26.02.1936
Neðri deild: 9. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

32. mál, landssmiðja

Guðbrandur Ísberg:

Eins og hv. þm. Hafnf. tók fram, er þetta frv. flutt af meiri hl. iðnn. Minni hl. getur ekki fylgt því í því formi, sem það er nú, og þó hefir það tekið miklum bótum frá því í fyrra.

Landssmiðjan var á sínum tíma talin stofnuð af nauðsyn, en ýmsir, þar á meðal ég, hafa leyft sér að efast um, að sú nauðsyn hafi nokkurntíma verið fyrir hendi. En hvað sem því líður, þá hygg ég, að menn hafi verið sammála um, að um bráðabirgðaráðstöfun hafi verið að ræða, en ekki verið tilgangurinn að lögfesta hér mikið verksmiðjubákn og hlaupa þannig í kapp við einstaklingana, sem járnsmíði reka að atvinnu.

Ég ætla ekki við þessa umr. að fara inn á efni frv., það verður gert við 2. umr., en ég vil gera það að till. minni, að frv. verði vísað til hv. fjhn. Það fór þangað í fyrra og var mikið lagað þar, og ég vænti, að svo verði enn.