27.03.1936
Neðri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2159)

17. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Páll Þorbjörnsson:

Hv. þm. N.-Þ. og hv. þm. Borgf. hafa dvalið nokkuð mikið við þessi dásamlegu, að þeirra dómi, sem gilt hafa hjá Dönum um þetta efni. Og ég verð að segja fyrir mína hönd og annara, sem eru hlynntir því að rýmka til í þessu dragnótamáli, að við myndum sætta okkur við það, ef þessir hv. þm. vilja fallast á það t. d. að taka hér upp sama fyrirkomulag og er hjá Dönum, því að þar er gengið lengra en við förum fram á í okkar frv. Ég hefi fyrir framan mig reglugerð, sem er gefin út 13. júní 1931 samkv. 17. gr. l. nr. 93 frá 31. marz 1931. En það eru einmitt þessi l., sem hv. þm. N.-Þ. og hv. þm. Borgf. hefir orðið tíðrætt um, og samkv. þessari reglugerð, sem byggist á 1., eru dragnótaveiðar aðeins bannaðar í Danmörku 2 mánuði á árinu, og ég verð að segja, að við myndum taka því fegins hendi, ef þessu væri breytt í það horf hér. Þeir hampa því mjög, hversu Danir gangi rösklega fram í því að vernda sín fiskimið fyrir dragnótinni. Ég verð að líta svo á, að þeir muni mjög bráðlega koma með brtt. við frv., sem eru í samræmi við þessi l. Og ég gæti jafnvel fallizt á, að málið yrði tafið, svo að þeim gæfist ráðrúm til þess. Það getur stundum verið nokkuð sterkt að vitna í löggjöf, hvort sem það er löggjöf manns eigins lands eða annars. En mönnum getur orðið hált á því, þegar þeir nota þetta í æsingu, og líta þá ekki nema á aðra hliðina.

Ég sé, að hv. þm. Borgf. er kominn inn í d., og verð því að byrja nokkuð á nýjan leik. Hv. þm. brá nokkuð á leik í síðustu ræðu sinni. Það fór í taugarnar á honum, ef hann sá bros á mönnum í d. Ég hygg, að þó að hann hafi oft tekið rösklega á máli, þá hafi honum sjaldan tekizt eins upp og nú, nema ef vera skyldi einhverntíma 1931, þegar hann vitnaði í þessa dásamlegu löggjöf Dana. Ég hefi nú fyrir framan mig reglugerð, sem byggist á þessum l., sem hv. þm. Borgf. er að hampa og vill að við tökum okkur til fyrirmyndar. En samkv. henni eru dragnótaveiðar aðeins bannaðar 2 mánuði á árinu, eins og ég tók fram áðan.

Ég minntist á það áðan, áður en hv. þm. Borgf. kom inn í d., að þar sem hann og hv. þm. N.-Þ. lofuðu svo mjög þessi ströngu lagaákvæði Dana, þá myndu þeir fljótlega koma með brtt. við frv. okkar hv. 6. landsk. um að færa l. til samræmis við hin ströngu ákvæði hjá Dönum.

Ég byrjaði á endanum á ræðu hv. þm. Borgf., en af því að hann kom samtímis inn á annað mál, þá vil ég aðeins segja það, að mér þótti gaman að fá þá yfirlýsingu, sem hann gaf í sambandi við norsku samningana, þar sem hann sagði, að Norðmönnum hefði ekki verið veittur annar réttur en sá, sem þeir hefðu haft áður. Og þessi hv. þm., sem telur sig bera afkomu íslenzkra fiskimanna mjög fyrir brjósti, hefir þá væntanlega gefið yfirlýsingu um það, hvernig afstaða hans sé til þessara mála. Í byrjun ræðu sinnar, á meðan hann var ekki kominn á hápunktinn, talaði hann nokkuð rólega. Hann sagði, að dragnótaveiðar væru hættulegri en veiðar með botnvörpu. Ég efast um, að hv. þm. hafi séð bæði þessi veiðarfæri, eða þá að hann heldur botnvörpuna vera dragnót og dragnótina botnvörpu, ef hann heldur slíku fram. Hann klifaði mjög á þessum „morðum og drápum“, eins og hann sagði; vildi halda því fram, að dragnæturnar gerðu hvorttveggja jafnt, að myrða og drepa. Hann talaði um, hvað það væri mikið af ungviði og seiðum, sem færi forgörðum við dragnótaveiðarnar. Ég veit, að hv. þm. Borgf. veit það eins vel og ég, að það eru engar smátölur, sem menn verða að taka sér í munn, þegar menn ætla að fara að tala um viðkomu okkar nytjafiska, sérstaklega þorsksins. Það er áreiðanlegur hlutur, að þó svo kunni að vera, að eitthvað fari forgörðum af ungviði við dragnótaveiðarnar, þá er ýmislegt annað, skepnur og náttúruöfl, sem grandar þúsundfalt meira af þessu heldur en þó allur fiskfloti Íslendinga færi út með dragnætur.

Þá var hv. þm. mjög að tala um það, hvað mjög fiskistofninn væri að ganga til þurrðar. Hann sagði að lúðuveiðar væru svo að segja búnar að veru og ýsuveiðar sömuleiðis. Ég vil beina því til hv. þm. Borgf., hvort honum er ekki kunnugt um, að aflaleysi steðjar að fleiri landshlutum heldur en Faxaflóa og Breiðafirði. Er honum ekki kunnugt, að firðir á Vestfjörðum, þar sem bannaðar eru dragnótaveiðar, eiga við miklu meira aflaleysi að stríða, þó þeir til skamms tíma hafi verið nefndir gullkistur Íslands? Það er því áreiðanlegt, að aflaleysið á ekkert skylt við dragnótaveiðarnar. Eða á að skilja hv. þm. Borgf. svo, að hann haldi, að t. d. það, að fiskigangan virðist hafa komið með seinna móti upp á miðin hér við suðurströndina í ár, sé af því, að einhverjir koppar hafi verið að skafa þar með dragnót og grugga upp sjóinn? Hv. þm. vill e. t. v. koma hér með sömu vizku eins og maðurinn, sem hélt, að síldin hefði flutt sig inn á Herdísarvík af því verið var að fiska með dragnót hér úti á flóanum.

Hv. þm. var að tala um, að það væri skálkaskjól hjá okkur, þegar við í sömu andránni sem við værum að mæla með þessu frv. töluðum um hina erfiðu afkomu útgerðarinnar. Ég mótmæli þessu. Einmitt af því, hversu nú er þröngvað kosti okkar um að koma fiskinum á erlendan markað, er margföld ástæða til þess fyrir okkur að hagnýta dýrari fisktegundirnar, sem halda sig innan landhelginnar, heldur en að fylla hinn mjög svo takmarkaða markað með þorskinum og öðrum ódýrari fiski, sem í mörgum tilfellum virðist ekki geta borið uppi tilkostnaðinn.

Þá kom hv. þm. Borgf. enn einu sinni að því atriði, sem maður er ekki óvanur að heyra hann minnast á í sambandi við þetta mál, nefnilega umhyggju þeirri fyrir Dönum, sem hann felur, að komi fram hjá þeim, sem mæla með þessari lagasetningu. þetta er einhver sú fáheyrðasta mótbára, sem fram hefir komið á Alþingi, að við megum ómögulega lögfesta atriði sem þetta. vegna þess að Danir kunni að geta haft gagn af því jafnhliða okkur Íslendingum sjálfum. Við eigum að láta íslenzku þjóðina ganga á mis við hlunnindi til þess að sporna við því, að Danir geti notið góðs af sömu hlunnindum. Vill þá ekki hv. þm. eins banna að nota handfæri innan landhelginnar, til þess að Færeyingar geti ekki notið góðs af slíkum veiðum?

Þá minntist hv. þm. á það, að fiskiþingið vildi ganga það skemmra heldur en við flm. frv., að takmarka þetta við 30 rúmlesta stærð fiskibáta. Ég veit ekki, hvort þetta á að skilja svo, að hv. þm. sé einnig fylgjandi því að fara þá leið, en það gægðist a. m. k. fram hjá honum, að á þann hátt mætti girða fyrir það, að danskir bátar kæmu til að veiða með dragnót í íslenzkri landhelgi. Nú vil ég segja hv. þm. það, sem honum er þó eflaust kunnugt, að sáralítið af þeim fiski, sem veiddur er í dragnót af íslenzkum skipum, er flutt út af sömu skipunum, sem veiða hann. Hann er ýmist fluttur yfir í stærri skip eða ísaður í stíum eða settur í kassa og fluttur með flutningaskipunum. Ég held, að þó að leyfi til dragnóta væri bundið við 30 rúmlesta stærð báta, þá gætu Danir komið yfir hafið á smærri bátum á blíðasta sumartímanum og veitt hér yfir haustmánuðina, en haft stærri skip til þess að flytja aflann út. Þetta mundi því engin áhrif hafa gagnvart Dönum. Það mundi bara mismuna mönnum í sömu verðstöð; þessi maður mætti fara út með dragnót, en hinn ekki, eftir því hvað menn eiga stór skip. Slíkur er þankagangur þessara manna, sem ganga með þessa Danagrýlu fyrir augunum; ef þeir halda, að eitthvað verði til þess,að hlynna að Dönum, þó það hlynni jafnframt að Íslendingum sjálfum, þá er eins og veifað sé rauðri dulu framan í tudda.

Ég hefi svo ekki miklu við þetta að bæta. Einungis vil ég endurtaka þau tilmæli til þeirra tveggja hv. þm., hv. þm. Borgf. og hv. þm. N.-þ., sem gera sér mjög far um að róma þessi ströngu ákvæði, sem gilda hjá Dönum, að þeir dragi ekki lengi úr þessu að koma með brtt. við þetta frv. til samræmis við lög Dana, sem hv. þm. Borgf. upplýsti, að væru frá 1931, en honum sennilega hefir skotizt yfir að athuga, hvað fela í sér. Eg vil enn taka fram, að ég yrði mjög ánægður með þá lausn málsins, og bíð einungis eftir, að slíkar brtt. komi fram, til þess að greiða þeim atkv.