21.11.1935
Efri deild: 75. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í C-deild Alþingistíðinda. (4628)

145. mál, skotvopn og skotfæri

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Út af því, sem hæstv. forsrh. Sagði síðast, vil ég benda á það, að hann sagði við 2. umr. þessa máls, að 2. gr. frv. hefði komið óvart inn í frv. En nú felur hæstv. forsrh. þessa sömu grein aðalreipi frv. Hæstv. ráðh. segir, að það eigi ekki að leyfa þeim að hafa skotvopn, sem ekki þurfi þess atvinnu sinnar vegna. Maður hefir heyrt, að hæstv. ráðh. hafi farið mikið með byssu, og ég er viss um, að hann hefir haft af því marga ánægjustund, þó hún hafi kannske verið blönduð stundum. En hvers vegna vill hæstv. ráðh. meina öðrum þessa ánægju, þó að hann sjálfan hafi hent slys í sambandi við skotvopn? Þetta er alveg eins og með meinlætamann, sem áður hefir verið mjög frekar í nautnum sínum, en vill svo ekki, eftir að hann er orðinn meinlætamaður, unna mönnum neinna nautna.

Annars kemur þetta frv. alls ekki í veg fyrir slys af skotum. Það þyrfti að vera allt öðruvísi útbúið til þess. Þá þyrfti að vera ákvæði um það, að ekki mætti lána unglingum byssu. En þó ég hafi sett það í mína brtt., að ekki mætti selja unglingum innan 18 ára aldurs skotvopn, þá tel ég það alveg hættulaust, þó að þeir, sem fara með byssu, hafi unglinga með sér. Það verður varla nokkur flinkur skotmaður, sem ekki hefir byrjað að fara með byssu fyrr en hann var orðinn fulltíða maður. Við Vestfirðingar eigum margar ágætar refaskyttur, og þó sérstaklega einn mann, en hann hefir líka frið með byssu síðan hann var 10 ára. Og svo er um aðrar góðar skyttur; þeir hafa byrjað ungir undir eftirliti fullorðinna manna.

Hv. frsm. vildi nú álíta, að öll bönn væru góð og skynsamleg. En það er áreiðanlega misskilningur; það eru til óskynsamleg bönn og skynsamleg, og þar greinir á milli. Það er óskynsamlegt að samþ. það bann, sem felst í frv., en skynsamlegt að samþ. bannið, sem felst í minni brtt. við því að flytja inn hernaðartæki. Þess vegna munu allir í þessu landi forðast að brjóta það hann og enga tilhneigingu hafa til þess, en hið óskynsamlega bann frv. mun allur þorri landsmanna brjóta. Þessi er munurinn á skynsamlegu og óskynsamlegu banni.

Það er mikill misskilningur hjá hv. frsm., ef hann heldur, að ég vilji láta banna öllum yngri en 18 ára að fara með byssu. Ég vil, eins og ég sagði áðan, að menn, sem með byssur fara, hafi leyfi til þess að hafa unglinga með sér og kenna þeim. Það eru fæst slysin, sem hljótast af því, heldur af því, að menn fara ógætilega með skotvopn, eins og t. d. að skilja eftir hlaðna byssu, og væri ekkert á móti því að setja háar sektir við slíku. En um það er ekkert í frv.

Í þessu frv. er líka talað um það, að heimilt sé að ákveða með reglugerð, hvernig fara skuli með birgðir þær af skotvopnum, skotfærum, hlutum og efni í þau, sem fyrir hendi kunna að vera í landinu, þegar I. öðlast gildi. Það er víst til á hverju heimili efni í skotvopn, svo sem járn. stál, kopar, blý o. fl. Það er þó víst varla meiningin að gera þetta allt upptækt. Ég held, að það væri meira til þess að vekja hlátur en til þess að auka á virðinguna fyrir Alþ. samþ. svona endileysu sem þessa. Annars er varla hægt að ræða þetta mál í fullri alvöru, og ætla ég því ekki að þessu sinni að hafa orð mín fleiri.