18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (4386)

197. mál, fóðurtryggingarsjóður

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki ástæðu til að karpa um það lengi, hvenær sýslun. hafi fundi. Ég veit það ekki, en eftir því, sem ég þekki til, þá held ég, að sýslunefndarfundir séu yfirleitt ekki haldnir fyrr en í marz. Mér þykir gegna furðu, ef sýslumenn eru yfirleitt búnir að ljúka sínum reikningum svo snemma. Ég hygg því, eins og ég sagði áðan, að þetta þyrfti ekki, nema í fáum tilfellum, að koma að sök, enda vekur þetta mál vafalaust þá athygli, að sýslun. á landinu munu fylgja því með gaumgæfni, og myndu þær þá gera ýmsar ráðstafanir í þessu efni. En á hinn bóginn lít ég svo á, að það sé ekki einskis virði, að þetta mál fáist athugað og rætt áður en það er gert að l. Ég tel ekki einskis virði, að slíkt mál sé athugað heima í héruðum og þeim gefið tækifæri til þess að leggja þar eitthvað til málanna. Það myndi og að sjálfsögðu verða, ef þetta mál yrði tekið upp strax á næsta þingi. Ég er alls ekki að gera lítið úr þeim flm., sem standa að þessu frv. Ég efast ekki um, að þeir hafi gert það úr garði eftir því, sem þeir hafa talið bezt og réttast. En á hinn bóginn er því yfir lýst, að nm. hafi ekki rætt það sameiginlega, eins og venja er til í n., og þar af leiðandi ekki getað borið sig saman, en málin skýrast venjulega bezt á þann veg. Það er ennfremur upplýst, að n. hafi ekki haft tíma til þess að halda fund um málið. Ég sný því ekki aftur með það, að þetta sé algerlega óhafandi meðferð á svona máli. Hv. frsm. sagði, að úr því myndi bætt, ef tími ynnist til. En svo á frv. líka eftir að fara í gegnum Ed. Ég hygg, að málinu sé enginn greiði gerður með því að flaustra því af á þennan hátt. Mér er hugleikið, að hægt sé að gera þessi lög þannig úr garði, að þau geti komið sem flestum að notum og verði þess vegna athuguð til hlítar.