20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

73. mál, fræðsla barna

*Gísli Sveinsson:

Það voru tvö atriði í ræðu hv. frsm., sem ég vildi gera nokkra aths. við. Hann sagði, hv. frsm., að ég hefði að svo miklu leyti sem ég hefði komið inn á kostnaðarhlið þessa máls, eingöngu borið hag ríkissjóðs fyrir brjósti. En ef hv. þm. hefði ekki alveg verið úti á þekju, þá hefði hann átt að heyra, að ég nefndi alls ekki ríkissjóð í þessu sambandi, enda átti það ekki við það efni, sem ég var að rekja. Ég var að tala um þá hlið málsins, sem sneri að héruðunum, en ekki þá, sem sneri að ríkissjóði, enda var það sú hlið þessa máls, sem mér kom við. Fyrir hönd ríkissjóðs voru aðrir til andsvara. Ég hélt mér eingöngu við þann kostnaðarauka, sem með frv. þessu, ef að lögum yrði, yrði lagður á herðar sveitar- og sýslufélaganna. Í annan stað talaði hv. frsm. um unglingafræðslu og jafnvel háskólafræðslu í sambandi við afskipti mín af þessu máli. Allt, sem hv. þm. sagði um þetta, voru útúrsnúningar einir. Það er vitanlega allt annað að kenna börnum á aldrinum 8–10–14 ára en fullorðnu fólki. Og það, sem hér er um að ræða, er það, hvort auka eigi bóklega fræðslu barna á þessum aldri. Unglingafræðsla eða háskólafræðsla er alls ekki hér til umr. Enn sem komið er er öll slík fræðsla ólögskipuð, en hverjum frjáls, sem hennar óskar og tækifæri hefir. Í þessum tveimur atriðum fór hv. frsm. því villur vegar og á hundavaði.

Í annan stað talaði hv. þm. N.-Þ. nokkur orð. Hann fór fyrst að tala sem fulltrúi fyrir umbjóðendur sína norður í landi, en fór síðan að vaða um allt aðra hluti og meðal annars að hnjóða í þá, sem sýnt hafa fram á galla á þessu frv. Annars skal ég taka það fram út af brtt. þessu hv. þm., að svo fremi að dagskrártill hv. þm. Borgf. verður ekki samþ., mun ég fylgja þeirri brtt. hans, sem miðar í þá átt að gera frv. frjálslegra en það er nú, eins og t. d. till. um að fræðsluráð ráði um undanþágur frá skólaskyldu, í stað fræðslumálastjóra.

Þá fór hann inn á annað svið, sem ekki kemur þessu máli við, en það var fækkun presta, og beindi hann þar orðum til mín. Það er rétt, að ég hefi látið uppi það álit mitt, að ég tel fækkun presta ekki réttmæta. En hvað kemur slíkt þessu máli við ? Hér hefi ég rætt um frv. þetta um fræðslu barna, sýnt fram á galla þess, að m. a. væri ekki tekið nógu mikið tillit til héraðanna úti á landi. Um kennarastéttina hefi ég ekkert sagt. Þar er sjálfsagt misjafn sauður í mörgu fé, eins og oft vill eiga sér stað. Má þar benda á ummæli þau, sem hv. þm. Borgf. hafði í dag eftir 2. þm. Árn., að við tvo heimavistarskóla þar í sýslu væri óánægja fólksins orðin svo mikil með kennarana, að helzt væru líkur til, að foreldrarnir fengjust ekki til þess að senda börn sín í skólana eftirleiðis, ef ekki væri úr bætt.

Þetta þykir mér rétt að taka fram hér til þess að sýna fram á, að í kennarastéttinni eru engu síður misjafnir menn en í prestastéttinni.