07.05.1936
Efri deild: 67. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Magnús Jónsson:

Ég býst við því, að þótt það sé e. t. v. hjátrú, að mjög fátt sé unnt að rækta hér á landi, þá verði Ísland seint verulegt garðyrkjuland, nema þá að sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess, og að garðyrkjumannastétt í líkingu við það, sem er erlendis, verði seint til hér á landi. Hitt er eðlilegt, að þegar byrjað er á einhverjum hlut, þá séu sóttir sérfræðingar til að annast um þá. Ég býst við, að ef þessi skóli yrði settur upp, þá þyrfti að sækja útlending, til þess að kenna þar. Það væri ekkert ólíklegt, að jafnóðum og komið væri upp stórum garðyrkjustöðvum, þá færu þangað þeir menn, sem hafa áhuga á þessum efnum, og við það koma af sjálfu sér menn, sem hafa mikla reynslu og þekkingu á þessum hlutum, og að af sjálfu sér verði hér til, án þess að kosta til þess sérstaklega, allmikill hópur manna til þess að vinna á þeim stöðvum, þar sem garðyrkja er rekin í stórum stíl. Hitt finnst mér meiri ástæða til, að útbreidd væri þekking og áhugi á því að rækta einföldustu nytjajurtir, t. d. kartöflur. En það vill svo sorglega til, að þessi staður, reykir í Ölfusi, er eftir þeim upplýsingum sem hér liggja fyrir, mjög óhentug ur staður fyrir kartöflurækt. Það kemur því ekki vel heim hjá hv. 2. þm. Rang., þar sem hann segir, að Reykir séu mjög hentugur staður til þessa og hinsvegar, að það væri hin mesta nauðsyn að þurfa ekki að flytja inn kartöflur.

Annars vil ég út af ræðu hv. 4. landsk. segja það, að ég skil ekki almennilega, hvað hann átti við, þegar hann var að tala um, að ég vantreysti stj. til þess að undirbúa þetta mál. Ég sé satt að segja ekki, að það standi neitt um undirbúning í þessu frv. Það stendur aðeins „stofna skal garðyrkjuskóla“. Það er sama, hvað kemur upp í þeim athugunum, sem ríkisstj. kynni að gera eftir að þessi l. eru sett. Henni er sagt að setja upp svona skóla. Ég renni auðvitað í blindni í sjóinn um, hvað rekstur svona skóla mundi kosta, en ég get ímyndað mér, að talsverðan kostnað þurfi alltaf að leiða af honum. Ég býst við, að þar sem þarna er um ríkisskóla að ræða, þá mundi hann verða að taka á móti öllum þeim nemendum, sem sæktu um að komast í skólann, og kostnaðurinn fer þá vitanlega talsvert eftir því, hvað þeir verða margir á hverjum tíma. Það er sem sagt, að það hefir engin áætlun verið gerð um neitt viðvíkjandi þessum skóla, hvaða húsnæði þarf, hvað marga kennara þarf að hafa, eða neitt því um líkt. Ég verð að segja það, að ég álít ekki, að þetta sé svo aðkallandi, að það megi ekki bíða eitt ár, og leita sér frekari upplýsinga um þetta atriði. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um það, að vel mætti tengja guðfræðideildina við alþýðuskólana, þá vil ég segja það, að það er náttúrlega ekki fjarstæða að kenna kristinfræði við alþýðuskólana, en sérmenntun í guðfræði er ekki hægt að nema á þeim skólum, nema þá að koma upp sérstakri deild við þá skóla, en það verður vitanlega sérstakur skóli eftir sem áður. Það liggur frekar í augum uppi að taka önnur dæmi; t. d. er hagfræði oft kennd í sambandi við lögfræði. Ég get satt að segja ekki skilið, hvers vegna mönnum finnst það óeðlilegt, að kennsla í garðyrkju væri höfð í sambandi við búnaðarskólana. Ég veit ekki betur en við þá skóla sé kennt það, sem er alveg hliðstætt. Það er svo hliðstætt, að í l. um búnaðarskólana er beinlínis tekið fram, að það eigi að kenna jarðrækt. Ég veit hinsvegar ekki til, að það sé tekið fram í l. um barnaskóla og alþýðuskóla, að það eigi að kenna guðfræði. Og það hefir a. m. k. stundum verið svo, að búnaðarskólarnir hafa ekki verið sóttir svo mikið, að það væri ekki æskilegt að fá einhverja námsgrein, sem frekar ýtti undir menn að sækja þessa skóla. Og til þess að kenna mönnum almennt jarðrækt, á kennslan að fara fram á hliðstæðum stöðum, sem menn almennt hafa við að búa í landinu. Ég vil svo að endingu rétt benda á það í þessu sambandi, að þetta frv. kemur hálfilla heim við annað frv., sem liggur fyrir þinginu um stjórn Reykjatorfunnar, þar sem mér skilst það koma fram, að það sé talin nauðsyn að hrekja menn burt úr sumarbústöðum, af því að það sé hættulegt að hafa þá í nánd við berklafólkið, en svo á að fara að hrúga þarna upp fólki við skóla. Önnurhvor þessi röksemd hlýtur að vera röng. Mér virðist það satt að segja einstök fjarstæða að vera að koma með svona frv. á þessum tímum, þegar þarf stöðugt að vera að hækka skaftana til þess að geta staðið í skilum á greiðslum ríkissjóðs á þeim lánum, sem fyrir eru.

Sem sagt ég vil láta fresta þessu máli fyrst um sinn og láta leita upplýsinga um málið. Mér finnst nógur tíminn, þegar eitthvað fer að greiðast úr vandræðunum, að fara þá að „flotta“ sig með því að setja upp sérstakan skóla í þeirri fræðigrein, sem vel er hægt að bæta við skóla, sem fyrir er.