25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í C-deild Alþingistíðinda. (4481)

60. mál, klakstöðvar

Magnús Guðmundsson:

Það er ekki ég, sem á neina sök í þessu efni, ef um sök skyldi vera að ræða. Það, sem ég hefi bent á, eru gildandi lagaákvæði. Svo spyr hv. 1. þm. Eyf., hvort það sé meiningin að fara eftir l. í öðrum tilfellum. Ég get ekki svarað því, því að ég ræð því ekki. Hv. þm. talaði við mig eins og ég réði öllu á þessu þingi, en ég hélt, að hann vissi, að það er hann, sem er í meiri hl., og þó að ég í öllu meinleysi bendi á ákvæði, sem ekki hefir alltaf verið farið eftir, þá hélt ég, að það væri ekki goðgá. Það er þá hægt að láta þau sofa áfram, ef stj.meirihl. þykir ástæða til. Annars verð ég að segja það um þetta mál, að brtt. n. sýnist mér vera þannig, að þær geti valdið talsverðum útgjöldum. Ég get tekið fram, að ég hefi ekkert umboð frá fjvn., en þetta er rétt eftir þingsköpum, og ég veit, að hv. 1. þm. Eyf. sér það líka, að eftir þingsköpunum á þetta mál að fara til umsagnar fjvn. (BSt: Já, en miklu fleiri, sem eru í Nd. Verður þá farið eins með þau?). Hvernig getur hv. þm. búizt við, að ég geti sagt um, hvernig verður farið með mál, sem eru í Nd.? Hann heimtar allt of mikið af mér, að ég svari þessu.