09.03.1935
Efri deild: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (4442)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Þó að hér sé um stórt mál að ræða, þá býst ég ekki við að þurfa að vera langorður í minni framsögu, þar sem mjög ýtarleg grg. fylgir frv., og ég get að mestu leyti látið nægja að vísa til hennar.

Ég ætla, að það hafi verið á þinginu 1933, að samþ. var ályktun um, að fara skyldi fram rannsókn á gjafasjóðum, hve margir þeir væru og hvernig ástatt væri um þá. Síðan hefir verið unnið að þessari rannsókn, en þó mun henni ekki vera lokið ennþá. En eigi að síður hefir hún leitt í ljós, að það eru ekki færri en 300 gjafasjóðir í landinu, sem fengið hafa staðfesta skipulagsskrá. Þar fyrir utan eru þó margir sjóðir, sem ekki hafa fengið staðfesta skipulagsskrá. Hversu margir þeir eru, verður ekki séð ennþá, eða hitt, hve mikið fé er í sjóðum þessum. Aðeins hafa 65 af þeim birt opinberlega reikninga sína, og nemur fé þeirra hátt upp í 2 millj. kr. Annars þykir kunnugum mönnum það varlega áætlað að telja fé allra slíkra sjóða í landinu 4 millj. kr. Það er því ekki hægt annað að segja en að þetta sé mikið fé og skipti almenning miklu, hvernig um það fer. Þá verður líka ekki annað sagt en að það skipti gefendurna einnig miklu, að fénu sé varið til þeirra hluta, sem þeir hafa ætlazt til, og að þeir komi að sem mestu gagni samkv. því, sem gefendur hafa ætlazt til. Allir þessir sjóðir eru vitanlega stofnaðir til þess að vinna að hagsmunum almennings á einhvern hátt, og þess vegna fara saman réttur gefanda, sem stofnað hefir sjóðinn, og hagsmunir almennings, sem á að njóta góðs af honum, með því, að sem örugglegast sé um þetta búið. En þótt undarlegt kunni að virðast og næsta furðulegt, þá hefir ríkisvaldið fram á síðustu ár engin afskipti haft af þessum sjóðum, eða a. m. k. ekki litið neitt eftir því, að fé þeirra væri ávaxtað á tryggilegan hátt eða því varið samkv. því, sem skipulagsskrá sjóðsins eða gefandinn hefir ætlazt til að gert væri. Og þá er vitanlegt, þótt ekki séu til neinar skýrslur um það, og ég á þessari stundu geti ekki sannað það, að til hafa verið gjafasjóðir, þó að þeir hafi kannske ekki verið stórir, sem nú eru blátt áfram týndir. Ennfremur má búast við, að sjóðirnir séu ef til vill að einhverju leyti notaðir öðruvísi heldur en gefandinn hefir ætlazt til að gert væri, og að fé þeirra sé ekki svo tryggilega ávaxtað sem hægt væri að gera.

Það var fyrst á síðasta þingi, að hafizt var handa í þessu efni. Eins og menn muna, var fyrir forgöngu hv. þm. Dal. flutt hér frv. á síðasta þingi um eftirlit með sjóðum, sem fengið hafa konungsstaðfestingu á skipulagsskrá sinni. Þetta frv., sem hv. þm. Dal. flutti, var, eins og menn muna, gert að lögum og er að nokkru leyti komið til framkvæmda. Samkv. þeim l. er því svo fyrir komið, að kosnir eru með hlutfallskosningu á Alþingi þrír menn til þess að hafa eftirlit með þessum sjóðum. Það var vitanlega góðra gjalda vert að hefjast handa í þessu máli eins og hv. þm. Dal. gerði á síðasta þingi, og eðlilegt eins og þá stóð, þar sem þá var ekki orðið eins kunnugt um, hvað hér var um að ræða, að byrjað var í smáum stíl eins og gert var. Menn voru dálítið hikandi hér í þinginu, hvort ekki ætti að bíða lengur að setja þessi lög, þangað til meira upplýstist um sjóðina, heldur en þá lá fyrir. En eftir þeim upplýsingum, sem nú eru fengnar, virðist það vera sýnilegt, að nefnd manna, sem á að hafa þetta eftirlit algerlega í hjáverkum, getur ekki haft fullnægjandi eftirlit með öllum þessum sjóðum né gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru í því efni. Þess vegna er það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefir verið samið og lagt fram. Samkv. þessu frv. er að vísu ætlazt til, að þessi þingkosna n. haldi áfram að vera til, en með dálítið breyttu fyrirkomul., og að við hlið hennar verði skipaður fastur starfsmaður, er sjái um framkvæmdir og annist hin daglegu störf, sem þarf að inna af hendi vegna þessa eftirlits. Þessi tilhögun, sem stungið er upp á í frv., byggist vitanlega á þeirri skoðun, eftir að athugun hefir farið fram á málinu, að ef þetta eftirlit og ráðstafanir út af því á að koma að verulegum notum, veiti ekki af daglegu starfi við þetta og föstum starfsmanni, sem vitanlega er miklu hentugra heldur en þótt ætlazt væri til, að n. innti þetta starf daglega af hendi.

Þá er einnig lagt til í þessu frv. að skylda þá gjafasjóði, sem hafa ekki ennþá fengið konungsstaðfestingu á skipulagsskrá sinni, að leita hennar. Ennfremur er lagt til, að þetta sjóðaeftirlit, sem frv. gerir ráð fyrir, að sett verði á stofn, gefi leiðbeiningar um reikningshald sjóða og hafi vald til þess að skerast í leikinn, ef út af ber um rekstur sjóða, reikningshald eða annað, sem ábótavant kann að vera um meðferð þeirra.

Einnig er lagt til, að möguleikar verði til þess að breyta skipulagsskrá sjóða, ef tímarnir eru orðnir svo breyttir, að skipulagsskráin er ekki lengur framkvæmanleg eða kemur í bága við þá hætti, sem nú eru orðnir. En þetta verður þó aðeins gert þannig, að reynt verði að hafa skipulagsskrá og starfssvið viðkomandi sjóðs svo nálægt því, sem stofnandinn hefir ætlazt til, sem mögulegt er. — Þá er og lagt til, að almennir sjóðir og sjálfseignarstofnanir, t. d. sjóðir, sem ráðuneytið hefir undir umsjón sinni, verði lagðir undir þetta sjóðaeftirlit ríkisins.

Ég geri ráð fyrir, og byggi það á því, hverjar undirtektir frv. hv. þm. Dal. fékk í fyrra, að menn verði nokkuð sammála um það, að þessar ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, séu nauðsynlegar í sjálfu sér. Og ég geri ráð fyrir því jafnframt og þar af leiðandi, að það, sem menn kynnu að hafa á móti þessu frv., væri einna helzt það, og eiginlega eingöngu, að þeim þætti of mikið lagt í kostnað samkv. því til þess að framkvæma þetta eftirlit. Í því sambandi er fyrst á það að líta, að kostnaðurinn, sem leiðir af samþykkt þessa frv., kemur ekki beinlínis á ríkissjóðinn, þar sem í frv. er ákvæði um, að sjóðir þeir, sem frv. fjallar um, greiði kostnaðinn, sem af framkvæmd laganna leiðir. En ég geri ekki svo mikið úr þessu atriði, því að vitanlega er það nokkuð sama fyrir þjóðarheildina, hvort það er ríkissjóður, sem ber kostnaðinn. eða þessir sjóðir. En hitt er miklu meira atriði, að það er alveg óvíst, hvort þetta fyrirkomulag, sem stungið er upp á í frv., verður nokkuð dýrara en það, sem nú er, en á þó að nást miklu meira heldur en með því fyrirkomulagi, sem nú er. Það er kunnugt, að fyrir vörzlu þeirra sjóða, sem eru undir umsjón ráðuneytisins, er greidd hærri upphæð heldur en nemur launum þessa starfsmanns, sem frv. gerir ráð fyrir, að skipaður verði. Ef sjóðaeftirlitinu yrði falin varzla þessara sjóða, þá hyrfu um leið þessi útgjöld af því, þ. e. a. s. flyttust til. Það sýnist því liggja þannig fyrir, að það megi fá fullkomið eftirlit með þessum sjóðum og öllum öðrum fyrir það sama og varzla þessara sjóða, sem heyra undir stjórnarráðið, kostar nú. Ég skal þó ekki fullyrða, að þetta reynist nákvæmlega svo, en a. m. k. má fullyrða, að það verður ekki um mikil ný útgjöld að ræða, ef sú tilhögun verður ofan á, að varzla þessara sjóða verður látin heyra undir sjóðaeftirlitið og því goldið fyrir það.

Eins og ég sagði í upphafi, fylgir frv. ýtarleg grg., og ég ætla að láta nægja að öðru leyti að vísa til hennar, en vildi aðeins minnast á meginstefnu frv. í aðalatriðum, en ekki fara út í smærri atriði. — Ég vil svo að lokum leyfa mér að leggja til, að frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og fjhn.