08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

40. mál, brúargerðir

Thor Thors:

Ég hefi borið fram allmargar brtt. við þetta frv. á þskj. 66. Hv. samgmn. hefir nú tekið sumar þeirra upp í sínar till. samkv. því, sem vegamálastjóri lagði til. Þær brýr, sem samgmn. hefir tekið upp, eru á Kálfá í Staðarsveit, Fróðá í Fróðárhreppi, Laxá í Neshreppi Svelgsá í Helgafellssveit og Svínafossá á Skógarströnd. Allar þessar brýr eru yfir meira en 10 metra haf, og því nauðsynlegt að taka þær sérstaklega upp í brúalögin. Hinar árnar, sem tilteknar eru í till. mínum, hafa reynzt minni en svo, að nauðsynlegt sé að tiltaka þær í lögunum, þar sem brúarlengdin nær ekki 10 metrum, en slíkar brýr greiðast að öllu úr ríkissjóði samkv. því, sem ákveðið er í b-lið 2. gr. í brúalögunum frá 1932. Að þessum upplýsingum fengnum vil ég leyfa mér að þakka hv. samgmn. fyrir það, að hún hefir tekið til greina allar mínar till., sem máli skipta í þessu sambandi, og vil ég þá jafnframt taka aftur hinar aðrar brtt. mínar á þskj. 66.