03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í C-deild Alþingistíðinda. (4367)

195. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég hlýddi á ræðu hv. flm. og bjóst við að fá þar upplýsingar um atriði, sem var að miklu leyti gengið framhjá í grg. Hann drap á þá þörf, sem væri á því, að landbúnaðurinn gæti fengið ódýran áburð, og hve æskilegt það væri, að þetta gæti orðið framleitt í landinu sjálfu. Ég get verið honum sammála um þetta, en ég sakna þess, að hann skyldi ekki gera grein fyrir, á hvern hátt væri hugsað að afla þess fjár, sem í frv. er gert ráð fyrir, að muni verða um 11/2 millj. Það er gert ráð fyrir, að verksmiðju þessa eigi að reisa á næstu tveim árum. Ég hygg, að eftir því, sem nú er ástatt hér, þá muni bankarnir tæplega hrista slíka upphæð fram úr erminni. Mér skilst, að þegar leitað hefir verið eftir að fá lán erlendis, jafnvel þó að upphæðin hafi ekki numið nema innan við 100 þús. kr., þá hafi verið blákalt nei. Ríkisstj. hefir ekki séð sér fært að ábyrgjast slík lán, og ég býst við, að hið sama gildi um það, að hún treysti sér ekki til að taka 11/2 millj. kr. lán erlendis. Annars virðist mér þetta vera mál, sem vert sé að athuga, ekki einasta af því, að það sé nauðsynjamál, heldur líka af því, að það er stórmál. Ég álít, að þetta sé svo stórt mál og áríðandi, að það eigi að rannsaka það til hlítar áður en það er afgr., svo að ekki verði flanað út í eitthvað, sem síðar sýni sig, að geti ekki borið sig. Ég þekki að vísu ekki þennan mann, sem hefir gert þessar áætlanir, og ég efast ekki um, að hann sé trúverðugur maður, en hitt þekki ég, og það af reynslu, að það er ekki ótítt, að menn fái áætlanir, sem eru fjarri öllum sanni, og bæði fyrirtæki og ríkið hafa margoft sopið seyðið af því. Ég tel algerlega skakkt að hlaupa út í slíkar framkvæmdir, þó að fyrir liggi slík athugun frá einum manni.

Þetta er 1. umr. málsins, og vildi ég aðeins hreyfa þessu og óska eftir frekari upplýsingum um það, á hvern hátt menn hugsi sér að hrinda þessu í framkvæmd. Ég vil jafnframt benda á, að mér finnst þetta mál eigi raunar fremur heima í fjhn. heldur en í landbn., og vil því leggja til, að því verði vísað þangað.