14.11.1935
Efri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í C-deild Alþingistíðinda. (4612)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég verð að játa, að mér er ekki fyllilega ljóst, hvert er tilefni þessarar löggjafar. Mér er það ekki kunnugt, að hér á landi stafi neinn voði af því, þó að menn hafi nokkurn veginn óbundnar hendur um það, hvort þeir megi hafa skotvopn í vörzlum sínum. Manni er ekki kunnugt um, að þær breyt. hafi orðið á í þessu efni á síðustu tímum, sem geri það nauðsynlegt, að hið opinbera blandi sér í það mál. Og eins og frv. er nú, og jafnvel þó að brtt. hv. allshn. væru samþ., þá álít ég, að það nái engri átt.

Ég vil fyrst og fremst vekja athygli hv. allshn. á því, að frv. gerir ráð fyrir, að reglugerð kveði á um heimildir fyrir menn til þess að mega hafa vopn í vörzlum sínum, án þess að nokkur skilgreining sé í frv. um það, hvaða hlutir skuli heita því nafni. Það getur verið vafi um, hvað skuli teljast vopn og hvað ekki. Það má t. d. segja, að vasahníf megi nota sem vopn. En vitanlega er það ekki tilgangurinn með þessari löggjöf að banna mönnum að bera þá á sér. Og þó að í þessu tilfelli sé ekki um mikinn vafa að ræða þá getur í ýmsum öðrum tilfellum vafinn orðið meiri. Ef á að fara að leggja hömlur á menn í þessu efni, þá er það skilyrðislaust alveg nauðsynlegt, að einnig sé það skilgreint í l., hvað teljast skuli vopn og hvað ekki. Eftir orðalagi frv. eins og það er nú, og þó að brtt. hv. allshn. yrði samþ., þá getur það náð til fleiri vopna en skotvopna einna.

Það er einnig frá mínu sjónarmiði fjarstæða, ef ekki á að heimila mönnum að hafa í vörzlum sínum skotvopn, nema þeim sé það nauðsynlegt vegna atvinnu þeirra. Ég veit satt að segja ekki, hverjir það eru hér á landi, sem vegna atvinnu sinnar er nauðsynlegt að hafa skotvopn í vörzlum sínum, önnur en fjárbyssur. Ég býst ekki við, að þeir séu margir hér á landi, sem hafa að aðalatvinnuvegi að stunda veiðar með skotvopnum. En eins og hv. þm. Dal. sagði, þá er það oft svo, að þó að mönnum sé það ekki nauðsynlegt vegna atvinnu þeirra að hafa skotvopn í vörzlum sínum, þá er það svo um fjöldamarga menn, að það getur þeim oft aukatekjur og þægindi að geta skotið fugla og jafnvel refi. (IngP: Það má telja nauðsyn). Það stendur nú í frv., að þeim einum skuli veitt heimild til þess að hafa vopn í vörzlum sínum, sem sýni skilríki fyrir því, að þeim sé það nauðsynlegt vegna atvinnu sinnar. Ég býst nú ekki við, að þær refaskyttur séu margar í landinu, sem sé þetta alveg nauðsynlegt vegna eigin atvinnu sinnar. En slíkt er auðvitað nauðsynlegt vegna fjáreigenda yfir höfuð.

Í raun og veru má segja, að fyrir menn, sem búa í sveitum, sé það víða nauðsynlegt að hafa þessa heimild. Það getur t. d. alltaf komið fyrir í sveit, að aflífa þurfi stórgrip, þó að ekki sé annað til tekið. Og það verður ekki gert með öðru en skotvopni, svo sæmilegt sé.

Auk þess, sem sagt hefir verið, má bæta því við, að skotlistin hefir verið og er ein með göfugustu íþróttum og er á ýmsan hátt þroskandi, bæði fyrir auga, hönd og hugsun, og álít ég ekki rétt að banna mönnum að iðka þá íþrótt. (JJ: En ef menn hitta það, sem þeir ætla ekki að skjóta?). Það getur komið fyrir. En svo sjaldgæft er það, að ég sé ekki, að ástæða sé til þess að fara að setja löggjöf þess vegna.

Á meðan ekki er sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir slíkri löggjöf sem þessari, þá álít ég, að fara eigi mjög varlega í að takmarka rétt manna til þess að mega hafa skotvopn í vörzlum sínum. Ég vil beina þeim tilmælum til hv. allshn., að hún komi með skilgreiningu á því, hvað hún telur vopn, og geri í sambandi við það brtt. fyrir 3. umr. Einnig vil ég beina því til n., hvort hún sér sér ekki fært, ef hún vill að málið gangi fram, að ákvæði frv. verði höfð rýmri en þau eru nú.