12.10.1935
Sameinað þing: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

Kæra um kjörgengi

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi með mestu athygli fylgt umr. þeim, sem hér hafa farið fram, og finnst mér þar kenna misskilnings hjá mörgum. Sérstaklega var það hv. 6. landsk., sem talaði einkennilega. Hann segir, að sér þyki það undarlegt, að sumir séu að tala um 2 tegundir þm. En ég vil nú leiða athygli hv. þm. að því, að hér á þingi eru einmitt 2 tegundir þm., kjördæmakosnir þm. og landsk., sem eru til uppbótar milli flokkanna. Um þessa þm., kjördæmakosna og landsk., gilda mjög mismunandi reglur. Menn þurfa ekki annað en líta í kosningal. til þess að sjá, á hversu ólíkan hátt þeir ná þingmennsku. Það er því ekkert undarlegt, þó það kynni að vera á annan hátt, sem hinir landsk. missa þingmennsku, enda er það svo.

það hefir verið bent á það, að landsk. þm. verður undir vissum kringumstæðum að fara af þingi án þess að hafa misst kjörgengi. Þetta sýnir, að það er ekki rétt, sem segir í till. meiri hl. kjörbréfan., að stjskr. heimili ekki að taka umboð af þm., nema þegar hann hefir glatað kjörgengi sínu. Meiri hl. verður að játa þetta, því ég veit, að hann álítur ekki, að kosningal. brjóti stjskr. Stjskr. inniheldur ekki neitt beint ákvæði um þetta, en vísar til reglna kosningalaga. Ég vil benda meiri hl. á þetta, því það er leiðinlegt, ef till. verður samþ., sem felur það í sér, að kosningal. brjóti í bág við stjskr., enda er það ekki svo. Hv. meiri hl. hefir þarna sést yfir 133. gr., því að þar eru ákvæði, sem heimila það, sem þeir telja óheimilt.

Fyrst svo er, að til er þetta ákvæði, sem brýtur í bág við reglurnar um kjördæmakosna þm., ætli það geti þá ekki verið fleiri ákvæði, sem gera það? Jú, vissulega, og skal ég nú athuga það nánar.

Stjskr. segir, að hinir landsk. þm. eigi að vera til jöfnunar milli þingflokkanna, svo að þingflokkarnir fái þingsæti sem næst atkv.magni hvers flokks á öllu landinu. Það er beint fyrirskipað í stjskr., að þessir þm. eigi að vera til jöfnunar, og er það gert til þess, að flokkarnir á þingi séu sem mest í hlutfalli við atkv.magn flokkanna í landinu. En hvernig á að fullnægja þessu, ef á þingi situr maður, sem ekki er kosinn í kjördæmi og er ekki heldur til jöfnunar fyrir neinn flokk? Með því að viðurkenna slíkan þm., kemur fram 3. tegund þm., sem sé þm., sem ekki eru kosnir í kjördæmi og ekki heldur til jöfnunar milli flokka. Ég fullyrði, að hvorki í stjskr. né kosningal. sé gert ráð fyrir 3 tegundum þm. Þess vegna verður hver sá landsk. þm., sem ekki er til jöfnunar fyrir flokk, að fara af þingi, og annar, sem er til jöfnunar, að koma í hans stað. Allt annað er brot á stjskr., svo að ég nú ekki tali um brot á anda stjskr.

Tilgangurinn með þessu skipulagi var auðvitað sá, að uppbótarþm. væru til þess að jafna misræmið milli flokkanna. Og ef þeirri reglu er ekki fylgt, þá er að engu gerð eða rýrð sú réttarbót, sem fengin var með þessum ákvæðum og á sínum tíma var gert mikið úr. Það var sagt af einum hv. ræðumanni áður, að það væri nóg, að tala þm. væri í samræmi við atkv.magn flokkanna í byrjun kjörtímabilsins, en það ætti ekki að hugsa um breytingar, sem yrðu á kjörtímabilinu. En þetta er meginvilla, því í upphafi kjörtímabilsins er skorið úr því, hversu marga uppbótarþingmenn hver flokkur skuli fá það kjörtímabil, sem í hönd fer. Kjördæmakosnir þm. mega fara úr flokki án þess að þeir verði að leggja niður þingmennsku. Uppbótarþingmenn geta líka sagt sig úr flokki, en þá verða þeir að fara af þingi og rýma sæti fyrir varauppbótarmanni. Þetta er af því að seta þeirra á þingi byggist eingöngu á því, að þeir séu til jöfnunar minni þingflokka. Ef þeir hafa misst þau skilyrði, sem þarf til þess að vera uppbótar þm., þá verða þeir að fara. Þetta kemur greinilega fram í 127. gr. kosningal., þar sem sagt er hvernig uppbótarsætin skiptist milli þingflokkanna og að þessi flokkur fái 1. uppbótarþingsæti, en hinn 2. o. s. frv. allt eftir atkv.magni flokkanna. Og þetta á ekki að vera þannig aðeins í byrjun, heldur allt kjörtímabilið. Og til þess að vega á móti forföllum eru hafðir varaþm. Og ég vil nú spyrja: Eru nokkur meiri forföll til en þau, að landsk. þm. fer úr flokki? Ég svara þeirri spurningu hiklaust neitandi. Ef uppbótarþm. er forfallaður í hálfan mánuð, þá kemur varaþm. í hans stað. En ef hann er forfallaður í 3 ár, — á þá enginn að koma í hans stað? Ef svo væri, þá væri þar með tekinn réttur af flokkunum, eftir að landskjörstj. hefir ákveðið, hve marga uppbótarþm. hver flokkur á að fá. En ef svo alvarleg forföll koma fyrir uppbótarþm., að hann fer úr flokki, þá er ekki annað fyrir hann að gera en fara af þingi, því þá er hann orðinn óhæfur til þess að inna af hendi það hlutverk, sem hann átti að inna af hendi.

Í þessu sambandi kemur sannfæringarkrafan ekkert við málinu. Það er enginn að halda því fram, að landsk. þm. sé skyldugur til þess að vera áfram í flokki. Nei, hann má fara, en hann verður þá að taka afleiðingunum af því og láta annan taka við í sinn stað. Ég álít, að það sé til sæmdar landsk. þm., að segja til, ef hann skiptir um skoðun, en þá verður hann að taka afleiðingunum af því. (JG: En hvernig er það með kjördæmakosna þm.?). Það er leiðinlegt, að það skuli ekki vera komið inn í höfuðið á þessum hv. þm. neitt af muninum, sem er milli þessara 2 tegunda þm. Það er hvergi sagt, að kjördæmakosnir þm. eigi að tilheyra sérstökum flokki. En um landsk. þm. er það ekki sagt á einum stað heldur 10—20 stöðum, að þeir eigi að vera af ákveðnum flokki. Og þar í liggur munurinn. Það er leiðinlegt, að jafnglöggur maður og hv. 6. landsk. skuli ekki hafa skilið, hvaða breyt. varð á kosningal. 1934. Þá var að sönnu ekki verði að búa til neinn lægri flokk þm. með hinum landsk. þm., en þessir þm. verða að uppfylla sérstök skilyrði, og þegar þeir geta það ekki lengur, þá verða þeir að fara. Þeir eru þá dauðir fyrir sinn flokk og verða að taka afleiðingunum af því. Flokkarnir eiga heimtingu á því samkv. stjórnarskránni.

Það má vera, að það sé vorkunnarmál, þó að stj.flokkarnir vilji halda í þennan fyrrv. hv. þm. Það er mannlegt, þó að það sé ekki mikilmannlegt. En þó að hann fari af þingi, þá held ég, að stj. fái að sitja fyrir því. Það er alls ekki víst, að hennar lífdagar séu taldir, þó hún missi þetta hald, sem hún ætlar að fljóta á framvegis.

Hv. frsm. meiri hl. orðaði lítillega kosninguna í Skagafirði. Hv. 10. landsk. sýndi fram á, að það var á misskilningi byggt, sem hann sagði umhana. Hann blandaði þar saman mismunandi reglum, sem gilda um kjördæmakosna þm. annarsvegar og landsk. hinsvegar. Hann gleymdi því, að um flokksafstöðu landsk. þm. eru föst ákvæði í stjskr. og kosningal. Það fannst líka á ræðu hv. 2. landsk., að hann finnur, að hann er á hálum ís. Hann byrjaði ræðu sína á því að segja, að hann hefði ekki sagt sig úr Bændafl. og taldi sig vera í honum enn. Þetta sagði hann vegna þess, að hann sér, að ef hann er farinn úr flokknum, þá verður hann að fara af þingi. En áframhald ræðunnar gekk út á að sanna það, að hann væri farinn úr flokknum.

Ég heyrði, að hv. ræðumaður hélt því fram, að í Bændafl. væri enginn annar en hann. Ég veit nú ekki, hvort hann átti við þingflokkinn eða Bændafl. úti um allt land. Líklega hefir hann þó átt við þingflokkinn.

En það, sem ég vildi aðallega leiða athygli at, er, að menn athugi breyt. þá, sem varð á kosningal. við stjskrárbreyt. 1934. En mér finnst, að þar skorti mikið á.

Ef þessi hv. fyrrv. þm. er látinn sitja áfram, þá kemur fram 3. tegund þm., sem sé þm., sem ekki eru kosnir í kjördæmi, og eru ekki heldur til uppbótar fyrir stjórnmálaflokkana. Þar af leiðir, að seta manns á þingi, sem ekki uppfyllir þessi skilyrði, er brot á stjskránni, sem segir, að allt að 11 þm. eigi að vera til jöfnunar milli flokkanna. Þessi eini þm. er þá orðinn til ójöfnunar, og er þá vissum þingflokki skapaður meiri réttur heldur en honum ber eftir kosningalögunum.