08.05.1936
Efri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

137. mál, viðbótarrekstrarlán handa Landsbanka Íslands

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég gat ekki verið hér við, við 1. umr. þessa máls til þess að gera grein fyrir því, hvernig á þessu frv. stendur. Ég geri nú ráð fyrir því, að hv. dm. hafi heyrt óminn af umr. þeim, sem urðu um þetta mál í hv. Nd. En þær ástæður, sem fyrst og fremst eru færðar fyrir þessu máli, eru þær, að fiskaflinn er nú 16600 tonnum minni en hann var á sama tíma í fyrra. Það mun láta nærri, að þessi aflarýrnun sé að verðmæti um 8 millj. kr., ef miðað er við sama verðlag og nú er á fiskafurðum. Þetta gífurlega hrun við sjávarsíðuna mun vitanlega hafa í för með sér stórkostlega tekjuskerðingu fyrir fjölda manna. Það hefir líka í för með sér, að það mun koma inn minni gjaldeyrir heldur en menn hafa reiknað með, ef ekki rætist úr þessu stórlega þann tíma ársins, sem eftir er, annaðhvort með því að aflinn glæðist á ný eða þá að síldveiðin gengur vel í sumar og vegur upp það aflaleysi, sem núna er. Það var þess vegna samróma álit stjórnar landsbankans, og féll það saman við álit ríkisstj., að það væri óvarlegt að skiljast svo frá þessu þingi, að ekki væri til möguleiki fyrir bankann að fá ábyrgð ríkissjóðs fyrir viðbótarláni, ef svo skyldi fara, að það teldist óhjákvæmilegt að taka slíkt lán. Það má gera ráð fyrir því, að svo geti farið, að heimildin verði notuð, nema þá, að á einhvern óvæntan hátt rætist fram úr því ástandi, sem nú er. Þó að reiknað sé með því, að það verði hert að með innflutninginn eins og föng eru á, þá er vitanlega ekki þess að vænta, að öðru eins hruni og hér varð í vertíðarfiskaflanum verði að öllu leyti mætt á þann hátt. — Hvort þetta viðbótarlán fyrir bankann fæst, veit ég ekki. Það lágu ekki fyrir frá bankanum neinar upplýsingar um það, en ég býst við, að þær verði gefnar síðar, ef ástæða þykir til.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. séu ljósar ástæðurnar fyrir málinu.