21.02.1936
Neðri deild: 5. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

11. mál, útgerðarsamvinnufélög

*Flm. (Bergur Jónsson):

Þetta frv. hefir legið fyrir tveimur þingum, fyrst fyrir þinginu 1931 og svo fyrir þinginu í fyrra. Nú er það borið fram í þriðja sinn.

Eins og hv. þdm. mun kunnugt, samþ. Alþingi á tímabili heimild fyrir stj. til að ganga í ábyrgð fyrir allmörg útgerðarsamvinnufélög, sérstaklega á aukaþinginu 1933. En þau þorp, sem fyrir þessu happi urðu, voru því miður ekki alltaf þau, sem mest ástæða var til að ganga í ábyrgð fyrir, heldur var farið eftir því, hversu duglegir menn voru að gangast fyrir að fá ábyrgðirnar. Það er enginn vafi, að sumir af þeim stöðum, sem hlutu þessar ábyrgðir, svo sem Borgarnes og Stokkseyri, eru ekki eins vel til útgerðar fallnir eins og t. d. þorpin á Vestfjörðum og ýms Austfjarðaþorpin.

Þetta er í raun og veru aðalástæðan til þess, að þetta frv. hefir komið fram hér á þingi. Alþingi sá, að það var komið svo langt á þessari braut, að það mátti ekki ganga lengra og varð því að stöðva sig. Með þessu frv. leitast flm. þess við að skapa skipulag fyrir þessi útgerðarsamvinnufélög, svo að forsvaranlegt verði að veita þeim meiri hlunnindi en annars, til uppbótar fyrir það, að þau fá ekki samskonar ábyrgð og félög í sumum þorpum hafa hlotið.

Ég býst við, að um þennan tilgang frv. hljóti allir hv. þdm. að vera sammála. Hitt er ekki nema eðlilegt, að ágreiningur verði um einstök atriði skipulagsins. T. d. er í frv. gert ráð fyrir, að skipverjum sé greitt með ákveðnum hluta af afla, og get ég ímyndað mér, að ágreiningur kunni að verða um slíka skipun, en vænti, að samkomulag ætti að geta orðið í því efni.

Það fyrirkomulag, sem hér er stungið upp á, er í samræmi við skoðun okkar framsóknarmanna, að ekki eingöngu á verzlunarsviðinu, heldur og á atvinnusviðinu skuli lögð áherzla á að starfa með samvinnusniði. Hér er byggt á því, og það er í samræmi við þá stefnu, að hlutaskipti séu höfð. Ég býst við, að ýmsir úr öðrum flokkum vilji það gagnstæða, og gætu þar vel komið til greina samningar, hvort því mætti breyta að einhverju leyti. — Sömuleiðis hljóta að verða skiptar skoðanir um það, hversu miklar kröfur megi gera til félags um að leggja í sjóð af fé sínu. Í 7. gr. frv. er ákveðið, að leggja skuli í varasjóð 2% af óskiptum ársafla félagsins, miðað við verð afla upp úr skipi, og 2% af kaupi fastra starfsmanna félagsins, sem eru ekki hlutamenn, en þetta er ekkert höfuðskilyrði af hálfu okkar flm.

Ég vil óska þess, að Alþingi taki nú á þessu máli með fullri alvöru, því að höfuðtilgangur frv. er áreiðanlega viðurkenndur af öllum hv. þm. — Að lokum legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til sjútvn.