27.02.1936
Neðri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (2374)

39. mál, kaup á Bíldudalseign

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er náttúrlega spurning, hvað langt umr. eiga að ganga um mál sem þetta, þó merkilegt sé, á fyrsta stigi. En það efni, sem hér er um að ræða, er svo þýðingarmikið og flutt á þeim grundvelli, að það er ókleift annað en að skýra að einhverju leyti þegar í stað, hvernig viðhorf þm. og almennings í landinu hlýtur að vera gagnvart slíku, er það kemur fram á Alþingi, og í rauninni frá þeirra hálfu, sem þykjast hafa valdið í þinginu, þar sem þeir tveir þm., sem standa að þessu máli, eru hvor í sinni deild stjórnarflokksins. Þar með vil ég þó engan veginn gefa í skyn, að allir þeir, sem núv. stj. fylgja, hafi fyrirfram bundið sig við að fylgja þessu máli eins og það er hér borið fram. Svo mun ekki vera, ekki einu sinni allir þeim megin, sem fremur mátti eiga von á fylgi við slíkt mál, eftir því er heyra mátti á hæstv. atvmrh., því það einkennilega kom fram í ræðu hans, að hann er algerlega andvígur fyrsta atriði þessa máls, sem sé kaupunum á þessari eign. Er slíkt dálítið nýstárlegt að heyra úr þeim herbúðum, því maður hefir ekki átt öðru að venjast þaðan hin síðari ár heldur en að hver hafi boðið yfir annan í því að reyna að ná sem flestum eignum undir landið og reka þær á kostnað alþjóðar. Það virðist sem hæstv. ráðh. hafi fljótlega séð, að hér var verið að stofna til þess að kaupa köttinn í sekknum. Orðaði hann það réttilega svo, því hann er sýnilega málinu kunnugur, að hér fylgdu nokkrir bögglar skammrifi. Böggullinn, sem þessu skammrifi fylgir með vitund þeirra, er málið flytja, er sá; að ríkið verður að taka upp á sína arma þetta þorp og sjá fyrir íbúum þess. Hér er um eign að ræða, sem annað veifið er lýst sem hinni glæsilegustu, en er þó sögð svo sokkin í skuldir og niðurníðslu, að þar verði að taka á það föstum tökum til umbóta, að öllum sé um megn nema ríkinu. Hv. flm. talaði um það beinlínis og óbeinlínis, að ekki einu sinni hreppsfélagið gæti gert þetta, þó hæstv. ráðh. virðist telja, að þá leið eigi að fara, heldur verði að láta allan almenning í landinu standa undir þorpinu.

Það er rétt að athuga snöggvast, hvað það er, sem hér kemur fram. Málið er eiginlega víðtækara heldur en þetta litla frv. ber með sér fljótt á litið. Hér er brugðið upp eftirtektarverðu útsýni, og það er ekki vafi á því, að þetta útsýni, er hér blasir við, er ekki náttúrunnar verk. Það mun vera að meira eða minna leyti verk manna, eins og málverk jafnan eru, þó sniðin séu eftir náttúrunni. Það er borið hér fram, að þessi staður sé frá náttúrunnar hendi einhver hinn bezti staður á landinu. Þar er höfn af guði gerð. Þar er góð bryggja og þar hefir verið íshús. Þaðan hafa verið reknar fiskveiðar á öllum tegundum skipa, sem landsmenn hafa átt, róðrarbátum, þilskipum, vélbátum og línuveiðurum. Togarar sækja þangað unnvörpum, því þar er svo tilvalið að vera, enda fiskisældin mjög rómuð. Yfirleitt hefi ég ekki heyrt öðrum stað meira hrósað hvað aðstöðu til útvegs snertir. Svo segja þessir sömu menn, að þessi staður sé sökum örbirgðar og atvinnuleysis sokkinn í skuldir. Hv. flm. segir, að ekki vofi annað yfir en hungur og dauði. Hvað getum við hugsað, sem hér erum saman komnir hingað og þangað af landinu og þekkjum hag manna heima fyrir? Hvers vegna verða þeir staðir fyrstir til þess að komast á vonarvöl, þar sem afkomumöguleikarnir virðast mestir. Það er víst ekki ofsagt, að þessi staður sé kominn á vonarvöl, þegar fram er borið frv. um að bæta hag hans með þeim röksemdum, að ella vofi hungursneyð yfir. Ef svo gengur til með hið græna tréð, hverju má þá búast við hjá hinum, sem hafa verið visin frá upphafi og enga rót hafa í möguleikum neinna atvinnugreina? Það er ekki annað hægt að segja en slíkir staðir eigi heimtingu á að vera líka teknir upp á arma ríkisins. Eða halda menn virkilega, að það sé ekki víðar hægt að fá hreppsnefndirnar og verkalýðsfélögin til þess að biðja ríkið að taka sig og sjá sér fyrir öllum þörfum? Það má tala fögrum orðum um þörfina á að hjálpa fólki fram úr erfiðleikunum, og það hefir verið gert hér. En því ekki að taka málið á breiðari grundvelli og rannsaka ástandið á þeim stöðum kringum landið yfirleitt, sem svo er komið að þurfa á hjálp að halda? Og það á þá að taka fyrst þá staði, sem enga afkomumöguleika hafa. Hvað er að segja um Vík í Mýrdal? Þó hv. 9. landsk. þykist þekkja þar til, sýnist mér, að hann geri það ekki. Að vísu veit ég, að hann hefir komið þar, en hverju hann hefir kynnzt, veit ég ekki. Sýnilega hefir hann ekki kynnzt plássinu né fólkinu þar. Eins og ég lýsti, veður allt uppi á Bíldudal, fiskisældin í sjónum og möguleikarnir á landi. Þar hefir allt verið gert, sem hægt er að gera, þó mannvirkin séu nú að vísu öll að grotna niður, því svona er nú fólkið þarna. Berum það saman við fólkið á hinum stöðunum, þar sem ekkert er nema sandauðnin, eins og í Vík. Þar taka þeir sandinn og rækta í honum kartöflur. Klífa fuglabjörgin eftir eggjum. Á sjóinn komast þeir ekki. Togararnir koma þar ekki að landi, því þeir geta það ekki. Línuveiðarar sjást þar ekki, því þeim er þar voðinn vís. Vélbátar geta ekki hamið sig þar; þá sjaldan menn komast út á sjóinn, er það ekki til að fiska, heldur til að ná sambandi við skip bezta tíma ársins. Þarna eru þó 300 manns, sem ekki kemur til hugar að biðja að taka sig.

Þegar svo er í sakirnar farið sem hér, að komin er fram á Alþingi, ekki beiðni, heldur ákvörðun um að kaupa eða taka við þessum stað og bera þar síðan allt uppi, þegar maður veit, að á bak við liggur ekki annað en það, sem legið getur fyrir hjá öllum þm., að hér er bara sett upp kapphlaup milli tveggja hv. þm.hv. flm. þessa frv. sagði um Reykhólamálið, að það væri fram komið fyrir framhleypni hans keppinautar — þegar maður veit, að þetta er undirrótin, en ekki hitt, að þeir, sem þarna búa, geti átt nokkrar kröfur í þessu efni fremur öðrum, þó maður viti, að þeir eigi í hörðu stríði eins og yfirleitt allur landslýður, þá getur maður ekki tekið þetta mál þeirra öðruvísi en hvert annað vandræðamál, af hvaða landshorni sem er.