13.03.1935
Neðri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Það virðist vera allmikil gremja innibyrgð hjá hv. þm. Borgf. yfir því, að honum var ekki svarað um daginn. (PHalld.: Það var einu sinni enginn hæstv. ráðh. viðstaddur). Jú, ég var viðstaddur. (PHalld: Nú, ég bið afsökunar. PO: Ráðh. hefir þá ekki treyst sér). En ég vil fullyrða, að hv. þm. Borgf. skal fá sig fullkeyptan á umr. um þetta mál, og er honum þess vegna óhætt að bíða rólegur. (PO: Ég er viðbúinn). Hv. þm. fær þá tækifærið. Það var rangt hjá þessum hv. þm., að ég hefði sagt, að síra Sveinbjörn hlyti að vera bændum hollur, úr því neytendur væru óánægðir með hann. Ég hélt því fram, að slík ályktun væri rökrétt afleiðing af umsögn hv. þm. G.-K., þar sem hann hélt því fram, að það hlyti að orsaka fjandskap milli bænda og neytenda, ef mjólkursölunefnd drægi taum annars aðilans. Og þar sem neytendur hefðu slíkan fjandskap gegn séra Sveinbirni, þá mætti eftir röksemdafærslu þessa hv. þm. ætla, að það væri fyrir það, að síra Sveinbjörn hefði staðið vel í ístaðinu fyrir bændur. Ég ætla ekki í sambandi við þetta mál að fara langt út í umr. um mjólkursöluna við hv. þm. Borgf. Hann sagði, að komið hefði fram krafa frá öllum félögunum nema einu um það að fá yfirráð mjólkursölunnar. Við því er það að segja, að ég veit ekki til, að önnur félög en Mjólkurfélag Reykjavíkur og ef til vill eitt annað félag hafi enn haldið sína aðalfundi. Út í þá fullyrðingu hv. þm., að framkvæmd mjólkursölunnar hafi snúizt gegn hagsmunamálum bænda, skal ég ekki fara, en mín skoðun er það, að framkvæmd sölunnar ætli að takast vel þrátt fyrir einstaka elju vissra manna við að spilla fyrir málinu. (ÓTh: Á hæstv. ráðh. við síra Sveinbjörn?). Ég get sagt hv. þm. það, að ég á við allan hinn mikla blaðakost Sjálfstfl., sem eins og kunnugt er hefir haldið uppi hernaðarofsókn gegn mjólkursölunni síðan hún tók til starfa og fyrr. En það virðist nú svo sem þessir menn hafi spennt bogann of hátt, og hin grimma ofsókn ætli að verða málinu til góðs, því það eru vitanlega takmörk fyrir því eins og öðru, hve langt undirlýðurinn villa fylgja foringjunum.

Það er yfirgnæfandi meiri hl. neytenda, sem sér það og skilur, að þó mjólkursölulögunum sé aðallega ætlað að verða bændum til hagsbóta, þá munu þau einnig verða fleirum til góðs.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þessa sálma í sambandi við það frv., sem fyrir liggur. Það voru andstöðuflokkarnir, sem drógu framkvæmd mjólkursölunnar inn í þessar umr., sem ekki átti að vera, því frv. fjallar aðeins um greiðslu á kostnaði við umsjón afurðasölunnar.