04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (4779)

120. mál, skaði af ofviðri

Einar Árnason:

Það er aðeins út af orðalagi á 1. lið brtt., sem mér virðist — a. m. k. í sambandi við brtt. á þskj. 333 — að kunni að valda nokkrum misskilningi. Það er talað hér um skaða við Eyjafjörð, og það kann að verða litið svo á, að sá hluti, sem ekki heyrir til Eyjafjarðarsýslu og er í lögsagnarumdæmi Siglufjarðar, en telst þó í Eyjafirði, eigi að vera undanskilinn. Svo er t. d. ástatt um Siglunesið, en þar urðu nokkrir skaðar hjá bændum í ofviðrinu í haust. Ég geri ráð fyrir, að það heyri að sjálfsögðu undir það svæði, sem till. þessi grípur yfir. Og ég ætla að ganga út frá því, sé þessum skilningi ekki mótmælt. En þá kemur vitanlega til greina viðvíkjandi vatill. á þskj. 353, ef hún verður samþ., að bæjarstj. Siglufjarðar verður að taka sinn þátt í þeirri lántöku, sem kynni að fara fram samkv. þeirri till.

Út af því, sem hv. 8. landsk. minntist á, hvort félög og einstaklingar ættu að njóta sama réttar um bætur, vil ég geta þess út af því mati, sem fram hefir farið í Eyjafirði í vetur, að þeir vildu ekki taka til greina annað en skaða einstaklinga, og þá sérstaklega þeirra, sem hafa misst sin framleiðslutæki, báta, veiðarfæri og jafnvel salt, sem þeir áttu, og stóðu eftir allslausir og höfðu ekki ráð á að koma upp neinum tækjum til að geta stundað atvinnu sína. Þetta voru aðallega mennirnir, sem áttu að fá bætur, en félög eða stærri fyrirtæki komu ekki til greina.

Ég vil drepa á það út af því, sem hér hefir komið fram um styrk til endurbóta á bryggjum á ýmsum stöðum, að í þessu ofviðri hafa farið miklu fleiri bryggjur en enn hafa verið nefndar, t. d. flestar bryggjur á Dalvík, þar á meðal tvær bryggjur, sem kaupfélag Eyfirðinga átti, og hefir engum dottið í hug, að ríkissjóður færi að leggja fram fé til þessara bryggja þar. Það er því að fara út á mjög hála braut, ef ríkissjóður á að taka þátt í bótum á þeim bryggjum, sem hafa brotnað, því að þess ber að gæta, að margar af þessum bryggjum eru sífellt í hættu af sjógangi, jafnvel þó að hann sé ekki eins mikill og var í haust, og hefir engum dottið í hug, að ríkissjóður ætti að greiða það.

Út af því, sem hv. 8. landsk. minntist á líka, í hvaða hlutfalli þessu fé yrði skipt, þá get ég vitanlega ekkert um það sagt. Ég vil aðeins benda á það, sem hv. frsm. fjvn. minntist á, að þeir menn, sem framkvæmdu matið við Eyjafjörð, tóku það sem aðalreglu, að skipta mönnum í 3—4 flokka, að einstaklingar, sem væru bláfátækir og hefðu misst allt sitt bjargráð, fengju hlutfallslega mest, þeir, sem betur væru stæðir, minna, og jafnvel þó nokkrir, sem ekkert fengju. Nú er vitanlegt, að þessar 60000 kr., sem hér eru ætlaðar samkv. þessari till., hrökkva ekki nærri því til að greiða einstaklingum bætur í þessu hlutfalli, sem hér hefir verið talað um, 75%, 50% og 25%, og þar sem nú á að telja með tjón, sem orðið hefir í Þingeyjarsýslu og Skagafirði, þá sé ég ekki betur en að lækka verði bæturnar til þeirra, sem fátækastir eru og verst stæðir, og hinir fái minna og sumir ekkert.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en ég vil aðeins leggja áherzlu á það, að sá hluti, sem liggur að Eyjafirði og heyrir undir lögsagnarumdæmi Siglufjarðar, hafi að sjálfsögðu sama rétt og þeir, sem eru inni á Eyjafirði.