12.10.1935
Sameinað þing: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2362 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

Kæra um kjörgengi

Jónas Guðmundsson:

Það voru aðeins örfá orð. Ég vil leiðrétta það, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði. Hann sagði, að ég viðurkenndi, að ákvæði 133. gr. kosningal. gætu haft áhrif á þingsetu, en honum láðist að geta þess, að ég sagði, að það væri aðeins eftir almennar kosningar. Í 133. gr. kosningal. segir svo: „Nú hefir Alþingi úrskurðað ógilda kosningu þingmanns, sem kjörbréf hefir fengið í kjördæmi eftir almennar alþingiskosningar, og uppkosning hefir farið fram, og skal þá landskjörstjórn, ef samanlagðar atkvæðatölur þingflokka og þingmannaðala þeirra gefa nú ástæðu til slíks, leiðrétta fyrri niðurstöður um úthlutun uppbótarþingsæta, jafnvel þótt landskjörinn þingmaður missi við það umboð sitt.“ — En þegar komið er út á kjörtímabilið, þá er ekkert, sem heimilar að svipta landsk. þm. þingsetu.

Hv. 1. þm. Skagf. heldur því fram, að til séu 2 tegundir þm., sem hlíti mismunandi skilyrðum, þar sem annar flokkurinn er frjáls, en hinn flokksbundinn. Ég kallaði þetta áðan þrælahald, og ég verð að halda mig við það. Það hefir aldrei áður verið gerð svona glögg tilraun til þess að skipa mönnum frá skoðunum og sannfæringu, eins og verið er að gera hér. Og mér þykir það furða, ef landsk. þm. Sjálfstfl. una þessum úrskurði. (HannJ: Sósíalistar unnu mest að þessu). Það kann vel að vera, en þeir hafa þá gert þá kröfu, að flokksböndin næðu líka til kjördæmakosinna þm. — En hvernig á að fara með þm. Reykv.? Þeir eru kosnir á flokkslistum, og hvernig á þá að fara með þá, ef þeir fara úr flokki? Það er megnasti skrípaleikur að halda því fram, að það séu 2 tegundir þm., og að annar flokkurinn sé settur skör lægra en hinn.

Þetta er byrjun á þrælahaldi, og það situr vel á Sjálfstfl. að berjast fyrir því að innleiða það.