24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Pétur Ottesen:

Ég hreyfði nokkrum andmælum við þessu frv., þegar það var til umr. í gær, og ennfremur hreyfði ég andmælum við þeim brtt., sem hér liggja fyrir við þetta frv., enda þótt ég viðurkenndi, að frv. í því formi, sem brtt. leggja til, væri mér nær skapi en frv. eins og það liggur hér fyrir. Því betur sem ég hugsa um málið, virðist mér þessar breyt. frekar fram komnar af þessari miklu löngun, sem hefir gagntekið þingið síðustu tíma, að vera sífellt að breyta einhverju, miklu heldur en af hinu, að það sé knýjandi nauðsyn, sem liggur að baki þessara breytinga, og rökstyð ég þetta með því, að benda á það, að það liggur ekki fyrir nein almenn ósk úr sveitum landsins, sem þetta á að taka til, um það, að það sé farið að breyta til frá því fyrirkomulagi, sem nú er í þessu efni, enda höfðu menn ekki fyrr séð framan í þetta frv., þegar það var lagt fyrir fyrri hl. síðasta þings, en það rigndi yfir mótmælum bæði frá þingmálafundum, sem haldnir voru til mótmæla, og frá sýslunefndafundum, sem samþ. mótmæli gegn því að fara að lögþvinga sveitir landsins til þess að viðhafa hlutfallskosningar, og líka gegn því, að hreppsnefndir skyldu kjósa sýslunefndarmenn.

Þetta tekur af skarið um það, sem bæði ég, hv. þm. V.-Húnv., og raunar fleiri, hafa sagt, að það liggur engin sérstök ósk fyrir um það frá þeim aðiljum, sem þessi löggjöf snertir, að það verði farið að gera þessar breytingar, því að löggjöfin um þetta er svo frjálslynd, að innan þess ramma, sem þar er settur, geta menn eiginlega farið eftir sínum vilja alveg óþvingaðir í þessu efni, þar sem þeir mega velja um opinberar kosningar, leynilegar kosningar eða í þriðja lagi hlutfallskosningar. Það er síður en svo, að þessar breytingar stefni í frjálslyndisátt, en eins og kunnugt er þá er þessi óviðráðanlega breytingagirni Alþingis oft varin með því að halda því fram, að breytingarnar stefni til meira frjálslyndis en verið hefir, og á það að ganga í fólkið. Með þessum breytingum hv. meiri hl. allshn. er þetta svið þrengt með því að afnema það, að það megi viðhafa opinberar kosningar, ákvæðið um þessar opinberu kosningar nefndi hv. þm. Snæf. blett á íslenzkri löggjöf, og hv. 6. landsk. sagði, að það ætti að banna þetta með lögum. Hvaða ódæði eru nú þessar kosningar? Ekki annað en það, að t. d. við hreppsnefndarkosningar er gert ráð fyrir, að menn komi fram í heyranda hljóði, og ég sé því ekki annað en að það séu hreinir og beinir sleggjudómar að kalla það blett á íslenzkri löggjöf, þótt menn megi viðhafa þessa kosningaaðferð, ef þeir telja hana heppilega. Ég veit ekki, hvernig þeir, sem eru alltaf með frjálsræði á vörunum, geta samræmt það við tal sitt, að þetta sé blettur á íslenzkri löggjöf, sem eigi að banna, með lögum. Mér virðist löggjöfin um þetta efni nú svo frjálslynd, að það sé engin ástæða til þess að breyta henni.

Þó maður hverfi nú frá því aðalatriði þessa frv. að þrengja þær aðferðir, sem á að viðhafa í sambandi við kosningar, þá eru samt eftir ýms önnur atriði, eins og t. d. það, sem hv. 6. landsk. taldi mjög þýðingarmikið, að kjósa alla hreppsnefndarmennina í einu. Samkvæmt löggjöfinni er þessu þannig háttað, að það eru kosnir 5 menn í hreppsnefnd, 3 ganga úr í annað skiptið og 2 í hitt skiptið, og svo koll af kolli, og er þetta byggt á þeirri skynsamlegu hugsun, eins og margt í okkar eldri löggjöf, að það sé ekki heppilegt, að það verði algerð mannaskipti í n. á hverjum tíma. Þetta er gert til öryggis, svo að í hreppsnefndinni séu alltaf menn, sem hafa reynslu og þekkingu á því að fara með málefni hreppsins. Gegn þessari skynsamlegu tilhögun á nú að fara að keppa; það er búið að koma því í kring í bæjunum en þetta er ekki gert með það fyrir augum að tryggja öryggið, heldur til þess að fá sem beztan grundvöll undir þessar pólitísku kosningar, sem á að koma á í sveitum landsins með því að lögbjóða hlutfallskosningar, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. eins og það er lagt fyrir þingið. En eins og ég er búinn að taka fram, er síður en svo, að þessi breyting sé til bóta; hún er stór afturför, þegar litið er á hreppsnefndirnar sem öryggisráðstafanir í meðferð fjármuna hreppanna. — Ég þarf ekki að fara út í það atriði, að hreppsnefndirnar verði látnar kjósa sýslunefndarmenn.

Þá hefir verið minnzt á þessa færslu á því, hvenær hreppsnefndarkosningar eigi að fara fram. Sú breyting, sem gert er ráð fyrir í því efni, gerir sveitunum bara örðugleika í viðbót við þá, sem fyrir eru, og ætti Alþingi sízt að stuðla að því að nýir örðugleikar bætist ofan á þá, sem fyrir hendi eru, ekki sízt þá, sem leiðir af fólksfæðinni í sveitunum. Það á að fara að létta undir með sveitunum með því að láta kosningarnar fara fram á sunnudögum. Þannig hugsa þeir einir, sem ekki vita, að eins og nú er komið í sveitunum eru allir dagar jafnir hvað þetta snertir, því að það er ekki fleira fólk í sveitunum en það, sem með naumindum nægir til þess að sjá fyrir þeim störfum, sem líka þarf að vinna á sunnudögum í sveitunum. Þetta horfir hinsvegar allt öðruvísi við í kaupstöðunum, þar sem svo til hagar, að fólkið hefir ekki aðeins frí á öllum sunnudögum ársins, heldur hefir það, sem vinnur á skrifstofum og í búðum, einnig frí kl. 12 á laugardögum eftir lokunartíma á sumrin. Og þá getur fólkið þeyst út um allar jarðir, en í sveitunum er hinsvegar lítill eða enginn dagamunur í þessu efni. Þar sem þetta að öðru leyti felur ekki í sér neitt nýtt öryggi, að breytt sé til í þessu efni að því er sveitirnar snertir, þá álít ég algerlega óþarft að vera að burðast með þessa breyt., því að hún stefnir tvímælalaust til þess lakara. Hv. 6. landsk. fannst það broslegt, að það gæti komið fyrir, að sýslunefndarmenn væru kosnir með 5 atkv.; kjörsóknin væri svo lítil, að þetta gæti átt sér stað. Hv. þm. vildi draga þá ályktun af þessu, að ef kosningin væri leynileg, þá yrði það út af fyrir sig til þess, að kosningin yrði betur sótt; ég tala nú ekki um, ef viðhöfð yrði hlutfallskosning, þá kæmi nú aldeilis líf í tuskurnar. Í þessu sambandi má minna á það, hvernig til hagar á sjálfu Alþingi í þessu efni. Þar er hægt að afgreiða lög frá þinginu, sem löglega er frá gengið á allan hátt, þótt ekki fáist nema tæpur þriðjungur til þess að greiða þeim atkv. Það er mikið, að hv. þm., sem er svo umhyggjusamur fyrir sýslunefndarmannakosningunum, skuli ekki hafa rekið augun í þetta og reynt að sjá við þessum leka, sérstaklega þar sem hann situr einmitt á þingi, sem er að afgreiða lög um þingsköp Alþingis. Eins og kunnugt er, þá er svo ákveðið í þingsköpunum, að það þurfi ekki nema helming þm. í hvorri deild til þess, að deild sé ályktunarfær; þannig þarf ekki nema 9 í Ed. til þess, að hægt sé að afgreiða lög, eða m. ö. o. 5 atkv. með, ef 4 verða á móti; í Nd. þurfa aðeins 17 þm. að mæta til þess að geta gert lögmæta samþykkt; ef 9 menn eru með, en 8 á móti, þá er það líka lögmætt. Þannig felur þetta fyrirkomulag samkvæmt þingsköpunum í sér möguleika fyrir því, að lög frá þinginu verði afgr. með 14 atkv. allt í allt, og það er ekki nema tæpur þriðjungur af tölu allra þm. — Þegar á þetta er litið, þá er það ekki eins hlægilegt í rauninni og hv. 6. landsk. finnst, þótt það geti komið fyrir, að hreppsnefndarmenn séu kosnir með 5 atkv.

Ég verð að segja það, að það hefir orðið nokkur stefnubreyting bæði hjá hv. þm. Snæf. og hv. 2. þm. N.-M. frá því á síðasta þingi, að því er sýslunefndarmannakosningarnar snertir; þá bar hv. þm. Snæf. fram brtt. um það, að sýslunefndarmennirnir skyldu vera kosnir á manntalsþingum. Okkur hv. 2. þm. N.-M. þótti þetta ekki nógu vel orðað hjá hv. þm. Snæf., og bárum við því fram brtt. um það, að þeir skyldu vera kosnir á manntalsþingi, svo að till. misskildist ekki. Mér kom það þess vegna undarlega fyrir sjónir, þegar hv. 2. þm. N.-M. mælti á móti því hér í gær, að sýslunefndarmenn skyldu kosnir eftirleiðis á manntalsþingum, og talaði um þau sem dauða og úrelta stofnun. Slík breyting sem þessi er góður spegill upp á þann hringlandahátt, sem á sér stað í þessu máli. Það þarf engum blöðum um það að fletta, að það er engin nauðsyn fyrir hendi í þessu efni, sem krefst þess, að hér verði stofnað til breytinga. Ég hygg því, að heppilegasta niðurstaðan í þessu máli væri sú, að það væri látið sitja við það, sem fyrir hendi er í þessum efnum. Ég er hræddur um, að það spor, sem hv. meiri hl. allshn. vill stíga, verði þannig í framkvæmdinni, að það verði heldur til þess að greiða götu þess, að hlutfallskosningu verði komið á um land allt, og það er auðheyrt, hvað hlakkar í hv. 6. landsk. út af þessu atriði, því að hann vill vera þátttakandi í því að fara þessa millileið, og það gerir hann með öruggri vissu um það, að þá verði þessum hlutfallskosningum hans nokkurn veginn greið gata til framkvæmdar áður en langt um líður.

Hv. þm. talaði um það, að það þyrfti ekki að leiða neinn flokkadrátt eða misklíð í hreppunum af þessu kosningafyrirkomulagi frekar en verið hefir, en hv. þm. veit það ofur vel, að þetta ýtir mikið undir flokkadrátt, og það má gera ráð fyrir, að þetta verði til þess að hrekja menn úr þeirri aðstöðu, sem þeir nú eru í úti um sveitir landsins til þess að kjósa á þann hátt, að hagsmunamálum sveitarinnar verði sem bezt borgið, og það er vitanlega sá bezti grundvöllur, sem hægt er að byggja hreppsnefndarmannakosninguna á, í stað þess að hlaupa meira og minna í gönur og kjósa eftir pólitískum línum, þannig að hætta getur verið á því, að menn lendi á ýmsum pólitískum rekadrumbum, sem sveitarfélögunum er ef til vill enginn fengur í. Ég tala nú ekki um það, ef afleiðingin af þessu gæti orðið sú, að menn kjósi hreppsnefndarmenn eftir því, sem miðstjórnir flokkanna mæla fyrir um, og er það reyndar kunnugt, að stjórn sósíalistanna hér í Reykjavík teygir fingurna mjög út um sveitir landsins í því augnamiði að reyna að fá menn til þess að kjósa eftir pólitískum línum. Það er því engum efa undirorpið, að hv. 6. landsk. og flokksbræður hans ætla sér að reyna að knýja fram hlutfallskosningar þvert ofan í vilja sveitanna í því augnamiði að fá flokkspólitískan vinning við það. Þetta vakir fyrir þeim, enda hefir hv. 6. landsk., sem er hreinskilinn maður ekkert verið að draga dul á það, enda þótt hann reyni að breiða yfir það eftir því, sem hann getur, að það muni stafa auknir flokkadrættir af þessari breytingu.