14.11.1935
Efri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Brtt. á þskj. 506 mun vera frá hæstv. atvmrh., og ég get látið í ljós ánægju mína yfir því, að hún er fram komin, a. m. k. þeim lið hennar, er gerir ráð fyrir að fella niður 6% verðjöfnunargjaldið. Okkur sjálfstæðismönnum sýndist þegar í byrjun þessa þings, að grundvöllur sá, er gjald þetta var byggt á, hefði raskazt svo mjög, að full ástæða væri til að fella gjald þetta niður. Var þá af mönnum úr okkar flokki leitað samkomulags við stjórnarflokkana og hæstv. ráðh. um þetta atriði. Hefir nú hæstv. ráðh. og flokkar þeir, er að stj. standa, fallizt á þetta a. n. l., en þó ekki öllu, eins og brtt. bera með sér. Hæstv. ráðh. lýsti því yfir í byrjun þessarar umr., að allir flokkar hefðu staðið að því á þingi 1934, að gjald þetta yrði lagt á. Hafa margir tekið þessi ummæli hans sem mótmæli gegn ómaklegum árásum og svívirðilegum áburði, sem hv. þm. S.-Þ. hefir látið sér sama að flytja um þessi mál. Er það sennilega gert í þeim tilgangi að reyna að deila ómaklega á sjálfstæðismenn og reyna að koma inn hjá mönnum, að þeir hafi átt frumkvæðið og sennilega úrslitaúrskurð um endanlega álagningu þessa gjalds. Náttúrlega hefði mátt ætla, að hæstv. ráðh. hefði strax, þegar þetta mál var þannig rætt, gert frekari ráðstafanir, þar sem vitað er, að Sjálfstfl. er bundin þagnarheiti í þessum málum, sem honum ber siðferðileg skylda til að bregðast ekki. Þegar þessi blaðaskrif hv. þm. S.-Þ. komu fyrir almenningssjónir, þar sem deilt er á einstaklinga og heilan flokk. í þeirri vissu eða með vísu trausti þess, að sjálfstæðismenn mundu ekki bregðast þagnarskyldu sinni um utanríkismál, þrátt fyrir það, í mjög ódrengilega sé að vissum mönnum sveigt í umræddum greinum, í þeim tilgangi að reyna að hnekkja pólitísku gengi flokksins. Sem betur fer var þessi von hv. þm. S.-Þ. ekki út í loftið, og sjálfstæðismenn hafa ekki brugðizt þagnarheiti sínu, en að öðrum kosti hefði meira tjón getað hlotizt af en hann og hans flokkur er fær um að bæta fyrir.

Um brtt. mína á þskj. 537 vil ég segja þetta: Eins og öllum er kunnugt, stendur sjávarútvegurinn mjög höllum fæti, svo að með engu móti er rétt eða forsvaranlegt að leggja á hann aðrar eða meiri kvaðir en aðra atvinnuvegi, t. d. landbúnaðinn. Reyndar er það svo, að margir hafa lifað í þeirri trú á síðari árum, að sjávarútvegur væri sérstaklega arðberandi atvinnuvegur. Hefir þessu alveg sérstaklega verið haldið fram af flokksmönnum hæstv. atvmrh., að sjávarútvegur væri ákveðin gróðalind einstakra manna. Hafa þeir einkum viljað sanna þetta með því, að útgerðarmenn hafi haldið áfram að gera út þrátt fyrir meira og minna tap ár frá ári. En nú hefir með starfi mþn. í sjávarútvegsmálum verið sannað, að tap hefir verið á útgerðinni undanfarin ár, og síðan hún lauk störfum, eða þau síðustu ár, sem skýrslur hennar ná ekki yfir, er vitað, að þau töp eru stórfelldari en nokkru sinni áður. Mþn. í sjávarútvegsmálum kemur með ýmsar ábendingar og till. til viðreisnar þessum atvinnuvegi. Og það er vitanlegt, að þúsundir manna, bæði útgerðarmenn og sjómenn um allt land, skoruðu á hæstv. Alþ. samþ. þessar till. eða frv., sem mþn. bar fram og þeir töldu, að orðið gæti til viðreisnar útgerðinni. En þetta hefir ekki orðið. Hv. þingmeirihluti hefir ekki séð sér það fært að ganga móts við þær till. um að létta gjöldum af útgerðinni eða styðja útgerðina, eins og farið var fram á, eða hingað til a. m. k. hefir það verið svo. Í þessu eiga útgerðarmenn og sjómenn — a. m. k. allir, sem ráðnir eru upp á hlut úr afla — sameiginlegra hagsmuna að gæta, og þeir bjuggust við, að eitthvað yrði gert, en því miður hefir litið eða nálega ekkert verið gert af hálfu ríkisvaldsins.

Aðstaða okkar í samkeppninni við aðrar þjóðir, og þá sérstaklega frændur okkar Norðmenn, er svo erfið, að það er alveg undravert, að íslenzk útgerð skuli ekki vera komin í kaldakol fyrir löngu. T. d. er það svo, að ef fullverkaður stórfiskur selst á 75 kr. skp., þá fá sjómenn hér 33 kr., en Norðmenn fá með sama verði 52 kr. á skp.

Við það, að 6% verðjöfnunargjaldið verður fellt niður. batnar þessi afkoma sem svarar kr. 4.50 á skp., miðað við sama verð. En samt yrði mismunurinn 13 kr., sem íslenzkir útgerðarmenn fengju minna en Norðmenn fyrir hvert skp. Það er náttúrlega ekki hægt í fljótu bragði fyrir ríkisstj. að bæta aðstöðuna, svo að þessi mismunur jafnist til fulls, eða fullur jöfnuður náist milli þessara aðilja, en vissulega þarf svo að verða, ef við eigum að geta keppt við þá í markaðslöndunum, sem eru að mestu leyti þau sömu.

Sumt má lagfæra með því að lækka skatta og tolla, er nú hvíla á útgerðinni, en sumt með bættri verzlun, t. d. á olíum og veiðarfærum, sem segja má kannske, að liggi utan við valdsvið þingsins. En þess verður að vænta af ríkisvaldinn, að það felli niður þá tolla, sem í þess valdi stendur, eins og t. d. útflutningsgjald af sjávarafurðum. Fyrir utan þann mismun, er ég gat um áðan að væri á verði pr. skp., er komi í hlut íslenzkra og norskra útgerðarmanna, bætist það svo við, að Íslendingar verða að kaupa sumar vörur hærra verði en Norðmenn, svo sem olíur og veiðarfæri, er ég gat um áðan. Veldur þar nokkru um lega landsins og staðhættir, og er erfitt úr því að bæta, svo að jöfnuður náist, en það, sem liggur í valdi þingsins, er að fella niður útflutningsgjaldið, og þó að það muni ekki nema 1 —2 kr. á skp., munar það þó nokkru, og jafnvel því, sem oltið getur á til eða frá um afkomu útvegsins. þess vegna hefi ég borið fram brtt. á þskj. 537, er fer fram á, að ákvæðinu um 1/2 —1/8% gjaldið verði af létt. Hefði náttúrlega mátt fella niður allan liðinn, því að í l. nr. 76 frá 29. des. 1934, um fiskimálanefnd o. fl., eru einmitt í 13. gr. ákvæði svipuð og í 1. lið a. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku í því skyni að greiða fyrir sölu afurða og styrkja nýjar veiðiaðferðir og verkunar.