21.03.1935
Efri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 10. landsk. gerði fyrirspurn til mín um það, hver mundi verða kostnaður við störf hverrar einstakrar n., sem frv. ræðir um. Ég tók það fram í framsöguræðu minni, að upplýsingar þær, sem ég hefi yfir að ráða nú um þetta atriði, eru ekki það ábyggilegar, að ég vilji gefa nokkrar yfirlýsingar um þetta að svo stöddu.

Þá taldi þessi hv. þm. eðlilegra, að mál þetta væri lagt fyrir á annan hátt en gert er með þessu frv., og þá jafnhliða breytingu á greiðslu þessa kostnaðar væru lagðar fram till. um breytingar á skipun afurðasölunefndanna frá því, sem afurðasölulögin gera ráð fyrir. Ég verð að segja það, að ég sé ekki þörf á þessum breytingum. Nefndir þessar eru skipaðar með ýmsu móti; þær eru skipaðar af framleiðendum sjálfum, sumar einnig af öðrum aðilum og auk þess af ríkisstj. Þó er það svo um flestar n., að framleiðendur og ríkisstj. skipa meiri hl. þeirra, og hafa þessir aðilar því skilyrði til þess að ráða gerðum nefndanna. Skipun þessara n. var á sínum tíma af löggjafanum sniðin við það, sem hann áleit afurðasölunni fyrir beztu. Þess vegna finnst mér alveg óhætt að gera þar breyt., sem frv. felur í sér, án þess að ákvæðunum um skipun n. sé breytt, og fyrir þá, sem álitu, að skipa ætti þessar n. eins og gert var. er engin ástæða til að skipta um skoðun um það atriði, þó ákvæðunum um kostnað við afurðasöluna verði breytt, af því þeir álíta, að eins og n. séu skipaðar verði bezt séð fyrir afurðasölumálunum. Hinsvegar hefir það verið ýmsra álit, að n. þessar ætti að skipa á annan hátt en gert var, og er ekki nema eðlilegt, að þeir menn vilji breyta til í þessu efni. Ég var því miður ekki staddur í d. þegar hv. 10. landsk. lauk ræðu sinni, en hann mun hafa sagt eitthvað á þá leið, að lögin um afurðasöluna hafi verið sett á síðasta þingi eftir vilja stj., og þar á meðal ákvæðin um kostnaðinn við afurðasöluna. Þetta er rétt, en hitt er annað mál, að þegar farið var að athuga fjárhagshorfurnar og semja fjárlög fyrir árið 1936, þá kom í ljós, að alstaðar var svo fullhlaðið af gjöldum, að einhverju varð af að létta, og eitt af því, sem til mála gat komið, og sá liður, sem fyrst varð fyrir mér, var einmitt þessi kostnaður, sem ég tel, að réttara sé, að hvíli á öðrum en ríkissjóði. Ég ætla svo ekki að fjölyrða um ræðu hv. 10. landsk., en álít, að ég hafi fullsvarað því, sem ástæða er að minnast á.