24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

32. mál, landssmiðja

*Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Við erum nú komnir hér inn á gamlar og troðnar brautir og þar af leiðandi ekki orðið mörgu að svara. Náttúrlega er það fjarstæða að koma með það, bæði áður og eins nú, að ef landssmiðja væri ekki til, þá væri það opinbera ofurselt samtökum smiðjanna. Ég sé ekki, að ríkið sé fremur ofurselt en einstaklingar þeir, sem þurfa að láta smiðjurnar vinna fyrir sig. Og ef allt er ofurselt þessum samtökum, þá er það sannarlega undarlega byggt þjóðfélag, ef ekki kemur inn nýr keppinautur, sem kemur í veg fyrir okur, ef um okur er að ræða. Hin frjálsa samkeppni útilokast ekki af því, þótt einstök fyrirtæki hafi hátt verð, því þá koma ný fyrirtæki, sem keppa við þau gömlu, ef gróðavon er að því.

Hinsvegar ef um stórsamtök er að ræða í einstökum greinum og verðinu er haldið háu, þá gefur það ekki tilefni til að setja á stofn ríkisfyrirtæki, og slíkum samtökum verður ekki hnekkt með því, heldur með því að setja „antitrust“löggjöf. Það hefir komið fyrir, að slík löggjöf hefir verið sett til þess að tryggja hina frjálsu samkeppni.

Ég verð að segja, að mér finnst ekki, að rök hæstv. atvmrh. komi nokkuð í veg fyrir það, að 1. brtt.samþ. og að það sé prófað með útboði, að landssmiðjan hafi réttmætt verðlag á því, sem hún gerir. Látum svo vera, að hætta sé á því, að aðrir ætli að okra, en landssmiðjan eigi að koma í veg fyrir, að það geti átt sér stað, en þá er líka alveg jafnsjálfsagt að tryggja sig gegn óeðlilega háu verði hjá landssmiðjunni, og það verður ekki gert nema með því að bjóða verkin út, svo að það geti alltaf staðið óhaggað, að sætt hafi verið beztu kjörum.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að ekki mætti samþ. þessar brtt., af því að þá yrði að senda málið aftur til hv. Nd., finnst mér rétt að vekja athygli á því, að bæði eru nú svo margir dagar eftir af þingi, að nægur tími er til að afgr. málið, og auk þess er það á valdi hæstv. ríkisstj. að hraða málinu. Að því leyti er óhætt að samþ. þessar brtt. Það þarf ekki að verða málinu í heild að fótakefli.