30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

86. mál, sala og meðferð íslenskra afurða

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég heyrði ekki fyrri hl. af ræðu hv. 1. þm. Skagf. út af leyfunum, sem hafa verið gefin Korpúlfsstaðabúinu. Ég verð að endurtaka það, sem ég sagði fyrir nokkrum dögum, til þess að fá fram það, sem hann þykist vera að sanna í þessu máli.

Eins og menn muna, var deilan hér í hv. d. um það, hvort Korpúlfsstöðum hefði verið gert illa til í mjólkurmálinu eða verr en öðrum búum í nágrenni Reykjavíkur. Ég sýndi fram á, að svo hefði ekki verið. Korpúlfsstaðir hefðu haft sömu aðstöðu og önnur bú, og ættu því að standa betur að vígi um rekstur, þar sem haldið hefir verið fram, að þeir væru svo vel reknir. En þá notaði hv. þm. þau rök, að ég hefði gefið Korpúlfsstaðabúinu of miklar ívilnanir með leyfinu um að framleiða kaldhreinsaða, þ. e. ógerilsneydda mjólk. Þar með hafi ég sýnt álit mitt á búinu.

Eins og ég hefi bent á, komu þessi rök hv. þm., að ég hefði gefið Korpúlfsstöðum of mikil réttindi, ekki neitt því við, að það hafi verið níðzt á búinu. Svarið varð alveg öfugt við það, sem það átti að vera. Nú kemur fram eins og hv. þm. vilji staðfesta það, sem hann hélt fram um daginn, að ég hafi veitt Korpúlfsstaðabúinu einhver sérstök réttindi. En ég vil benda honum á, að bréfin, sem hér liggja fyrir, sýna það gagnstæða. Hv. 10. landsk., þáv. landbrh., veitti Korpúlfsstöðum sérstakan rétt til þess að framleiða kaldhreinsaða mjólk. Þegar bráðabirgðal. gengu í gildi, þá framlengdi ég bara þennan rétt, sem gefinn var eftir eldri mjólkurlögunum. Ég gaf Korpúlfsstöðum ekki neinn sérstakan rétt, en ég taldi ekki rétt að svipta þá þessum rétti eftir eldri lögunum.

Og frá því bráðabirgðal. voru sett og þangað til mjólkurlögin nýju gengu í gildi, 15. jan., fór ekki fram nein röskun á mjólkursölunni. En með bréfinu 14. jan. veitti ég Korpúlfsstaðabúinu, eins og austurbúunum, leyfi til að gerilsneyða mjólk, og vil ég nú lesa hér bréfið, með leyfi hæstv. forseta.

„Samkv. lögum frá 19. des. 1934 um meðferð og sölu mjólkur og rjóma o. fl. vill ráðuneytið hér með löggilda mjólkurbúið á Korpúlfsstöðum til framleiðslu á gerilsneyddri mjólk og rjóma, sem selja má í flöskum og dunkum, svo og ennfremur til framleiðslu á smjöri og skyri.

Löggilding þessi gildir fyrst um sinn, þangað til annað kann að verða ákveðið, og verður sem allra fyrst að bæta úr þeim ágöllum á mjólkurbúinu, sem um getur í skýrslu Jónasar Kristjánssonar, Hannesar Jónssonar og Árna G. Eylands, dags. 10. f. m., og sem yður, herra stórkaupmaður, hefir verið sent afrit af“.

Eins og hver maður sér, eru hér ekki gefin nein réttindi fram yfir það, að gerilsneyða mjólk og búa til skyr og rjóma, ekki einu sinni sá réttur að framleiða kaldhreinsaða mjólk. Og það stendur hér „löggilding þangað til annað er ákveðið“. Ég veitti þetta leyfi þvert á móti minni skoðun fyrir beiðni mjólkursölun., bara til bráðabirgða, mér leizt aldrei á þetta fyrirkomulag, og þegar það sýndi sig strax, að það gat ekki gengið, þá kom meiri hl. mjólkursölunefndar á fund minn og bað mig að breyta lögunum. Og þá tók ég leyfið aftur með bréfinu 18. febr., sem ég skal einnig lesa hér, með leyfi hæstv. forseta.

„Með skírskotun til bréfs ráðuneytisins, dags. 14. f. m., um löggildingu á mjólkurbúinu á Korpúlfsstöðum til framleiðslu á gerilsneyddri mjólk og rjóma o. fl., skal yður, herra stórkaupmaður, hér með tjáð, að téð löggilding afturkallast hér með, og ber yður að láta gerilsneyða alla mjólk og rjóma, sem ætluð er til sölu í Reykjavík og Hafnarfirði, í mjólkurstöð Mjólkurfélags Reykjavíkur hér í bænum“.

Það er því augljóst, að ég hefi ekki tekið nein réttindi af Korpúlfsstaðabúinu. Það hefir nákvæmlega sömu aðstöðu og hver annar framleiðandi í nágrenni Rvíkur. Þeir, sem kvarta undan öðru, eru menn, sem heimta sérstök réttindi fyrir þetta bú. En þau hefi ég ekki heldur veitt Korpúlfsstöðum. Frá því bráðabirgðalögin voru sett, lét ég gilda ákveðið, sem fyrrv. landbrh. gaf búinu, þar til sjálf mjólkurlögin gengu í gildi.