03.03.1936
Neðri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2228)

51. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Héðinn Valdimarsson:

Það er vitað, að menn eru ekki á eitt sáttir um þetta mál. Hv. þm. Sjálfstfl. fylgja þessu frv., en ég hygg, að það hafi ekki meira fylgi í þinginu.

Ef óánægja er með fiskimálan., þá mun ekki minni óánægja vera með Sölusamb. ísl. fiskframleiðenda, og er ekki ástæða til að taka margt fram um það efni að þessu sinni. Aftur á móti er ekki hægt að segja, að komið hafi upp verulegar deilur á milli fiskimálan. og S. Í. F. snertandi saltfiskssölumálin, en þau mál hefir S. Í. F. haft með höndum og fiskimálan. ekki haft önnur afskipti af þeim en þau, að hún hefir sent menn til að reyna að tryggja öryggi markaðarins. Deilan yrði þá að hafa verið út af því, hvort senda skyldi mennina eða ekki. Sú deila, sem hv. flm. talaði um, virðist hafa verið á milli minni hl. í stjórn S. Í. F. og meiri hl. um visst mál. Því að í stj. S. Í. F. fór fram atkvgr. um það mál, og var samþ., að eðlilegast væri, að það væri hjá fiskimálan. Þar fyrir geta menn haft þá skoðun, að báðar þessar stofnanir skuli leggja niður, og er sjálfsagt að ræða það nánar síðar. En ég vil á þessu stigi málsins taka það fram, að ég hygg, eftir því hvernig haldið hefir verið á fé hjá S. Í. F., að ekki sé hægt að búast við, að það gerði verk fiskimálan. á ódýrari hátt.