08.11.1935
Efri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (4831)

104. mál, uppeldisstofnun fyrir vangæf börn og unglinga

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Eins og sjá má af nál. á þskj. 469, er n. sammála um að leggja til, að till. verði samþ.

Það er hið sama að segja um þessa till. og þá, sem var hér næst á undan, að henni var vísað til sömu stofnana, landlæknis og barnaverndarráðs, en n. engin umsögn þaðan borizt. En þrátt fyrir það hefir n. einhuga komizt að þeirri niðurstöðu, að nauðsyn beri til að samþ. till. þá, sem hér liggur fyrir. Er hér um flokk manna að ræða, sem ekki er gert ráð fyrir, að ríkið framfæri, í frv. því um sjúka menn og örkumla, er lagt hefir verið fyrir þingið. Þó þessi börn séu ekki líkamlega sjúk, eru þau a. m. k. með andlegan kvilla, og yfirleitt nefnd ódæl börn.

Af hvaða ástæðum sem það er, hefir þessum vangæfu börnum fjölgað svo á seinni árum, einkum í stærri kaupstöðum, að til vandræða horfir. Þetta vita þeir bezt, sem um fátækramál kaupstaðanna hafa fjallað. Helzta úrræðið hefir venjulega verið að koma þessum börnum fyrir á einhverjum sveitaheimilum, sem alið hafa önn fyrir þeim um lengri eða skemmri tíma. En þó foreldrar og aðrir aðstandendur barnanna hafi orðið þeim ráðstöfunum fegnir, eru mörg sveitaheimilin í raun og veru ekki fær um að veita börnunum það líkamlega og andlega uppeldi, sem þau þyrftu að fá, þar sem vantar bæði vinnukraft og ýmsa aðra aðstöðu. Hér er því ekki nema eitt úrræði fyrir hendi, að koma upp hæli fyrir þessi börn. Ég teldi það mikið þarfaverk, að reyna að forða þessum unglingum frá að lenda e. t. v. á því verri villistigum, sem aldurinn færist meira yfir þá. Í öðrum löndum eru víða hæli, sem annast uppeldi þessara barna. Og hér á landi er þörfin til þess að verða knýjandi á síðustu árum, með vaxandi fjölgun fólksins í bæjunum. Hér er ekki farið fram á annað en að hæstv. ríkisstj. athugi málið og undirbúi löggjöf um það. Er því ekki um nein útgjöld fyrir ríkissjóðinn að ræða, enda er sá fyrirvari í nál., að þetta sé gert, þegar ríkisstj. telur, að geta ríkissjóðs leyfi. — Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál, en mælist til, að hv. d. samþ. þáltill.