30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þessi breyt., sem gerð var á frv. í Nd., er fram komin fyrir tilmæli skattstjórans í Rvík og mín. Ef skattskrá Rvíkur á að vera eins og frv. gerir ráð fyrir, þá hefir það í för með sér meiri vinnu en hingað til hefir þurft að leggja í samningu skattskrárinnar. Þótti því rétt að veita undanþágu og haga þessu eins og áður.

Út af fyrirspurn hv. 4. landsk., hvort þessi skrá með sundurliðuðum tekjum gæti ekki legið frammi í skattstofunni, vil ég taka það fram, að sú skrá hefir verið til. Hún hefir verið samin, en venjulega ekki verið að fullu lokið, þegar skráin um sjálfa skattana hefir verið lögð fram. Hún hefir verið látin sæta afgangi, því að tíminn hefir venjulega verið naumur.

Það mun því verða svo framvegis, eins og hingað til, að menn geta haft aðgang að skrá, sem sýnir þessar tekjur, í skattstofunni nokkru síðar en hin eiginlega skattskrá er lögð fram. því er ekki ástæða til að koma með brtt. við þetta, því að það verður eins og áður, en ef brtt. kemur fram, verður málið aftur að fara milli d., og er það óþarfi.