21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

73. mál, fræðsla barna

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ástæðan til þess, að þessar brtt. komu fram við 3. umr., en ekki 2. umr., er sú, að samkomulagstilraun stóð yfir í n., sem tafði brtt. Og þó að gott samkomulag næðist um brtt. að lokum, þá dróst það það langan tíma um sumar brtt., að þær urðu að koma á sérstöku þskj. daginn áður en málið var tekið á dagskrá til 3. umr.

En hv. 5. þm. Reykv. hefir ekki átt kost á að taka til máls við umr. um málið, og vil ég skjóta þeim tilmælum til hæstv. forseta, að sá hv. þm. fái að taka til máls um málið á þann hátt, að hann geri sérstaklega og í einu lagi grein fyrir atkv. sínu um frv. og brtt. Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort hann áliti þetta ekki framkvæmanlegt, ef enginn þm. mælir gegn því. Grg. fyrir atkv. þekkist oft við atkvgr., og virðist mér, að í þessu tilfelli mætti hún fara fram í einu lagi á undan atkvgr.