23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Gísli Sveinsson:

Það er að vísu búið að taka fram, og nú síðast af hv. í landsk., margt af því, sem ég vildi láta koma fram. — Ég er einn af þeim mönnum, sem ekki telja knýjandi þörf að koma nú fram með slíkar breyt. sem þessar. Það er enda kunnugt, að það hefir fyrr komið til tals hjá Alþfl., að heppilegast væri að koma á hlutfallskosningu við hreppsnefndarkosningar og sýslunefndarmanns í sveitum landsins. Það er því ekki þannig að skilja, að mér komi það á óvart, þó slíkt frv. sé borið fram af Alþfl., en það mun ekki eiga hljómgrunn annarsstaðar. Hefir hv. allshn. borið frv. fram, að vísu með því skilorði, að nm. hafi óbundnar hendur um að koma fram með brtt.

Á þskj. 192 eru fram komnar allvíðtækar brtt., sem allar miða að því að draga úr þeirri aðalreglu Alþfl. að viðhafa hlutfallskosningu. Ég er flm. brtt. sammála að því leyti, að ég taldi ófyrirsynju að fara með hlutfallskosningu út fyrir stærstu kauptúnin. Að vísu tekur brtt. ekki af skarið; og má segja, að það sé eðlilegt að leyfa hlutfallskosningu, ef hreppsbúar geta fallizt á hana. En mér þykir heldur lítið, að ekki þurfi nema 1/10 til þess að krefjast hlutfallskosningar, því það er tiltölulega auðvelt að fá svo lítinn hl. til þess að krefjast hins og annars.

Sýnist mér ástæðulaust að hafa þennan hl. minni en svo, að miða hann við það, að þeir, sem krefjast hlutfallskosningar, hefðu aðstöðu til að koma að manni. En mér skilst, að meiri hl. hafi gengið þetta á móti til samkomulags við stefnu minni hl. — Annars er þetta í flestum stöðum óþarfi, en þó samþ. verði, býst ég við, að það geri hvorki til eða frá. Þó hefði ég talið æskilegra að breyta þessu við 3. umr.

Þá skal ég í þessu sambandi minnast á þær brtt. aðrar, sem fram hafa komið frá þeim hv. 2. þm Reykv. og 1. landsk. á þskj. 203 og frá hv. 2. þm. N.-M. á þskj. 208. Ég skal þá taka fyrst brtt. hv. 2. þm. N.-M. á þskj. 208. Þar er 1. brtt. við 2. málsl. 3. tölul. á þskj. 192 nokkuð óskýrt orðuð, og þarf að athuga það. Ég hafði skilið þetta svo, að meiningin væri að fellu niður hlutfallskosningu nema í bæjum og kaupstöðum, sem eru sérstök hreppsfélög. Þessu þarf að breyta til samræmis, en ég tók ekki eftir, hvort hv. þm. gaf skýringu á þessu atriði. (PZ: Það er rétt, þessu þarf að breyta).

Þá er nokkuð óskýrt milli hv. 2. þm. N.-M. og 6. landsk., hvaða ákvæði þurfi að setja um, hvenær kauptún telst sérstakt hreppsfélag. Hv. 6. landsk. var að tala um, að endilega þyrfti að búa út lagaákvæði hvað snertir kauptún, sem eru sérstakur hreppur. Ég hélt nú, að það, sem hv. 2. þm. N.-M. raunverulega meinti, sé hreppsnefnd í kauptúnum, sem eru sérstakt hreppsfélag. Í stað þess orðar hann þetta öfugt og segir: í hreppsfélögum, sem eru sérstakt kauptún. Það er ekki til. En til eru sérstök kauptún, sem eru sérstök hreppsfélög, og er iðulegt að löggjöfin miði við það. Ef hann á við það, er það rétt. En þá er það út í hött, sem hv. 6 landsk. er að tala um. (Rödd: Er ekki Víkurkauptún sérstakt hreppsfélag?). Ég veit, að Víkurkauptún er sérstakt hreppsfélag, en þar eru yfir 300 manns, sem hafa óskað að skiljast frá sem hreppsfélag. En ef ekki eru uppfylt þau skilyrði, þá eru mörkin fyrir kauptúnum aðeins þau, hvort afmörkuð er verzlunarlóð. Undir öllum kringumstæðum, ef hann á við annað en þetta, hreppsnefnd í kauptúnum, sem eru sérstakt hreppsfélag, þá þarf sérstaklega að taka það til. En af því leiðir ekki að setja í l., hvað séu sérstök kauptún, því að kauptún er á því svæði, þar sem afmörkuð er verzlunarlóð. Þetta liggur í hlutarins eðli, svo framarlega sem á að hugsa og orða réttilega.

Ég vil leggja til, að þessar till. verði teknar aftur til 3. umr. og ekki greidd atkv. um þær meðan menn greinir á um, hvað með þeim er meint. Að öðru leyti get ég verið samþ. hv. 2. þm. N.-M. um það, að þetta má alveg binda, ef hann meinar sérstakt hreppsfélag, ef menn vilja hafa það út af fyrir sig. Það er iðulega miðað við þau kauptún, sem eru næst kaupstöðum og eru sérstakt hreppsfélag og skilin frá sveitinni. Það má gera, en ella er ekki gott að komast af, nema eins og meiri hl. gerir, að tilgreina, að ef sérstakur hl. af kjósendunum óski þess. Ég tel þann hluta of lítilfjörlegan til að ráða yfir öllu þorpinu, þar sem þessi flokkur gæti engu ráðið um kosningar út af fyrir sig.

Hvað skriflegum kosningum viðvíkur, þá tel ég, eins og hv. þm. Borgf. og hv. 7. landsk., að vel megi við það hlíta, ef menn koma sér saman án þess að hleypa „pólitík“ og grunsemdum að, og sé þetta ekki of gott þeim hreppum, sem enn geta fótað sig á grasi því, sem þeir eru á, en hafa ekki runnið á svelli sósíalista beint inn í þvarg kauptúnanna. Ég vil lofa þeim að standa eins fast á moldinni og þeir geta, og það, sem þeir vilja, megi þeir velja, og viðhafa þá hvorki skriflegar kosningar né leynilegar né hlutfallskosningar.

En sé kosning skrifleg, þá sýnist, að menn geti komizt í bobba við að kjósa aðalmenn og varamenn í einu. Það getur verið, að varamaður fái atkv. eins mörg og kannske fleiri en aðalmenn. Því að hugsanlegt er, að einhverjir taki þátt í kosningu varamanna, en ekki aðalmanna. Undir öllum kringumstæðum getur varamaður fengið fleiri atkv. heldur en einhver af aðalmönnum, því að það er ekki nauðsynlegt, að menn kjósi alla mennina, (BÁ: Sami maður getur fengið fleiri atkv. sem varamaður en aðalmaður). Víst er það, og ekki getur hann orðið hvorttveggja, og þarf einhvernveginn að komast út úr þessu. Í sýslunefnd er kosinn aðalmaður fyrst, og varamaður á eftir. Við slíkar kosningar getur iðulega verið um að ræða að kjósa þann sem varamann, sem ekki komst að sem aðalmaður. Í annan stað getur komið til mála, að sá, sem hefir flest atkv. þeirra, sem ekki komast að sem aðalmenn, verði varamaður, og koll af kolli. Menn geta haft það á móti, að það komi annar litur inn. En ég og fleiri erum að tala um, að ekki ráði flokkadráttur, en að það sé frjálst val, sem fari fram, þó að það sé skriflegt.

Annars eru menn svo ósammála enn í þessu efni, að ég legg til, að þessar brtt. séu athugaðar til 3. umr., og að menn komi sér saman til 3. umr. um glögga orðan og hvað heppilegast sé til að forðast sýnilega árekstra.

Að því er snertir sýslunefndarmenn vil ég taka fram, að ég er sammála meiri hl. n. og þeim öðrum, sem telja enga þörf, og sízt til bóta, að kjósa þá hlutfallskosningu eða kjósa þá af hreppsn. Og það var alveg réttilega fram tekið af hv. 7. landsk. til hv. 6. landsk., sem nú heyrir mál mitt, að það er einkennileg rökfærsla hjá honum og öðrum sósíalistum, sem berjast fyrir hlutfallskosningum gegnum þykkt og þunnt alstaðar á landinu. Hann segist vera lýðræðismaður. „Segist“, sagði ég, því að það er undarlegt, að hann skuli þá jafnvel berjast fyrir því, að kjósendur í hreppunum megi ekki kjósa sína fulltrúa í sýslunefnd, heldur verði að gera það einhver klíka, en kjósendur fái ekkert að segja. Þetta er að hverfa inn í frumstæðara fyrirkomulag, sem tilheyrir fortíðinni, þegar nefndir kusu fulltrúa á þing. Nú vill hv. þm. innleiða aftur, að hinir fáu kjósi fulltrúa, en hinir mörgu séu látnir sitja á hakanum.

Það er líka misskilningur hjá honum, að það sé hið sama, sem sýslun, fást við og hreppsn. Það kemur ýmislegt til greina, sem ekki er sameiginlegt. Engin þörf er heldur að rifta kjördeginum. Það hefir verið svo, að samkomur í sveit hafa stundum verið fjölmennastar á manntalsþingum, og þá er kosinn sýslunefndarmaður og varamaður. En stundum er nokkuð erfitt að halda hreppaskilaþing sökum þess, hve fáir koma.

Meðan ég sé hv. 1. landsk., vil ég skjóta að honum, að hann oftalaði sig þegar hann sagði, að títt væri, að sýslunefndarmaður væri í ósamræmi við hreppsn. í sínum hreppi. Ég þykist vita, að hv. þm. hafi sagt þetta til þess að segja eitthvað til að reyna að styðja sitt mál, því að ég fullyrði, að hann geti ekki vitað um þetta; og ég mótmæli því sem ástæðulausu.

Ég sé, að tíminn er áliðinn, og hætti nú. Ég hefi bent á það, sem mestu máli skiptir. Ég vænti, að hvorki verði gengið til atkv. nú né sumt af þessum till. komi fram öðruvísi en breyttar.