09.03.1936
Neðri deild: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 5. þm. Reykv. spurði um það, hvort olíufélögunum hefði af ríkisstj. verið tryggð yfirfærsla á verði þeirrar olíu, sem þau seldu hingað framvegis. Þessu svara ég neitandi. Hinsvegar var það gert að skilyrði fyrir innflutningi á olíuförmum, — mér er ekki kunnugt hve mörgum —, að bankatrygging fengist fyrir yfirfærslunni, og sú trygging mun hafa verið veitt.

Út af lántöku skuldaskilasjóðs hjá olíufélögunum, sem er þannig, að skuldaskilasjóður tekur 7½ millj. kr. lán hjá þeim af því fé, sem þessi félög eiga hér innistandandi, fór hv. þm. nokkuð einkennilegum orðum. Honum fannst hér vera farin ný leið. En nú veit hann vel og við allir, að öll lán, sem tekin eru hjá erlendum aðiljum, eru tekin í mynt þess lands, sem lánin eru tekin í.

Þetta fé, sem skuldaskilasjóður tók hér að láni, átti að vera búið að yfirfæra. Lánin eru tekin til 15 ára og eru tekin í pundum. Þau eru ekki borguð út í pundum, heldur í þeim peningum, sem féð stóð í hér, en það hefði átt að vera búið að borga það út í pundum. Og olíufélögin ganga inn á að lána þetta fé með því skilyrði, að það sé greitt í pundum. Að þessu leyti eru þessi lán nákvæmlega hliðstæð öllum erlendum lánum, sem tekin hafa verið hér. Þau eru tekin hjá útlendum aðiljum, sem eiga hér peninga. Hinsvegar er vitanlegt, að olíufélögin eiga hér inni meira fé heldur en það, sem skuldaskilasjóður tekur að láni hjá þeim, og þær upphæðir eiga þau í íslenzkum krónum, sem engin ákvæði hafa verið gerð um yfirfærslur á. Þannig getur þessi lántaka skuldaskilasjóðs ekki skapað nokkurt fordæmi um tryggingar á yfirfærslum á innieignum erlendra kreditora hér með ákveðnu peningaverði. Þetta getur ekki skapað slíkt fordæmi, að dómi þeirra manna, sem hér hafa fengizt mest við þessi viðskipti, sem sé bankastjóranna í báðum bönkunum.