21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í C-deild Alþingistíðinda. (4455)

51. mál, eftirlit með sjóðum og sjálfseignarstofnunum

Magnús Guðmundsson:

Ég býst ekki við, að það sé til mikils að ræða lengi um þetta frv. Það er auðséð, að með því er verið að stofna nýtt embætti handa einhverjum útvöldum, og er því sennilegt, að það verði fram að ganga. — En með tilliti til þess, sem hæstv. fjmrh. sagði, þá ætla ég að líta yfir frv. og athuga, hversu vel það er útbúið.

Það er þá fyrst, að konungsstaðfestingar á að leita á öllum gjafasjóðum. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvað hann álíti, að liggi eiginlega í því. Sannleikurinn er sá, að í því liggur ekki nokkur skapaður hlutur. Það eina, sem lá í þessu áður, var, að reikningar þeirra sjóða, sem leitað hafði verið konungsstaðfestingar fyrir, voru birtir í stjórnartíðindunum. En síðar var þessu hætt, af því það gerði stjórnartíðindin bæði löng og dýr. En þetta voru þau einu hlunnindi, sem konungsstaðfestingunni fylgdu. Það er mikil konunghollust,, sem kemur fram í því, að vilja nú fá konungsstaðfestingu á öllum sjóðum. (BSt: Já, við erum konunghollir). Hvað halda menn, að það sé, sem konungurinn gerir við sjóðina? Hann sér aldrei gjafabréfin, því allt þetta er gert í stjórnarráðinu, og er þetta fyrirkomulag orðið alveg úrelt. Það tekur þó út yfir, að í 5. gr. frv. segir, að þegar fjmrh. er búinn að gera breytingar á gjafabréfunum, þá skuli leita konungsstaðfestingar á þeim breytingum. Hann á þá að fá leyfi til að staðfesta það, sem hann gerir sjálfur. Þetta með konungsstaðfestinguna er alveg dautt og úrelt form og hefir því enga þýðingu. Ef litið er á orðalag gr., þá er rétt að benda á, að þar stendur, að stjórnum sjóða sé skylt að tilkynna bæði sjóðaeftirliti ríkisins og fjármálaráðherra. Það ætti að vera nóg að tilkynna þetta sjóðaeftirlitinu. En þetta er aðeins lítið fyrirkomulagsatriði.

Ég hefi rekizt á prentvillur, sem n. virðist ekki hafa tekið eftir, eins og t. d. í 9. gr. 2. málsgr., en þar stendur „ákvæði um ávöxtun fé sjóða“, en á auðvitað að vera „fjársjóða.“

Svo er það 10. gr. Þar stendur, að stjórnum sjóða og sjálfseignarstofnana sé skylt að leita samþykkis sjóðaeftirlits ríkisins, ef gera skal verulegar breyt. á eignum sjóða og stofnana, svo sem kaupa eða selja fasteignir og verðbréf og annað, er varðað getur hag þeirra. Þetta atriði skilst mér, að brjóti í bága við grundvallaratriði löggjafar okkar, því það er undir flestum kringumstæðum svo, að gefendur sjóða ákveða, hverjir skuli ráða yfir þeim, en með þessu er það aftekið. Það kom í ljós af ræðu hæstv. fjmrh., að það er sjóðaeftirlitið, sem á að ráða, á hvern hátt fjármunum sjóða er ráðstafað. En nú hafa gefendurnir ákveðið, á hvern hátt skuli ráðstafa þeim, og er því engin heimild til þess að breyta því. Hér eru ráðin tekin af gefendunum, og verður því að breyta þessari grein.

Þá er það viðvíkjandi sjóðum þeim, sem eru í umsjón stjórnarráðsins, að þeir eiga að vera undir sjóðaeftirliti ríkisins, en hlutaðeigandi ráðuneyti á að hafa yfirumsjón með þeim, og er því haldið fram, að kostnaðurinn verði ekki meiri við þetta. En reynslan hefir sýnt, að þegar sjóðir hafa verið fluttir úr stjórnarráðinu, þá verður kostnaðurinn alltaf meiri en áður. Gott dæmi um þetta er, að þegar viðlagasjóður var fluttur og settur undir umsjón Búnaðarbankans, þá varð kostnaður við umsjón sjóðsins 8—10 þús. á ári, og þó varð engin fækkun á starfsmönnum hjá ríkisbókhaldinu við þetta.

Þar sem ég á ekki sæti í þeirri n., sem hefir haft málið til meðferðar, þá hefi ég ekki haft tækifæri til að athuga vel, hvort ekki eru fleiri atriði, sem þyrftu breytinga við, og vil ég því skora á hv. n. að taka þetta mál til nýrrar athugunar, því það er ekki svo útbúið, að ekki þurfi endurbótar við.

Það er auðséð, að þessi bók um sjóðina, sem á að gefa út 5. hvert ár, kemur til að kosta mikið fé, því það verður stór bók, og því mikill kostnaður samfara útgáfu hennar.