02.05.1936
Efri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Einar Árnason:

Ég geri ráð fyrir að það þýði ekki að tala langt mál, þar sem fáir eru við. En af því að ég flyt hér brtt. við frv., vildi ég gera örstutta grein fyrir henni. — Ég gerði nokkrar aths. við frv. við 2. umr. og lét í ljós, að ég tryði ekki mikið á, að frv. kæmi að því haldi, sem ýmsir trúa. En þó svo væri, að ég hafi ekki mikla trú á því, að frv. geri mikið gagn, mun ég ekki setja fótinn fyrir að það gangi fram, ef sú brtt., sem ég flyt, verður samþ. Sú eina breyt. sem í till. felst, er sú, að það er lagt í vald hvers hreppsfélags, hvort það vill gangast undir þessi l. eða þær samþykktir, sem sýslan kann að gera um stofnun fóðurtryggingarsjóðs. En eins og þessu er fyrir komið í frv., getur meiri hl. þeirra manna í sýslunni, sem búfé eiga, ákveðið, að allir hreppar sýslufélagsins séu skyldir að beygja sig undir samþykkt sýslunnar. Með því er hægt að neyða fámennari hreppa sýslunnar undir l., þó þeir ekki óski að taka þátt í þeim. En samkvæmt brtt. minni verður þessu þannig fyrir komið að atkv. hvers hrepps sker úr um það, hvort hreppurinn gengur undir 1. eða ekki, þannig að ef meiri hl. þeirra hreppsbúa sem atkvæðirétt eiga um málið, er á móti því, hefir hreppurinn þar með ákveðið að ganga ekki undir samþykktir þær, sem sýslan gerir. Það er því þessi sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna sem ég legg aðaláherzluna á. — Ef brtt. verður samþ. get ég því sætt mig við, að frv. gangi fram. Þó ýmislegt sé í frv., sem ég vildi fremur hafa öðruvísi, geri ég ekki mikið úr aukaatriðum, ef brtt. verður samþ. vænti ég að hv. þm. hafi gert sér grein fyrir efni brtt., svo ég þurfi ekki að skýra hana frekar.