02.04.1935
Sameinað þing: 8. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (4729)

112. mál, verðuppbót á útflutt kjöt

Magnús Guðmundsson:

Ég kvaddi mér hljóðs áðan, þegar hæstv. forseti lét skína í það, að hann mundi kannske kveða upp úrskurð viðvíkjandi till. um frestun á prentun umræðuparts þingtíðindanna, því að ég vildi, að það kæmi fram, hvað fyrir okkur hefir vakað, sem flytjum þessa till.

Mér skilst, að þessi möguleiki, að vísa till. frá vegna þess að hún sé borin fram í þáltill.formi, en ekki lagaformi, byggist á því, sem er rétt, að l. verður ekki frestað nema með l. Það viðurkenni ég fúslega út af fyrir sig. En ég vil benda á það, að fyrir okkur, sem flytjum þessa till., vakti það, að hér er um heimild að ræða frá meiri hl. þings til stj. um að fresta að framkvæma þetta verk þangað til hægt er að kveða á um þetta með l. Og ég sé ekki, að það sé verra eða meira brot að gera þetta en það, sem stj. er að láta gera nú með því að bera fram þáltill. um fjárútlát úr ríkissjóði, því að það vita allir, að ef farið er strangt út í ákvæði l., þá hefir stj. ekki heimild til að borga út eftir þáltill. Við vitum, að stjórnskipunarlög okkar gera ráð fyrir, að ekki megi borga neitt nema eftir I. En þessi aðferð hefir samt oft verið viðhöfð, af því að þetta er skoðað sem yfirlýsing meiri hl. þingsins um það, að stj. sé vitalaus, þó að hún geri þetta. En það á að staðfestast með l. á eftir, og er ætið gert. Greiðslan er tekin í fjáraukal. á eftir; þar kemur sú heimild, sem heimtuð er eftir okkar stjórnskipunarlögum.

Alveg eins var svo tilgangurinn að fara að viðvíkjandi prentun þingtíðindanna. Okkur var vitanlega alveg ljóst, að endanleg frestun á l. getur ekki orðið nema með l. En aðalatriðið í þessu máli er, að hvergi er sagt, að Alþt. eigi að vera prentuð innan ákveðins tíma. Það er því ekkert á móti því að fresta prentuninni 1—2 ár. Það er t. d. ekki enn farið að prenta neitt af umræðupartinum síðan í fyrra. Ekkert er ólöglegt við það. Það, sem við ætlumst til, er það, að á næsta þingi eða framhaldi þessa þings yrði samþ. frv. um þetta. Og ég tók sérstaklega fram í n., að ef slíkt frv. ætti að koma fram, þá vildi ég, að það yrði um það, að hætta alveg prentun umræðuparts Alþt., en ekki láta það vera bundið við frestun 1—2 ár.

Þetta vildi ég láta koma greinilega fram, til þess að hæstv. forseti viti, hvað fyrir okkur flm. vakir. Hann lýsti einmitt eftir því, að það ættu að koma fram öll meðmæli og andmæli gegn þeirri till., sem um er rætt, áður en úrskurður yrði felldur, og er það rétt.

Ef hæstv. forseti ætlar að neita um það, að þessi till. komi til atkv., af því að hér sé farið fram á að fresta l. án þess að með lagafyrirmælum sé, þá vil ég segja honum það, að ég skil ekki, hvernig hann getur þolað það brot á okkar stjórnskipunarl. að samþ. þáltill., sem heimilar stj. útgjöld úr ríkissjóði. Því að það er nákvæmlega það sama, sem hér er á ferð, að því leyti, að hvorttveggja á að staðfestast með l. síðar. Og þótt þessi till.samþ., þá hefir þingið ekki sagt hér neitt annað en það, að stj. sé vitalaus, þó að hún láti ekki, þangað til framhald þessa þings verður, prenta neitt af umræðupartinum.

Annars vil ég benda á það, að hér er líka rætt um að fella niður nokkra liði úr fjárl. vitaskuld er það jafnóheimilt, því að fjárl. eru líka l. Það hefir að sönnu verið svo, að það er litið nokkuð öðrum augum á einstakar útgjaldaskipanir og útgjaldaheimildir í fjárl. heldur en venjul. l.; það skal ég viðurkenna. En ef á að fara strangt út í þetta, þá veit ég ekki af, að okkar stjórnskipunarlög geri neinn mun á fjárl. og öðrum l. Og ef menn ætla allt í einu að fara að verða svo hárnákvæmir um það, hvað þeir telji brjóta í bága við stjórnskipunarl., þá er bezt að vera það í öllum greinum.

Ég ætla það væri hæstv. fjmrh., sem spurði mig um það í gær, hvort ég gæti og vildi nokkuð um það segja, hvað mörg atkv. úr Sjálfstfl. mundu verða með þessari till. Ég sagði honum það þá, að það væri til nokkuð mikils mælzt, og ég get sagt honum það nú, að ég hefi ekki hugmynd um það. Í sjálfstfl. eru menn algerlega sjálfráðir um það, hvort þeir eru með þessari till. eða móti. Við höfum þar engin handjárn og hver og einn hefir sína sannfæringu. Ég get ekki skilið, að það geti talizt stefnuskráratriði flokks, hvort fresta beri einhverjum ákveðnum útgjöldum eða ekki.

Ástæðan fyrir því, að ég vil greiða atkv. með till., er sú, að ég álít, að varla verði of mikið í ríkissjóðnum á þessu eða næsta ári, og vil ég því stuðla að því, að fellt verði niður eins mikið af gjöldum og unnt er. Eftir útlitinu að dæma treysti ég mér ekki til þess að vera á móti neinum sparnaði. Hvað sem því líður, að sumir telja hér engan sparnað á ferðinni — það var víst hv. 9. landsk., sem sagði það —, þá verður því samt ekki með rökum neitað, að hér er um sparnað að ræða. Hitt má aftur á móti deila um, hvað þessi sparnaður sé mikill.