05.05.1936
Sameinað þing: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

1. mál, fjárlög 1937

*Ásgeir Ásgeirsson:

Ég hefi flutt nokkrar till., þó að ég viti ekki, hvernig þeim verður tekið; sú fyrsta er um hækkun á læknisvitjanastyrk í Suðureyrarhreppi læknisvitjanir kosta oft milli 30 og 60 kr., því að það þarf að sækja lækninn á vélbát, og minni styrkur en 300 kr. kemur varla til greina.

Þá er næst till. um styrk handa Ólafi Magnússyni í Múla til frumfæris fávita; mér er að vísu kunnugt um, að slík till. hefir ekki verið samþ. nema einu sinni áður á þingi, en ég flyt þessa till. samt, því að hjá þessu fólki, sem hér um ræðir, kemur fram virðingarverð viðleitni og löngun til þess að koma þessum fávita til hjálpar eftir því sem unnt er. Hér er um fávita að ræða, sem er á þrítugs aldri. Þjóðfélaginu væri miklu dýrara, að þessi fáviti væri hafður á hæli, og þess vegna væri sparnaður í því að veita heimili hans dálítinn styrk til þess að það geti haldið honum áfram.

Næsta till. mín er um 5000 kr. styrk til hafnarbóta á Suðureyri við Súgandafjörð. Þessi till. hefir verið flutt tvisvar áður á þingi, en ekki verið samþ. Ég vænti þess, að það líði ekki á löngu, unz Suðureyri fær þennan hafnarbótastyrk rétt eins og mörg önnur héruð, sem sízt hafa meiri möguleika til þess að sækja sjó. Ég hefi ekki fengið áheyrn um þennan styrk áður, ef til vill vegna þess að vitamálastjóri hefir jafnan talið, að regluleg höfn á þessum stað mundi kosta mikið fé, en það má rétt eins og annarsstaðar gera þarna bryggju og varnargarð með litlum tilkostnaði og til mikilla nota fyrir vélbáta, sem sækja sjó úr Súgandafirði.

21. till. er um aukinn styrk til barnaskólabygginga utan kaupstaða, og geri ég ráð fyrir 20000 kr. hækkun, en 15000 kr. til vara. Fyrir hv. fjvn. hafa legið skýrslur um allar þær umsóknir, sem fyrir liggja um byggingastyrk. og það er brýn þörf á því víða að endurbæta skólahús og reisa ný, og þó að styrkurinn yrði hækkaður, eina og hér er gert ráð fyrir, þá yrði ekki hægt að fullnægja þessari þörf að öllu leyti á þessu ári, sem hér um ræðir. Nú liggur fyrir þinginu frv. til fræðslulaga, en það frv. mun ekki gera hálft gagn, ef það nær fram að ganga, nema um leið verði aukinn styrkurinn til skólahúsbygginga, og þá sérstaklega til heimavistarskóla í sveitum. Ef þessi till. yrði samþ., þá væri hægt að byggja á næsta ári eina fjóra heimavistarskóla, sem mjög ríður á, að byggðir verði sem fyrst, og viðkomandi hreppar sækja fast, að byggðir verði bráðlega.

Ég skal ekki bera þessa fjárveitingu saman við margar aðrar, en það mætti vafalaust finna fjölda fjárveitinga í fjárlögunum, sem eru hærri og hafa auk þess minni rétt á sér og miklu færra fólk nýtur góðs af heldur en verða mundi, ef þessi hækkun yrði samþ.; ég vil því fastlega vænta þess, að þessari till. verði sýnd nokkur úrlausn, þó að n. treysti sér ekki til þess að samþ. hærri aukninguna.

25. till. fjallar um styrk til vísindastarfs handa Leifi Ásgeirssyni, 1000 kr. Hann hafði á síðustu fjárlögum 1200 kr. til vísindastarfa, og þar sem hér ræðir um einn gáfaðasta, ungan vísindamann landsins og mann, sem hefir stundað vísindagrein, sem er mjög erfitt að stunda hér á landi, sem sé stærðfræði og eðlisfræði, þá virðist mér mjög leitt, ef þessi styrkur ætti niður að falla. Leifur Ásgeirsson er sem kunnugt er doktor frá þýzkum háskóla og fékk ágæt meðmæli kennara sinna, og er hann eins og kunnugt er bróðir Magnús Ásgeirssonar skálds, sem fjárveitingan. leggur til, að fái 1500 kr. styrkveitingu. Þessir bræður eru báðir óvenjulega gáfaðir.

Í 32. till. legg ég til, að veittar verði allt að 1200 kr. til þess að gera gufubaðstofur fyrir forgöngu ungmennafélaganna; ég hefi orðið var við, að nokkur ungmennafélög hafa mikinn áhuga á því að koma upp slíkum baðstofum nálægt samkomuhúsum sínum til almennings þarfa.

Þá kem ég að síðustu till., sem er nr. 35, og er hún um 3000 kr. styrk til starfrækslu dagheimila hér í Reykjavík af hálfu barnavinafélagsins Sumargjafar. N. hefir að vísu flutt till. um 6000 kr. framlag til barnaverndar, en þar af eiga aðeins 2000 kr. að renna til samskonar starfsemi í Hafnarfirði; nú er Reykjavík stærri en Hafnarfjörður, og það er ekki nema sanngjarnt að Reykjavík njóti fullt eins ríflegs styrks eins og Hafnarfjörður. Hér hefir starfsemi þessa félags verið rekin í mörg ár styrklaus, og nú þegar á að reisa dagheimili fyrir börn í vesturbænum, þá er félagið þess mjög þurfandi að fá sæmilegan styrk til þeirrar starfrækslu.

Svo skal ég ekki minnast á fleiri till, enda þótt hér séu nokkrar till., sem mig langaði til að drepa á, og mun ég gera það síðar.