01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (4678)

22. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Ég get ekki á það fallizt, að ekki sé vel og forsvaranlega frá því gengið, að fela þeim mönnum þetta, sem við leggjum til. Ég fæ ekki betur séð en að þessir menn, vegna þekkingar sinnar, standi flestum ef ekki öllum framar um það, að vera líklegir til þess að gera góðar og skynsamlegar till. í málinu. Auk þess er það svo, að þeir, sem fyrir þessu standa, eiga ítök og sambönd úti um land allt, og þá einkum hjá þeim mönnum, sem þetta snertir aðallega, sem eru sjávarútvegsmenn og sjómannastéttin. Ég held því, að að því leyti, sem aðrir kynnu betur til um hagkvæmar till. í þessu efni, þá standi þeim það ákaflega nærri og séu vel að því komnir að afla sér nauðsynlegra upplýsinga. Ég held því, að ekki sé hægt að ganga betur frá þessari hlið málsins en gert er í þessari till., og það eins vel og þótt ríkisstj. væri falið að velja menn til þessa starfa, og segi ég þetta ekki af því, að ég haldi, að ríkisstj. geti ekki tekizt það val vel. Ég held, að það sé réttara, að Alþ. ákveði um þetta en fela stj. að gera það, þar sem stj. myndi trauðla geta ráðstafað þessu á öllu betri hátt en brtt. gerir ráð fyrir, en það er alveg rétt, að með þessari tilhögun er ómögulegt að gera þetta að bitlingi fyrir nokkurn mann, og það fyrst og fremst af því, að það er ákveðið að fela þetta mönnum, sem allir eru fyrir starfsmenn hins opinbera, eða a. m. k. starfsmenn félaga, sem njóta ríkisstyrks, og þeir eiga ekki að taka sérstök laun fyrir þennan starfa. Ég veit það, að þessir menn hafa svo mikinn áhuga fyrir málinu, að þeir láta það á engan hátt ganga út yfir það, þótt þeim séu ekki ákveðin sérstök laun, og munu heldur ekki telja eftir sér þann tíma sem til þessa hlýtur að fara í viðbót við þeirra núverandi starf. Ég skal ekki fara langt út í þetta, en við tillögumenn leggjum áherzlu á það, að þetta sé unnið borgunarlaust. Það er stefna n. að beina málunum yfirleitt, en ekki einasta í þessu tilfelli, inn á þær brautir, að starfsmenn hins opinbera séu án sérstakrar greiðslu látnir taka að sér slík störf sem þetta, en ekki verið að gera bitlinga úr öllum sköpuðum hlutum. Og ég vænti þess, að í framtíðinni geti orðið gott samkomulag milli Alþ. og þeirra manna, sem slík verkefni verða falin, og að þeir fúslega bæti á sig ýmsum slíkum nauðsynjastörfum. — Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vænti þess, eftir þeim undirtektum, sem málið hefir fengið, að till. fái greiðan gang í gegnum þingið, en ég vildi aðeins láta þessa getið.