07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

1. mál, fjárlög 1937

*Jón Pálmason:

Ég þakka hæstv. forseta fyrir frjálslyndi sitt. Í sjálfu sér þarf ég ekki að fjölyrða um ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Hann byrjaði á því að draga það í efa að það væri rétt, sem ég hafði sagt í dag, að almenningur í sveitum landsins væri því andvígur, að H. K. L. væri veittur þessi styrkur; hv. þm. lýsti yfir því, að í sínu héraði mundu menn almennt vera meðmæltir þessari styrkveitingu. Þetta getur satt verið, og ef svo er, þá ber það vott um sérkennilega menningu og hugsunarvott, sem kemur m. a. fram í því að hafa kosið jafnskáldelskan þm. og hv. síðasti ræðumaður er.

Að því er snertir þau rök, sem ég benti á því til sönnunar, að rétt væri að fella þennan styrk niður, þá var það tvennt, sem hann fór rangt með; í fyrsta lagi það að ég hefði haft þau orð, að þetta skáld kynni ekki að fara með íslenzkt mál. Ég tók það einmitt fram að ég gerði ráð fyrir, að menn létu villast á því, að þessi rithöfundur hefði töluvert gott vald á íslenzku máli og létu því til leiðast að veita honum skáldaverðlaun, þrátt fyrir það þó hann hefði svo greinilega galla á öðrum sviðum, að ekki yrði við unað að skipa honum á bekk með mestu skáldum þjóðarinnar. Hitt er náttúrlega dálítið annað mál, hvort ég get skrifað undir það, að enginn íslenzkur maður hafi nokkurn tíma farið eins vel með íslenzkt mál eins og þessi rithöfundur.

Í þessu sambandi má benda á leikritið „Straumrof“ eftir þennan höfund. Okkur þm. gafst kostur á að sjá alla þá snilld og list, sem þar kemur fram, en ég verð að segja, að ég tel þá list ekki landi okkar til sóma. Því hefir verið haldið fram, að það bæri sérstaklega að halda hróðri þessa manns á lofti, vegna þess að hann væri skáld alþýðunnar; ég skal náttúrlega ekki fara mikið út í það atriði, en þó vil ég segja það að ef íslenzk alþýða væri á þeim vegi stödd, að lýsingar H. K. L. á henni væru nokkuð nálægt sanni, þá væri hún djúpt sokkinn í eymd og volæði.

Annars þarf ekki að fara neitt sérstaklega út í upplestur hv. síðasta ræðumanns. Ef ég hefði verið svo fyrirhyggjusamur að hafa með mér eitt af ritum höfundar, þá gæti ég lesið upp sýnishorn af þeim hugsunarhætti, sem skáldið prédikar og mælir með. Ef ég hefði hér við höndina. Vefarann mikla frá Kasmir eða Straumrof, þá væri þægilegt að bregða upp mynd af því hvað það er sem þessi höfundur er að bera á borð fyrir erlenda lesendur um það, hvernig íslenzk menning er og hvað það er, sem sérstaklega er takandi til meðferðar til þess að lýsa. Annars býst ég við, að það verði erfitt að koma því til leiðar að fá nokkuð það samþ., sem rýrir hagsmuni þessa skálds, ef á að kalla hann skáld, þegar hann hefir svo öfluga varnarmenn eins og hv. síðasta ræðumann, sem þing eftir þing heldur langar ræður um það, hvað hann sé mikill snillingur, þetta skáld, sem Alþingi er að heiðra með stórum fjárfúlgum. Um stílsnilldin., sem hv. þm. var að útmála, vék ég að í ræðu minni í kvöld, en ég get að sjálfsögðu farið nokkuð út í það, hvað það er, sem veldur því, þegar verið er að tala um, að þessi höfundur sé frægur í útlöndum. Hverjir eru það, sem orsaka þessa frægð? Það eru t. d. danskir menn, sem verða hrifnir af öllu, sem illa er sagt um Íslendinga. Það eru þeir, sem hafa orðið hrifnir af ritum þessa höfundar. (ÞorbÞ: En Englendingar?). Ég skal svo ekki hafa, þessi orð mín fleiri. Mér þykir leitt að hafa móðgað svo skáldhneigðan mann eins og þennan hv. þm.