24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Jónas Guðmundsson:

Ég sé, að það hefir ekki mikla þýðingu að deila um þetta mál, því að menn eru farnir að endurtaka það, sem upphaflega var sagt, og þess vegna skal ég reyna að hafa mál mitt stutt. Samt ætla ég aðeins að minnast á nokkur atriði í ræðu hv. þm. Borgf. Hann sagði nákvæmlega eins og hv. þm. V.-Húnv. og fleiri afturhaldssamir menn í þessum efnum, að það lægi ekki fyrir nein ósk um breyt. í þessu efni. Þeir spyrja, hvað það sé í lögunum, sem sé svo aðkallandi, að það þurfi að breyta því? Bæði ég, hv. þm. Snæf. og aðrir, sem talað hafa með þessu máli, hafa svarað því, að það, sem fyrst og fremst þurfi að breyta, sé það, að hér eftir verði kosningar í hreppsnefndir leynilegar; það er aðalatriði þessa frv. Hingað til hefir gilt sú regla, að í fjölda hreppa hefir kosningin verið opinber, og þess vegna hefir kjörsóknin verið lakari en ella mundi hafa verið, og þess vegna hefir miklu minna verið hægt að byggja á þeim fólksvilja, sem fram hefir komið, heldur en ef kosningin hefði verið leynileg.

Svo er annað atriði í þessu máli, sem okkur kemur ekki saman um, og það er, hvar skiptingin eigi að vera milli hlutfallskosninga og leynilegra kosninga. Ég vil láta kauptúnin hafa hlutfallskosningar eins og kaupstaðirnir hafa nú, og er það vafalaust skársta fyrirkomulagið, sem þeir hafa hingað til reynt, því að ég geri ekkert úr því, að það verði meiri sundurþykkja milli bæjarfulltrúanna, sem kosnir eru með hlutfallskosningum úr hverjum flokki, heldur en á milli hreppsnefndarmannanna.

Það liggur allt hið sama til grundvallar í hinum stærri sveitarfélögum landsins, að menn byggi sveitarstjórnirnar upp eins og þjóðin byggir upp þingið, og það er það, sem ég álít, að eigi að gera. Hv. þm. Borgf. vildi gera lítið úr því, að það væri til bóta, að allir fulltrúarnir væru kosnir í einu. Hann sagði, að það væri afturför og engin trygging gerð fyrir því, að kunnugir menn yrðu eftir í sveitarstjórninni. Þetta hefir ekki komið að sök í kaupstöðunum, enda hefir reyndin orðið sú, að þeir bæjarfulltrúar, sem vel hafa reynzt, hafa verið margendurkosnir. Nákvæmlega það sama kemur fyrir í sveitunum. Það er enginn flokkur í kauptúnunum, sem stillir upp tómum óreyndum mönnum, ef hann á annað borð hefir haft aðstöðu til þess að koma manni inn í hreppsn. áður. Það getur hugsazt um flokka, sem eru að koma fram á sjónarsviðið og aldrei hafa haft mann í hreppsn. eða bæjarstjórn áður. Þeir verða að stilla þeim upp sem þeir hafa. Það er slæmt að hafa tvískipt í hreppsn. og kjósa til 6 ára. Það þýðir, að ef menn eru óheppnir með kosningu einhvers manns, þá verða þeir að sitja með hann 6 ár og geta ekki losað sig við hann, enda þótt maðurinn sé alveg ómögulegur í alla staði. Um það, að sunnudagur sé óheppilegur kjördagur, sagði hv. þm. að það væri sama, hvaða dagur væri í sveitunum. Það má vel vera, að hv. þm. hafi þar rétt að mæla enda skiptir það ekki miklu máli. Það hefir gengið erfiðlega hér á landi að fá kjördaginn gerðan að almennum frídegi fyrir fólkið, sem þarf að fara og greiða atkv. Það er þó nauðsyn, því að þegar menn í sveitum fara og greiða atkv., fer oft og tíðum allur dagurinn í það, og er því þessi dagur alveg spilltur fyrir sveitabændum. Mér fyndist því æskilegast að hafa kjördaginn á sunnudegi því að hann á fólkið sjálft sem sinn frídag hvort sem er. Hv. þm. Borgf. sagði, að ef fólk ekki hefði áhuga fyrir kosningunni, væri ekkert annað við því að gera en að þeir, sem kæmu á kjörfund, réðu kosningunni. Hann tók það dæmi til samanburðar, að það væri hægt að afgr. mál á Alþingi með minni hluta atkv., ef svo bæri undir. Ég veit, að hv. þm. tekur þetta dæmi ekki til rökstuðnings sínu máli, heldur til að blekkja þá, sem á hann hlusta. Þetta eru tvö ólík viðhorf. Þetta ákvæði um afgreiðslu mála á þingi er sett til þess, að hægt sé að afgr. mál, þó að einhver þm. neiti að mæta eða geti ekki mætt á fundi. Annars gætu nokkrir þm. sett fótinn fyrir það, að nokkuð væri hægt að gera á Alþingi, svo að þetta er ólíkt því, sem ég benti á í gær. Ég vil að lokum undirstrika það, að hér er ekki um neinn hringlandahátt að ræða. Það er brýn nauðsyn að koma því á, að kosningar verði leynilegar, en ekki opinberar, eins og hingað til hefir tíðkazt. Það er fyrsta og stærsta atriði þessa máls. Um leið á að gera þær breyt., sem miða til bóta svo sem auknar hlutfallskosningar, sem er það sanngjarnasta og réttlátasta kosningafyrirkomulag hér á landi.