25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í C-deild Alþingistíðinda. (4478)

60. mál, klakstöðvar

Magnús Guðmundsson:

Hv. 4. landsk. vildi ekki nefna neina ákveðna upphæð, sem ríkissjóður yrði að greiða, ef frv. þetta yrði að lögum, en það getur hver maður sagt sér, að sú upphæð getur orðið stór, en hvað stór hún verður, veit enginn. Eigi að fela stj. þetta, þá segi ég fyrir mig, að ég kæri mig ekki um það svona alveg út í bláinn. Það er svipað um þetta mál að segja eins og svo mörg önnur, sem nú eru borin fram, en það er ósiður að samþ. svona heimildir, sem enginn veit, hve miklu nema. Ég sé ekki, hvað ríkissjóður á að gera með það að kaupa hús og land uppi við Laxá. Ég sé ekki, að það þurfi annað en að fá heimild til að hafa klakstöðvar við þessar ár, því að það mun vera alhægt að komast að samkomulagi við eigendur þessara laxáa um að hafa klakstöðvar við þær, og er þá engin ástæða fyrir ríkið að vera að kaupa sjálfan veiðiréttinn, enda hefir það komið fram hér í löggjöf áður, og svo líka í laxveiðilöggjöfinni, að gengið er út frá því, að laxveiðirétturinn fylgi löndunum sjálfum, og þar er beinlínis bannað að selja veiðiréttinn undan jörðunum. Þetta ákvæði í lögum getur ekki verið af öðru en því, að það sé talið eðlilegast, að veiðin fylgi löndunum, og mér finnst hið opinbera geri alveg nóg fyrir laxveiðina í landinu með því að koma upp klakstöðvum, þó að eigendur jarðanna eigi áfram veiðiréttinn. Ég fyrir mitt leyti hefi ekki trú á, að það fari vel úr hendi hjá því opinbera að kaupa veiðiár og hafa svo á hendi að leigja út veiðiréttinn. Annars á þetta mál að fara til fjvn. samkv. þingsköpum.