20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

73. mál, fræðsla barna

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég finn ósköp litla ástæðu til að taka þátt í því eintali sálarinnar, sem hv. þm. V.-Sk. hefir hér um hönd. Ýmist talar hann við sína eigin sálu, eða þá fólkið á pöllunum og blaðamennina í hliðarherbergjunum með blöðin í höndunum. Því síður er ástæða til að segja margt um þetta, þar sem hv. þm. telur sig nú mest fylgjandi frv., sem hann segir, að geri ráð fyrir nokkuð lausalopalegu bráðabirgðaskipulagi. Þetta lausalopalega bráðabirgðaskipulag liggur nú fyrir hv. Ed., og það er sú lausn á málinu, sem hv. þm. virðist helzt hallast að á þessu stigi. (GSv: Hv. þm. þykir það leiðinlegt). Eftir þá yfirlýsingu, sem hv. þm. hefir gefið um sinn málstað og hans ágæta samherja, sé ég enga ástæðu til að öfunda hann.

Hv. þm. er alltaf að tala um kúgun og ófrjálsræði, að það eigi að kúga foreldra til þess að láta börnin í skóla og kúga börnin til þess að læra eitthvað, sem honum þykir ískyggilegt. Það er ekki að undra, að sú sjálfstæðishetja, sem hv. þm. var áður fyrr, þó árgalinn sé nú þagnaður á ýmsum sviðum, finni ástæðu til að berjast á móti því, að börn séu kúguð til að læra fjóra mánuði á ári í fjögur ár. Það er ofurlítið afskaplegt. (GSv: Á ekki skólaskyldan að vera frá 7 til 14 ára aldurs?). Það er von, að hv. þm., sem sjálfur hefir væntanlega verið í barnaskóla, síðan í menntaskóla 6 ár og í háskólanum 5 ár til viðbótar, hneykslist á því, ef fara á að „kúga“ aðra til þess að læra 4 mánuði á ári í 4 ár. Ég kann illa við þetta tal langskólagenginna manna um, að það sé verið að kúga fræðslu upp á þá, sem minnsta fræðslu fá. Hér á að stuðla að því, að þeir, sem lítils eiga úrkosta, verði ekki alveg útundan. (GSv: Við erum að tala um barnafræðslu). Já. Ég er líka að tala um barnafræðslu. Ef hv. þm. hefir þurft þetta alltsaman ofan á sína barnafræðslu, finnst mér, að hann ætti ekki að sjá eftir þessari litlu fræðslu til þeirra, sem ekki hafa aðstöðu til lengri skólagöngu. (GSv: Þessi hv. þm. hefir víst ekki fengið nóg). Hv. þm. segir, að allt eiga að vera frjálst, vill ekki vita af neinni skyldu á þessu sviði, eða að það megi fyrirskipa héruðum að starfa saman. En þetta er nú gert til þess að spara. Það er ekki gert vegna kennarastéttarinnar, heldur til þess að vernda hag ríkissjóðs, sem hv. þm. er alltaf að fala um í þessu sambandi. Ég veit ekki, með hverju öðru móti á að tryggja hag ríkissjóðs í þessu efni heldur en þessu, að fela fræðslumálastjóra að ákveða fræðsluhéruðin, jafnvel stundum þegar hlutaðeigendur geta ekki komið sér saman. Það er rétt, að meginatriði þessa máls eru þau að koma á heimavistarskólum í sveitum og færa skólaskyldualdurinn niður í kaupstöðum og þorpum. En þetta eru ekki fyrst og fremst meginatriði þessa frv., heldur er það meginstefna síðustu ára, sú stefna, sem fólkið sjálft hefir ráðið. Það liggja fyrir þessu þingi margar óskir um að fá hjálp til þess að koma upp heimavistarskólum, svo margar umsóknir, að ég efast um, að þeim verði sinnt á skemmri tíma en næstu 3–4 árum. Og þá verður ófullnægt öllum þeim óskum, sem á þeim tíma koma fram. Hér er því sannarlega ekki um neina kúgun að ræða. Ef nokkur kúgun á sér stað í þessu efni, þá er það helzt það, að öll þessi héruð fá ekki þá peninga til skólabygginga, sem þau óska eindregið eftir. Ég sé ekki ástæðu til að hafa langt mál um þetta. Það er glöggt, að sveitirnar vilja koma á hjá sér heimavistarskólum, og þeir hafa allsstaðar gefizt vel, þar sem þeir eru komnir á. — Hv. þm. minntist á, að einhverjir vildu losna við kennara, sem væri við einn af heimavistarskólunum á Suðurlandsundirlendinu. Það er allt annað mál. Það er ekki skólafyrirkomulagið, sem menn vilja losna við, en það er það, sem við erum að tala hér um. Það kemur ekkert þessu máli við, hvort menn vilja losna við kennara frá einhverjum heimavistarskóla, eða af hvaða ástæðum það kann að vera. (GSv: Er það ekki nokkuð mikið höfuðatriði við heimavistarskóla, hvernig kennarinn er?). Jú, það er nokkuð mikið atriði og meira heldur en hvernig sýslumenn eru hver í sinni sýslu. En á sama hátt og sýslumanni er heimilt að vera í hvaða stjórnmálaflokki sem hann vill, eins tel ég, að kennara eigi að vera það heimilt. En hér mun aðallega vera um það að ræða, af hvaða flokki þessi kennari er. Þetta atriði, sem hv. þm. vitnaði til, kemur þannig bókstaflega ekkert við því frv., er hér liggur fyrir.

Þetta frv. er, eins og ég hefi margsagt, fyrst og fremst heimild, og heimild, sem bendir í rétta átt, bendir á þá stefnu, sem fólkið í héruðum landsins hefir haldið í áttina til. Hér er verið að hjálpa fólkinu til þess að fá fullnægt sínum óskum. Það er fjarstæða hin mesta, að hér sé verið á nokkurn hátt að taka yfirráðin yfir börnunum frá foreldrum þeirra. Og ég hefi aldrei talað við móður um fræðslumál og skólaskyldu svo, að móðirin hafi ekki óskað eftir meiri fræðslu handa börnum sínum fremur en að þau fengju minni fræðslu en börn hafa fengið. Foreldrarnir eru sannarlega ráðamenn barnanna. Og í þessu frv. gilda um það allar þær heimildir, sem áður hafa gilt. Í vissum tilfellum er foreldrum nú heimilað að hafa börn utanskóla, ef skólanefnd telur, að fræðsluskyldunni gagnvart þeim sé fullnægt með þeim hætti. Og allar slíkar heimildir, sem nú gilda, gilda einnig áfram eftir þessu frv., og í því efni er því ekki um neina kúgun eða þvingun eða neitt slíkt að ræða. Það er svo fjarri því, að frv. þetta sé andstætt þörfum barna og réttindum foreldra. Það er í aðalatriðum til þess flutt að fullnægja óskum og þörfum þessara aðilja.

Læt ég svo þessi orð nægja, þó færri séu en orð hv. þm. V.-Sk. um þetta mál.