04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (4901)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég ætla að svara tveim atriðum, sem hv. 5. þm. Reykv. leggur áherzlu á. Hann álítur, að sérstaklega sé hægt að misnota afstöðu raftækjaverzlunarinnar fyrir þau sambönd, sem hún hafi. Við þetta er það að athuga, að verzlanir ráða yfirleitt ekki, frá hvaða landi þær flytja inn, því að þar koma gjaldeyrishömlur til greina.

Annað atriði, sem hv. þm. lagði áherzlu á, var það, að ég hafi minnzt á hluthafa í fyrirtækinu og nefnt nöfn. Frá mínu sjónarmiði er ekkert við það að athuga. Mér dettur ekki í hug að halda, þó að sjálfstæðismenn séu, að þeir hafi nokkurn hagnað af þessu. Þetta er því ekki niðrandi um þá. En það hefir verið gefið hér í skyn, að menn, sem standa nærri stj., hafi hér einhvern hagnað af. Við værum því að hugsa um okkar eigin gróða. En við erum hvorki að hugsa um hagnað eins né annars. Og það fólst ekki snefill af niðrun í þessu hjá mér.

En viðvíkjandi till., því gerir ríkisstj. sig ánægða, ef samþ. verður þessi dagskrá. Hún telur það vel viðunandi lausn á málinu.