08.05.1936
Efri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (2290)

128. mál, alþýðutryggingar

Magnús Guðmundsson:

Við 1. umr. þessa máls vefengdi hv. 4. landsk., að það væri rétt, að þetta mál hefði ekki valdið ágreiningi í Nd. Nú veit ég að það er rétt hjá mér, að nefndin var þar sammála um afgreiðslu þessa frv., og hafa þeir skrifað undir nál. flokksbræður hv. þm. Héðinn Valdimarsson og Stefán Jóh. Stefánsson. Ég hélt, að hv. þm. bæri nokkra „respekt“ fyrir þessum mönnum, en það lítur ekki út fyrir, að hún sé mikil í þessu máli. Og nú tekur hæstv. atvmrh. í sama streng. Ég vil fyrir mitt leyti segja það, að ég veit ekki, hvaða ástæða er til að útiloka allt það fólk, sem er á aldrinum 60–67 ára, frá ellistyrk.

Það er rétt, að enginn gat heimtað ellistyrk eftir gömlu lögunum, en það höfðu allir rétt til að koma til greina í því efni, en nú eru þeir útilokaðir frá því. Hitt er annað mál, að sumir þeirra geta fengið örorkustyrk. — Ég get ekki séð af lögunum, hver metur starfsgetu þessa fólks. (Atvmrh.: Það er miðað við helming starfsorku, og metið eftir algengri vinnu). Ég veit, að lögin mæla svo fyrir, en hver á að framkvæma þetta mat og við hvað miðast það? (Atvmrh.: Það verður metið á sama hátt og örorka). Já, einmitt. En þetta sýnir greinilegar en nokkuð annað, að það fólk á 60–67 ára aldri sem ekki er svo illa komið, að það verði að teljast öryrkjar, fær ekki neitt, jafnvel þótt það hafi áður notið ellistyrks. Þetta er spor aftur á bak, og ég er alveg hissa á hæstv. ráðh., að hann skuli ekki geta orðið samferða flokksbræðrum sínum í Nd. um afgreiðslu þessa máls.