03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í C-deild Alþingistíðinda. (4373)

195. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Flm. (Bjarni Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það var ekki rétt hjá hæstv. fjmrh., að ég hefði sagt, að hægt væri að fá þetta lán, því ég sagði, að ég teldi líkur til þess. — Um hafnargerðina á Sauðárkróki skal ég ekki mikið ræða, enda lít ég á það svipuðum augum og hæstv. fjmrh. og tel, að þarna skipti mjög í tvö horn með tilliti til þess, hvort fyrirtæki það, sem um er að ræða, verður til þess að spara erlendan gjaldeyri eða ekki. Líka verður að líta á það, hvort fyrirtækið skapar möguleika til aukins útflutnings. Og um þetta fyrirtæki er það að segja, að það verður til þess að spara gjaldeyri meira en nemur vöxtum og afborgun af láninu.

Hv. þm. V.-Húnv. var mjög kröfuharður. Hann vildi fá allar skýrslur og teikningar, sem fyrir liggja í þessu máli, prentaðar. En ég vil spyrja hv. þm. að því, hvenær hann viti til þess, þegar gengið hefir verið í ábyrgð, hvort sem það nú hefir verið til hafnargerðar eða síldarverksmiðju eða einhvers annars fyrirtækis, að lagt hafi verið fram í nál. eða grg. fyrir frv. teikningar og áætlanir um fyrirtækið. Það hefir aldrei tíðkazt. Það er venja um slík mál, að þau eru lögð til athugunar fyrir sérfræðinga, sem landið treystir í þeim efnum, hvort sem þeir eru nú útlendir eða innlendir, og svo er málið látið fara til n. og hún látin athuga þær teikningar og áætlanir, sem fyrir liggja um verkið. Og þar hafa þeir þm. aðgang að þeim, sem sérstakan áhuga hafa á því að kynna sér málið. En ég veit, að þegar um svona stórmál er að ræða, sem margir þm. hafa ekki sérstaklega mikið vit á, þá fela þeir sérfræðingunum að láta uppi álit sitt um það. En auðvitað eru teikningar og áætlanir frjálsar öllum þeim þm., sem vilja sökkva sér ofan í þær. Þetta liggur opið fyrir öllum þm., en þeir geta ekki ætlazt til þess, að slíkar áætlanir séu prentaðar sem fskj. með frv. eða grg. fyrir þeim.

Hv. þm. fór fram á það, að nákvæm rannsókn færi fram á kalksandsnámunni við Patreksfjörð. Það hefir nú farið fram rannsókn á henni, og samkv. þeirri rannsókn er það upplýst, að þar er óþrotleg náma um ófyrirsjáanlegan tíma, hvort sem er til áburðarvinnslu eða sementsgerðar. — Hv. þm. vildi, að við reyndum að komast í samvinnu við aðrar þjóðir um þetta. Ég sagði áður, að það atriði hefði verið athugað, en frá því hefði verið horfið, af því að það var ekki talið álitlegt, að hægt væri að koma þeim viðskiptum á. Það liggja fyrir líkur um það, að þetta fyrirtæki sé fjárhagslega öruggt og að það muni gefa góðan hagnað og bæði spara erlendan gjaldeyri og auka atvinnu í landinu. — Þá talaði hv. þm. um það, að útlendar á burðarverksmiðjur myndu reyna að gera þetta fyrirtæki óstarfhæft fyrir okkur. Það getur ekki orðið á annan hátt en þeir bjóði vöruna niður fyrir heimsmarkaðsverð. En þegar ríkið á fyrirtækið, þá getur það verndað það með þeim möguleikum, sem það hefir yfir að ráða, svo það þarf ekki að hræðast þetta. Ég þarf svo ekki að hafa um þetta fleiri orð, og mun láta máli mínu lokið.