að nota þennan sand, sem þarna er, til þess að binda köfnunarefnið. Þessu máli hefir verið hreyft áður, en strandaði þá á því, að menn voru hræddir um, að hér myndi ekki vera hægt að fá nægilega ódýrt kalk og vænlegt til þess að binda köfnunarefni. Mun það meðfram hafa verið vegna þess, hve langt þessi sandnáma er frá aðalbyggð landsins, eða öllu heldur höfuðstaðnum, en það er álit verkfræðingsins, að auðveldlega mætti flytja sandinn vestan að á ódýran hátt. Nú sem stendur eru notaðir sem næst 16 þús. pokar af kalksaltpétri og af kalkammonsaltpétri um 15 þús. pokar, en í því er 20,5% köfnunarefni. Auk þess er flutt inn 8000 pokar af nitrophoska fyrir 20 kr. hver poki, eða 1,10 kr. kílogr. En kílogr. af kalksaltpétri kostar 1,29 kr. Verkfræðingurinn leggur sérstaklega til, að aðallega verði framleiddur hér kalkammonsaltpétur. Í áætlun hans er gert ráð fyrir, að með svipuðu framleiðslumagni og nú er notað hér myndi vera hægt að framleiða saltpéturinn fyrir 96 au. kílogr. í staðinn fyrir 1,10 kr. Sparnaðurinn myndi því vera, miðað við það, sem nú er flutt inn í landið, 75 þús. kr. Ef framleiðslan yrði aukin um t. d. ca. 50%, en það myndi vera magn, sem jafnaðist á við mestan innflutning á undanförnum árum, þá myndi verðið á poka geta lækkað niður í 15,30 kr. M. ö. o., sparnaðurinn myndi verða 259 þús. kr. En ef framleiddir væru hér aðeins 25 þús. pokar af köfnunarefnissaltpétri og auk þess 10 þús. pokar af nitrophoska, þá myndi vera hægt að framleiða það fyrir 30 kr. sekkinn, í stað 34 kr., sem nú er. Eftir útreikningum þessum á að vera hægt að tryggja það, að hér sé hægt að framleiða köfnunarefnisáburð, sem undir öllum kringumstæðum yrði ódýrari en nú, enda þótt við njótum nú þeirra beztu kjara, sem fáanleg eru á heimsmarkaðinum. Það er álit þeirra, sem kunnugastir eru á þessu sviði, að takast megi að koma þessu í kring. — Í útreikningum verkfræðingsins er talið með rafmagnsverðið; auk þess eru þar reiknaðir vextir og afborganir af stofnfé, sem er áætlað 11/2 millj. Það er gengið út frá, að lán þetta verði borgað niður á 15 árum, og er þetta því mest afborgun af láni því, sem taka þarf. Það má geta þess, að helmingurinn af því verði, sem framleiðsla áburðarins kostar, verður innlendur iðnaður, en helmingurinn útlendur; þar með eru taldar útlendar vélar og efni, sem þarf að kaupa, og afborganir af erlendum lánum. Hvernig sem áætlunin stenzt, er að þessu fyrst og fremst beinn sparnaður, og auk þess stórkostlegur gjaldeyrissparnaður. Nú má alltaf deila um það, hvort áburðarþörfin framvegis aukist eða minnki. Ég fyrir mitt leyti álít — og það munu allir gera, sem til þekkja í sveitum hér —, að áburðarþörfin sé sannarlega fyrir hendi, og það meiri en nú er. Það er reynsla, sem er staðfest af Búnaðarfél. Ísl. og Ræktunarfél. Norðurlands, að eftir því sem meiri áburður er notaður, því meiri verður afraksturinn, og með tiltölulega lítilli áburðarviðbót er hægt að stórauka töðufenginn, þannig að með 50% meiri áburði er hægt að tvöfalda hann. Þetta sýnir, að það er fjárhagslega tryggt að kaupa áburð, og ef hægt væri að framleiða ódýrari áburð en nú er, þá myndu kaupin aukast, því að það er ekki annað en kaupgetuleysi, sem er því til fyrirstöðu, að ekki er keypt meira nú. Bændur hafa nú síðustu árin opnað augun fyrir því, hve mikil nauðsyn sé að auka afraksturinn af ræktaða landinu, því að það verður ódýrari heyfengur og fyrir mörgum eini heyfengurinn, sem þeir geta notfært sér, vegna þess, hve dýrt það er orðið að afla heyja á óræktuðu landi. Það er því nokkurnveginn víst, að eftir því sem ræktunarkostnaðurinn eykst, eftir því verður þörfin fyrir áburð meiri, eins og sést af jarðræktarstyrknum, og auk þess er það, að það er nauðsyn nú fyrir okkur að rækta ýmsar ætijurtir og fóðurjurtir, sem við höfum áður flutt inn, og það má ekki liða á löngu þangað til hætt er að flytja inn kartöflur, og ekki myndi eftirspurnin eftir áburði minnka, ef farið yrði að rækta hér korn, eins og þegar er að vísu byrjað, því að í sumar var ræktað korn á 200 stöðum á landinu og viðast hvar mun það hafa gefið mjög góðan árangur. Það er útlit fyrir, að einmitt kornyrkjan eigi eftir að verða þýðingarmikill liður í starfsemi íslenzkra bænda. En eins og kunnugt er, krefur aukin kornrækt aukins áburðar. Ýmsir bændur hafa spurt innflutningsnefnd um það, hvort þeir fengju kjarnfóður innflutt svo mikið sem með þyrfti til að bæta upp heyin. Margir álíta, að þeir hafi ekki þann arð af búskapnum sem skyldi, vegna þess að þá vanti kjarnfóður. En til að bæta úr því er eina leiðin, að bændur vinni meira að því að framleiða sjálfir sitt eigið kjarnfóður, en til slíkrar ræktunar þarf líka aukinn áburð. — Það er sama, hvernig við veltum þessu fyrir okkur, þá hljótum við að sannfærast um, að svo mikil sem áburðarþörfin er nú, þá hlýtur hún þó að verða meiri eftir því sem framleiðslan á innanlandsnauðþurftum, þeim, sem hingað til hafa verið fluttar inn, eykst. Ræktunin verður að teljast eitt hið mesta nauðsynjamál fyrir íslenzkan landbúnað, og að hægt verði að koma upp verksmiðju, sem geti framleitt nægilegt magn af ódýrum áburði, sem ekki sé háð verðsveiflum, sem kunnugt er, að verða erlendis, bæði vegna stríðshættu o. fl. En auk þess er hér sennilega um mikinn gjaldeyrissparnað að ræða og aukna atvinnu innanlands. — Ég legg svo til, að þessu máli verði, að lokinni umr., vísað til landbn.