04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í D-deild Alþingistíðinda. (4932)

122. mál, þýsk ríkismörk

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Mér þykir skylt, vegna þess að mér finnst kenna nokkurs misskilnings um þetta mál, að gefa þær upplýsingar, sem ég get; en ég skal reyna að vera stuttorður.

Það var fyrst árið 1931, að opnuð var þessi konto fyrir ísfiskssölu til Þýzkalands, og hefir hún síðan verið opin með samskonar skilyrðum og hún var í öndverðu. Þegar til þessa var stofnað í upphafi, var ekki þekkt sú útflutningsívilnun, sem nú er gefin af þýzkum vörum, eða það exportrabat, sem nú er gefið til hjálpar því, að þýzkar vörur geti staðizt samkeppni á útlendum markaði. Þessi togarareikningur er algerlegu sérstakur í þýzkum bönkum og kemur ekki við þeim almennu clearing-kontoum, sem opnaðar voru í fyrra fyrir ýmsar aðrar landbúnaðar- og sjávarafurðir. Sem sagt, þessi togarakonto er algerlega sérstök.

Það hefir þótt hagstætt fyrir togaraflotann að eiga þetta innhlaup á þýzkan markað og geta landað og selt á þessa konto, og bankarnir hér hafa svo aftur getað komið í lóg andvirði þeirrar vöru, sem landað hefir verið á þessa konto. Síðan hefir þessi nýi máti þróazt og vaxið, að selja til útlanda með export-premiu, og þegar í fyrra hin kontoin var opnuð, sú, sem við megum borga inn á fyrir aðrar vörur en togarafisk, þá var aðeins lítill hluti, sem borgaður var inn á þann clearing-reikning. Sú konto tekur við andvirði fyrir allar vörur aðrar en fisk, og með því verði má borga fyrir allar þýzkar vörur, líka þær, sem export-premia er gefin fyrir. En enn sem komið er er ekki hægt fyrir togarareikninginn að borga þær vörur, sem fá exportpremiu. Ég fór fram á það við samningana nú, við þá, sem með þessi mál fara, að þessi reikningur yrði gerður hliðstæður hinum og jafnrétthár. Sá maður, sem hefir haft með gjaldeyrisleyfin að gera, svaraði þessari málaleitun á þessa leið: Þið hafið getað notað þessa konto hingað til og borgað með henni, þó hún hafi ekki náð til þess varnings, sem exportrabat er gefið af, og sé ég þá ekki, að þið þurfið sérstaklega um að breyta nú, þegar þið auk þess hafið hina, sem nær líka til þeirra vörutegunda, — og nú stendur það svo, að togarakontoin er ekki eins aðgengileg til afnota eins og clearingkontoin, sem opnuð var í fyrra.

Ég skal ekki fara út í það, hvað skeð hefir í þessum málum síðan 1931, er þáv. stjórn fékk þessa togarakonto opnaða. En síðan hefir ýmsum málum skipazt og við höfum fengið ýms fríðindi, sem allir eru sammála um, að togaraflotanum sé til gagns. En þegar ég tala um togaraflotann, má auðvitað alveg eins vel segja, að talað sé um þá menn, sem vinna við togaraflotann.

Síðastl. ár nam ísfiskssala togaranna á þýzkan markað um 20% af öllum ísfisksútflutningnum, og var þó sá markaður ekki opinn nema fjóra mánuði — ágúst—nóvember; og hann verður það heldur ekki nú á þessu yfirstandandi ári. Í fyrra lagði ég alveg sérstaka áherzlu á það við þau yfirvöld, sem leyfi veita til löndunar á ísfiski, að þau létu vita svo tímanlega, að þeir, sem fengju að landa í ágúst, gætu notað sér það leyfi. Þetta leyfi kom svo 12. júlí, og ég tilkynnti þáv. forsrh. það strax, og mér er kunnugt um, að hann lét útgerðarmenn vita um það tafarlaust. Þessar ráðstafanir voru gerðar til þess, að útgerðarmenn færu ekki á mis við að nota þennan kvóta. En raunin varð sú, að leyfið fyrir löndun í ágústmánuði var ekki notað eins vel og vera bar, og afleiðing þess varð sú, að í fyrra var þessi kvóti notaður mun minna en heppilegt hefði verið.

Í fyrra vorum það við, sem æsktum þess og lögðum áherzlu á, að okkur væru tilkynnt löndunarleyfin sem fyrst, en nú er það frá Þýzkalandi, sem sú ósk kemur, og henni hefi ég komið á framfæri, að þeir fái að vita það þegar í júlí, hve mörg skip muni verða látin ganga á þýzkan markað í haust.

Nú hafa útgerðarmenn látið það uppi, að þótt þeim hafi þótt gott að geta landað á þessu kontu, þá hafi það dregið mikið úr ánægjunni, hve erfitt er að fá þennan markað afreiknaðan, — ég hygg það ekki ofmælt, að það liði 5—6 mánuðir frá því að landað er og þangað til þessir peningar fást afreiknaðir í bönkum hér. Fyrsta ástæðan fyrir þessu er sú, að sökum sérstakra skilyrða við þýzkan markað eru peningar greiddir þar inn á reikning að jafnaði ekki fyrr en 4 vikum eftir löndun. Ástæðurnar fyrir því munu menn skilja án nánari skýringa. Þar við bætist svo, að menn fá ekki þessa peninga afreiknaða fyrr en mörgum mánuðum þar frá. En útgerðarmenn hér verða að standa skil á sköttum og skyldum og borga kaup sjómanna á eðlilegan hátt strax þegar skip kemur út. Þar við bætist svo sú áhætta, sem þeir verða að hafa af hugsanlegri gengisbreytingu. En hún hefir nú hingað til engin orðið í reyndinni, svo þó ríkið hefði tekið á sig þessa ábyrgð strax árið 1931, sem ég tel, að hefði á engan hátt verið til of mikils mælzt, þá hefði fyrir þá sök enginn eyrir verið greiddur úr ríkissjóði árið 1935. Þetta er reynsla undanfarinna ára, hvað sem framtíðin kann að bera í skauti sínu. — Hér í kvöld hafa verið samþ. allveruleg fjárframlög til að bæta mönnum tjón, sem þeir hafa beðið af völdum óveðurs. Það hafa verið samþ. til þess bein útgjöld úr ríkissjóði, og er ekki að lasta þetta; ég tel sjálfsagt, að nauðsyn hafi til borið að bæta þeim, sem þannig hafa orðið fyrir beinum sköðum. Hér var líka nú fyrir lítilli stundu samþ. að veita 150 þús. kr. til verðuppbótar á útflutt kjöt. Þan mun líka vera full nauðsyn á því. En þegar mælzt er til, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir hugsanlegri gengisbreyt. á þýzkum mörkum fyrir togaraflotann og þá ísfisksölu, sem hann á í vændum, þá stendur hv. form. fjvn. upp og talar um þau mestu og hættulegustu fjármál, sem fram hafi verið borin á þessu þingi, og hæstv. fjmrh. talar um alvarleg og háskaleg spor. (JJ: Því vildi landsbankinn ekki taka á sig þessa ábyrgð?). Ef landsbankinn ekki gerir það, þá er það beinlínis skylda ríkisvaldsins að taka af mönnum þeim, sem þessa atvinnugrein stunda, þá sérstöku áhættu, sem við hana er tengd. Það fordæmi er fyrir áður í landinu, að slíkt hafi verið gert.

Það er hv. þm. kunnugt um, að hingað hefir borizt bréf frá útgerðarmönnum, þar sem þeir ekki telja vist, að þeir þori að leggja út í að gera út á þýzkan markað, ef þeir eigi að búa undir sömu skilyrðum eins og verið hafa frá því árið 1931, að þessar ferðir hófust.

Mér hefir skilizt, að látið hafi verið skína hér í gegn, að það megi taka þessu tillögu til meðferðar næst þegar þing kemur saman, en þá verða þegar liðnir 21/2 mánuður af þeim 4 mánuðum, sem þessi markaður er opinn, og um það bil sem ég gæti ímyndað mér, að það yrði komið til afgreiðslu, mundi ekki verða eftir meira en 1 mánuður af starfstímanum. Í sambandi við þetta vil ég geta þess, sem ætti að vera augljóst, að jafnvel þótt það tækist að veita þessa tryggingu snemma í október, þá ber það ekki þá ávexti, sem það þarf að bera, vegna þess að það, sem með þarf, er að veita þeim mönnum, sem þessa atvinnu stunda, öryggi til þess að geta notað þetta innhlaup á þýzkum markaði, og þetta öryggi þarf að komast inn í þeirra hug fyrir byrjun ágústmánaðar. Á því grundvallast það, hvort útgerðarmenn þora að leggja í þetta af fullu kappi, og á því grundvallast svo það, hvort eins margir sjómenn fá atvinnu eins og ella mundi.

Í fyrra var það svo, eins og ég benti á hér í blaðagreinum, að þýzki markaðurinn var of seint notaður, og afleiðing þess varð sú, að fleiri seldu á enskan markað heldur en heppilegt var, og sá markaður fylltist svo í nóvember, og þegar svo er komið, þá bitnar það á smábátaútveginum, því hann getur ekki notað þýzka kvótann, en er bundinn við þann enska, og eftir því sem hann er meira notaður af togaraflotanum, eftir því verða minni möguleikar fyrir smábátaútgerðina, sem nú er farin að nota enskan markað í stórum stíl. Þetta snertir því ekki aðeins ísfiskssölu togaranna, heldur allan ísfisksútflutning, því betur sem þýzki markaðurinn er notaður, því rýmra verður um sölu á enskum markaði. Þetta finnst mér, að öllum ætti að vera ljóst, og þá er það einnig ljóst, að ráðstafanir þær, sem þarf að gera til þess að tryggja það, að þýzki markaðurinn sé notaður eins vel og skynsamlega og hægt er, verða að gerast áður en skip byrja að sigla þangað. Það er of seint að gera þær í október.

Ég skal ekki orðlengja um þetta mál nema tilefni gefist til þess, en vil benda á nauðsyn þess að gera ráðstafanir, sem tryggja þennan lið ísfiskssölunnar, og ég vil vara við því að láta dragast úr hömlum að gera þær ráðstafanir.

Það er ekki rétt að tala svo um þetta mál, að það sé sérstaklega hættulegt, að allt annað megi gera, en ekki þetta. Sé þessu máli frestað, kann það að verða til þess, að margir þeir menn, sem gera sér von um atvinnu við togaraútgerðina, verði af þeirri von. Og það er óráð, að enski markaðurinn sé fylltur fyrri hluta tímabilsins, eins og gert var síðastl. haust til skaða fyrir togaraútgerðina og einnig fyrir vélbátana, sem mikið stunda þá atvinnu að senda fisk til Englands.

Ég vil svo enda þessi orð mín með þeirri ósk, að hæstv. forseti og yfir höfuð þeir, sem hér ráða ríki, láti sér skiljast, að það er mjög óheppileg ráðstöfun að skjóta málinu á frest, og ég get ekki annað en varað við því, að þetta sé framkvæmt á þann hátt, sem hæstv. fjmrh. óskar. — Ég skal taka það fram, að þó að við megum selja til Þýzkalands á þessu ári ísfisk fyrir 800 þús. Rm., þá yrði þessi ábyrgð aldrei fyrir meiru en gengisbreyt. á 1/2 millj. Rm., og getur ekki orðið fyrir meiru samkv. tilhögun útflutningsins.