06.05.1936
Sameinað þing: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, fjárlög 1937

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég geymdi mér í gærkvöldi að mæla fyrir einni till. Ég bjóst við betri fundarsókn í dag. Ég vil leyfa mér að benda þeim hv. þm., sem hér eru viðstaddir, á brtt., sem ég ber fram á þskj. 519, undir XLVI, við 22. gr., til þess að greiða eftirstöðvar af brunaskaðabótum til tveggja þar greindra manna.

Eins og hv. þm. er sjálfsagt kunnugt um, brann nýbyggt íbúðarhús á Flögu í Skaftártungu, en á þessunt bæ var landssímastöð. Fólkið bjargaðist með naumindum, en húsið brann og allt sem í því var og kringum það var, og var tjónið eitt hið geysilegasta, sem nokkurntíma hefir átt sér stað í sveit hér á landi af völdum bruna. Þessu máli var vísað til hæstv. stj. sem svo vísaði því til Alþingis. Þingið samþ. að lokum að heimila ríkisstj. að greiða helming þeirrar upphæðar, sem tjónið yrði metið á, og var það metið á 18–20 þús. kr., og átti þá að greiða minnst 9 þús. kr., sem aldrei var gert, en fyrir eftirgangsmuni fengust 6 þús. kr. alls, og eru þá eftir 3 þús. kr. af upphæðinni, sem bóndinn í Flögu átti að fá. En svo var annar maður á bænum sem hafði þar eigur sínar, sem brunnu allar. Það var Þorsteinn Jakobsson. Hann hefir ekkert fengið í skaðabætur, enda var tjón hans metið minna. Mín aðaltill. er að þessar 3000 kr. verði greiddar bóndanum, og svo 600 kr. til Þorst. Jakobssonar, en með því að ástand ríkissjóðs er mun verra nú en það var, þegar þetta mál kom fyrir, hefi ég komið fram með varatill., sem felur í sér aðeins heiming aðaltill., 1500 kr. til Vigfúsar Gunnarssonar og 300 kr. til Þorsteins Jakobssonar.

Ég sé ekki þörf á að mæla meira með þessu. Eg mun láta hv. þm. í té þau gögn, sem fyrir n. liggja um þetta mál, ef nokkur vill á þau líta. Annars verður að skeika að sköpuðu um þessa till. eins og aðrar, en ég vona fastlega, að menn ljái þessu máli lið sitt.