21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er orðið nokkuð áliðið kvöldsins til þess, að ég hafi löngun til að blanda mér of mikið inn í þessar umr. til að lengja þær meira en orðið er. Ég kvaddi mér hljóðs af litlu tilefni, sem hv. 6. landsk. gaf. Hann færði fram sem dæmi um það, hvað bændur væru áfjáðir í að selja jarðir sínar, jafnvel sjálfstæðismenn utan þings og innan, að 3 jarðir í Vestur-Skaftafellssýslu hafi verið boðnar ríkinu til kaups nú á undanförnum 2–3 þingum. En hv. þm., sem þessi orð talar. veit vel, að hér skýtur mjög skökku við. Það er engin hætta á því að þessar jarðir hafi verið boðnar ríkinu til þess að losna við þær. Við, sem til þekkjum, vitum það, að ríkisvaldið var búið með framkvæmdum, sem það lét gera þarna, að gera það að verkum, að þessar jarðir lágu undir skemmdum og voru farnar að skemmast. Við þessu lá í rauninni einfalt ráð. Þessir eigendur áttu auðvitað kröfu á að fá árlega greiddar skaðabætur fyrir þetta tjón, sem ríkisvaldið hafði lagt þeim á herðar. En þeir töldu sér heppilegast, að ríkið tæki þessar jarðir, áður en þeir neyddust til að flæmast burt, og væru þá kannske búnir að missa meira eða minna af sinni áhöfn. Það varð að samkomulagi, að ríkisvaldið gekkst við þessu á þessum grundvelli. En ég þori að fullyrða, að þessum mönnum hefði ekki komið til hugar að fara að bjóða ríkinu jarðir sínar, ef þetta hefði ekki í skorizt. Það hefir ekki átt sér stað, að bændur gerðu mikið að slíku, en það er náttúrlega sennilegt, að það fari að eiga sér stað eftir þær aðgerðir, sem nú er verið að framkvæma og festa með löggjöfinni, og vafalaust síðar á öruggari hátt, til þess að ná þeim tilgangi, sem þetta frv. er sprottið af. Til þess að finna þessum orðum mínum stað verð ég að fara nokkrum orðum um frv. og það, sem komið hefir fram í málfærslu þeirra, sem stutt hafa frv. Mér virðist það í fyrsta lagi mjög einkennilegt eftir það, sem gerðist á síðasta þingi, þegar aðalflm. þessa máls og frsm. meiri hl. voru með því að selja það í l., að ríkið héldi aðeins áfram þeim jörðum, sem einhverja sérstöðu hefðu hvað ábúð snerti. En svo kemur fram á næsta þingi frá þessum sömu mönnum frv. um, að ríkið eigi að kaupa sem flestar jarðir. Í þessu tel ég hina mestu mótsögn. Það er enginn vafi á því, að þetta er fyrir áhrif frá sósíalistum, og af engu öðru. Þetta kemur fram á þessu þingi sem nokkurskonar samkomulagsmál milli þessara flokka, til þess að þjóna báðum stefnunum. Það er víst, að með þessu frv. hafa framsóknarmenn sýnt og sannað, að þeirra stefna er orðin sú sama og sósíalista, að ríkið eigi sem mest af jörðunum. Ég tel fyrir mitt leyti, að nokkuð sé fengið með þessu. Ég vissi ekki betur en allir frambjóðendur Framsfl. við síðustu kosningar hafi mótmælt því harðlega, að þeir ætluðu að fylgja sósíalistum í þessu máli. Það er fullyrðing, sem ekki hefir við rök að styðjast, að bændur hafi ekki einungis lýst sig fylgjandi því, að jarðirnar væru seldar, heldur væru þeir búnir í fleiri ár að bjóða ríkinu jarðir sínar til kaups. Hér er verið að vitna til þess, að raddir hafi komið um það frá bændum úr öllum flokkum, að þeir vilji losna við jarðirnar á þennan hátt, en ég mótmæli, að svo sé. Mun þetta þann veg til komið, að nú þegar er svo komið, að bændur sjá, að ríkisvaldið ekki aðeins býðst til að kaupa, heldur setur sérstök l. um jarðakaup ríkisins, þá getur vel svo farið, að menn af öllum flokkum glæpist á að sinna því af þeirri höfuðástæðu, að bændur eru nú í því skuldaöngþveiti, að þeir sitja þar fastir, eins og fiskur í neti, og óttast það hlutskipti að flosna upp. Og það, sem einkum er deilt á flm. frv. fyrir, er að flytja það, þegar ástandið er þannig, og segja við bændurna: „Þið skuluð bara fara, áður en til þess kemur, að þið flosnið upp; við skulum kaupa af ykkur jarðirnar, en auðvitað ekki fyrir nema lágt verð.“ Þess vegna er það alveg rétt, sem hv. þm. Borgf. og hv. 7. landsk. bentu á, að af þessu stafar aðalvoðinn, að örva bændur, þegar erfiðleikarnir eru mestir, til þess að víkja frá þeim skyldum, sem þeir fúsir vildu rækja, og freista þeirra þannig til að yfirgefa jarðirnar og gera ástandið á þann veg enn verra en það þyrfti að vera. Er það gamla sagan um freistinguna, og hefir því aldrei verið bót mælt að freista þess, sem illa er staddur og veikur á svellinu. Það mun veral gefið, að ríkisvaldinu takist á þennan veg að ginna bændur frá jörðum sínum, en hitt er efamál, hvort ríkið stenzt það áhlaup, sem á það verður gert, og hvort rétt sé að binda því þann bagga, að eiga allt á hættu, ekki aðeins stofnkostnaðinn, heldur einnig um að jarðirnar byggist, sem vitanlega verður á kostnað allra þjóðfélagsstétta.

Þó sú verði raunin á, að margir verði til þess að bjóða fram jarðir sínar, er víst, að margir gera það ófúsir. En fyrr eða seinna mun koma að því að jarðirnar byggjast ekki, og er þá vafasamt, að það borgi sig fyrir það opinbera að yfirtaka skuldirnar, ekki betri tök en það hefir á því að bæta á sig greiðslum. Er þá einmitt komið að því, áhættan getur verið óútreiknanleg, þegar það hleðst ofan á, að jarðirnar ekki byggjast, og ríkið verður að borga skuldirnar, en situr með arðlausar jarðirnar. Ef fjölmargar jarðir fara í eyði fyrir þær sakir, að bændurnir flýja burtu af þeim, og hús og ræktun fara í rústir og flag, hvað verður þá um allar þær millj., sem búið er að leggja í þessar jarðir? Er öllu því fé á glæ varpað? Það er svo glæfralegt að leggja þetta allt á hættu, að það er algerlega óverjandi.

Ég sé ekki, að meðmælendur frv. hafi borið fram nein rök, sem gera glæsilegt, að málið gangi fram.

Hv. 6. landsk. vildi sýna fram á, að þó það opinbera keypti jarðir, sem því væru boðnar, þá þyrftu þær ekki að fara í eyði fyrir það; nefndi hann t. d. Skálholt. Ég hygg, að ekki hafi allir verið sammála um, að það hafi verið sérstaklega glæsileg kaup. Annars mætti fara nákvæmar út í það mál, ef það tæki tali að nefna, það sem fyrirmynd.

Þá er það aðeins eitt atriði, sem hv. þm. talaði um, sem ég vildi minnast á, því aðrir hafa tekið flest þeirra til rækilegrar gagnrýni. Mér þótti það alleinkennileg setning, sem hv. þm. sagði, að allir hefðu viljað og vildu heldur vera starfsmenn þess opinbera en sjálfseignarbændur. En þetta er nýtt fyrirbrigði, þótt nú megi e. t. v. segja, að almenningur lifi í vonum þess að komast á launaspena ríkisins, og helzt það í hendur við meirihlutavald núverandi stjórnarflokka. Veit hv. 6. landsk. ekki meira í sögu en svo, að honum sé ókunnugt um, að áður vildu allir embættismenn þjóðarinnar jafnframt vera óðalsbændur. Þó þeir yrðu að sitja svo að segja á mölinni, gerðu þeir sér allir far um að eignast jarðaróðal, og þótti sín framtíð ekki sæmilega tryggð á annan veg.