04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (2776)

125. mál, framfærslulög

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég verð að lýsa yfir undrun minni á því, að þetta mál skuli vera fram komið á þessu þingi, því að eins og fram hefir komið í umr., þá voru framfærslulögin, þessi lagabálkur, sem menn virðast þekkja að vísu, en misjafnlega vel, bæði utan þings og innan, samþ. á síðasta þingi og eru því að byrja að koma til framkvæmda. Nú er engan veginn hægt að segja, að þau séu fullreynd í framkvæmd. Það má segja, að þau séu óreynd í framkvæmd, og sérstaklega gildir það um mörg atriði þeirra, sem að sumu leyti eru nokkuð ný, en að sumu leyti eldri ákvæði uppdubbuð, sem ekki höfðu sætt neinum sérstökum mótmælum á meðan þau voru í gildi, og enginn áróður var um að rifta eða breyta því, sem gilt hafði um sumt af því sama, sem hér liggur fyrir.

Í annan stað var það svo, að þessar breyt. lágu svo að segja allar fyrir á síðasta þingi undir meðferð málsins. Þær lágu fyrir n., og mér er kunnugt um, að n. hafði töluvert með þetta að gera, og að lokum var n. á móti því að taka þetta til greina. Og við nákvæma yfirvegun hjá þeim hv. þm., sem líka höfðu með þessar brtt. að gera, varð það líka niðurstaðan, að það ætti ekki við og væri sumpart óhæfilegt að samþ. þær, af því að þær færu í bága við þær reglur, sem verður að telja, að eigi að gilda jafnt um alla aðilja, sem hér koma til greina, en það eru barnsmæður, sem hér er verið að ragast í. Það er því einkennilegra að heyra hæstv. forsrh. standa hér upp og segja, að hann sé farinn að kynna sér málið, væntanlega nú fyrst á þessum tíma, þar sem málið lá fyrir síðasta þingi og þá var rætt um það. En þá hefir hæstv. forsrh. ekki kynnt sér það og ekkert vitað um þetta, því að hann sagði, að nú nýlega hefði hann kynnt sér það töluvert ýtarlega. Það ætti nú ekki að vera nein furða, þó að maður, sem sæti á á þingi, kynnti sér það, sem fyrir þinginu liggur svo ýtarlega, að hann gæti gert sér grein fyrir því, en hæstv. ráðh. talaði um það sérstaklega og lýsti því yfir, að hann hefði kynnt sér þetta mál og gert það töluvert ýtarlega. En það virtist koma í ljós, að hann hefði alls ekki kynnt sér málið ýtarlega, því að það er ótrúlegt, að hann sem lögfræðingur, og að því er hann segir nákunnugur þessu máli frá því að hann var fulltrúi hjá bæjarfógeta, skuli ekki hafa rekið augun í það í þessum brtt., sem er í ósamræmi við þær reglur, sem gilda að öðru leyti um samskonar atriði í lögum. En í þessu liggur vafalaust þannig, að upp á síðkastið og strax í fyrra var hafinn kröftugur áróður í málinu. Manni virðist það einkennilegt, að þegar n. í þinginu og undirbúningsnefnd milli þinga og síðan allir hlutaðeigendur í bænum voru sammála um, að lögleidd skyldu þau framfærslulög, sem lágu fyrir, og a. m. k. ekki að taka til greina þessar brtt., þó að annað kunni að hafa orkið tvímælis af því, sem var lögfest. En áróðurinn hefir magnazt síðan hjá einum aðilja, nýtilkomnum, sem ég veit ekki, hvort maður á að titla sem sérstakan aðilja, en það er n., sem kallar sig mæðrastyrksnefnd, sem vill sýnilega ráða mestu um þetta í trássi við þær lögskipuðu n., sem eru hér í bænum. Það hefir verið leitað álits framfærslunefndar, en það hefði mæðrastyrksnefndin átt að gera, að leita til þeirrar n., sem bar ábyrgð á framkvæmd þessa máls. En álits hennar hefir nú verið leitað, og hvort sem það er komið í hendur n. eða ekki, þá er það víst, að n. leggur á móti till. Hún sér vitanlega ekki ástæðu til þess að lögleiða þetta, né að það sé heppilegt að lögleiða þetta, sem vitanlega er komið fram vegna áróðurs, sem sést á því, hvernig það er borið fram. En það er borið fram af tveimur hv. þm. af flokkslegum ástæðum, ef ekki persónulegum í þokkabót. Þegar svo á að hamra þetta í gegn, þá er það gefið upp af hv. frsm. minni hl., að þetta sé ágreiningslaust mál, sem fyrir jólin í vetur olli svo miklum ágreiningi, að ekki þótti fært að lögleiða það. Hann sagði ennfremur, að n. hefði rætt þetta við formenn flokkanna, og hefði þeim komið saman um, að málið ætti að fá góða meðferð og afgreiðslu. Hv. frsm. vænti þess að þar sem þeir féllust á þetta, foringjarnir, þá myndu hinir greiða þessu atkv. sitt. Ég tel vafalaust, af því að hv. frsm. er kunnugt um þetta mál og afstöðu manna og flokka í því, þar á meðal sumra í hans eigin flokki, sem eru á móti þessu, þá hafi hann mælt þessi orð til þess að reyna að afla málinu fylgis á óáreiðanlegum grundvelli. Nú hefi ég og ýmsir aðrir þá sömu skoðun eins við höfðum fyrir jólin í vetur, þegar þetta mál var athugað, og það töluvert ýtarlega, hvort sem hæstv. forsrh. hefir verið með í því eða ekki. Það var þá athugað ýtarlega og fyrr en hann fór að athuga það, en gr. þessa frv. eru samskonar og þær, sem fram voru bornar af mæðrastyrksnefndinni í vetur, og geta ekki samrýmzt löggjöfinni eins og hún er og eins og til var stofnað, að ætti að vera, ef jafnrétti og fyllsta réttlæti á að ríkja. Það er fyrst og fremst það, að minni hl. n., en ég vil telja hann fyrir þessum brtt. eða þessu frv., vill lögleiða, að það skuli undir vissum kringumstæðum afnema þann mælikvarða, sem talinn hefir verið, og það líka í framfærslulögunum, réttur undir öllum atvikum, þar sem slíkt á við. En það er, að sveitarstjórnir þurfa ekki, þegar þær greiða út meðlög, að greiða hærra en hið löglega meðalmeðlag. Eins og allir hv. þm. vita, þá er þetta ekki óeðlilegt, með því að meðalmeðlagið er þannig til komið, að sýslunefndir eiga að gera till. um þetta, og það eru undir venjulegum kringumstæðum þær sömu sem stjórnarráðið síðan staðfestir. Þetta meðalmeðlag er misjafnt í sveitum annarsvegar og kaupstöðum hinsvegar, en það er ákveðið eins og sýslunefndirnar komast næst því, hvað það kostar að framfæra börn í hverju héraði. Þá var svo tilskilið í lögunum og líka í framfærslulögunum, að sveitarstjórnirnar, sem eftir ákvæðum laganna verða að borga með börnum, skuli þó ekki þurfa að hlíta úrskurðum, sem eru mjög misjafnir og oft í ósamræmi við það, sem gildir í héraðinu, heldur er þeim gefinn sá réttur að þurfa ekki að greiða meira en ákveðið meðalmeðlag, sem gildir í héraðinu, þar sem börnin eru. En stefnan í þessum brtt. er sú, að afnema þetta, þannig, að það sé helzt meira og að sumu leyti ávallt meira en meðalmeðlag. Í 1. gr. frv. vill meiri hl. n. breyta þessu svo, að þegar um fráskildar konur er að ræða, þá verði það þannig, að aldrei sé minna greitt en meðalmeðlag, og er þetta breyt. á 10. gr. laganna. Þá er farið fram á það, að breytt verði því, sem 13. gr. í hinum nýju l. ákveður, að sveitarstjórnir verði ekki krafðar af fósturforeldrum meira meðlags en meðalmeðlags. En minni hl. vill breyta því svo, að þar komi: „venjulegrar meðgjafar með börnum í hreppnum eða kaupstaðnum“. — Nú getur það breytzt, en það er ekki ástæða til í þessu tilfelli að breyta út af því, að meðalmeðlag skuli vera það, sem gildir. En það er verið að reyna að komast hjá því að binda sig við meðalmeðlag. Nú gildir það ekki nema í þrjú ár, og er þá ákvarðað á ný, svo að það er ekki mikil hætta, þótt þessu löggilta formi sé fylgt, að sveitarstjórnirnar fái að halda sér við meðalmeðlag og ekki sé krafizt annars eða meira.

Þá er 3. gr. frv., sem ætlast til þess, eins og tekið hefir verið fram, að 22. gr. l. verði breytt þannig, að þar sem ákveðið er, að valdsmaður skuli leita álits framfærslunefndar, þá skuli það ekki vera, en það skuli vera nóg undir öllum kringumstæðum, að sú ekkja, sem í hlut á, leggi fram skrifl. umsókn og gefi sjálf skýrslu, og hana á valdsmaður að taka trúanlega, en honum er heimilt að leita staðfestingar á skýrslu konunnar, ef honum þykir ástæða til. Nú er það ekki svo, að valdsmaður eigi í sjálfu sér og undir öllum kringumstæðum sjálfur að bera ábyrgð persónulega og hagsmunalega á því, sem hann er að úrskurða um. Það er ekki honum til tryggingar, sem þetta er sett, heldur til þess að tryggja þeim sveitarstj. og þeim aðiljum, sem eiga að greiða þetta, að enginn úrskurður sé kveðinn upp af valdsmanni órökstuddur og án þess að full gögn liggi fyrir hendi. Í 22. gr. l. er sagt, hvaða stoðir eigi að renna undir úrskurð valdsmanns. Hann á að leita álits framfærslunefndar eða hreppsnefndar, og það má ekki minna vera en hann leiti umsagnar þeirra, sem kunnugir eru. En frv. vill ekki, að þetta sé í l. Það á að byggja úrskurðinn í lausu lofti. Það er aðeins heimilt að leita staðfestingar, en ekkert tiltekið, hjá hverjum. Það er svo mikil vitleysa í þessari gr., að mig undrar það, að þetta skuli flutt af hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. Reykv. Brtt. segir: Skal kona leggja fram skrifl. umsókn. — Hvaða kona? Það er hér í l. verið að tala um ekkjur og engar aðrar konur, en svo kemur þetta þarna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, að það er einhver kona, sem á að leggja fram skriflega umsókn. Þegar búið er að tala um ekkjur í l., þá er viðbótin, sem á að koma eftir frv.: „Skal kona leggja fram skrifl. umsókn“ o. s. frv. — Nú er náttúrlega meiningin, að þetta sé ekkja, en þetta er lagalega bæði að formi og efni óhæfilega framsett og nær engri átt, og ég álít það ekki rétt, enda þótt hæstv. ráðh. sé í bandalagi við annan flokk, að hann fylgi honum til alls. — Þá segir ennfremur í 3. gr., sem er brtt. við 22. gr. laganna — þar sem talað er um þetta, að kona skuli leggja fram skriflega umsókn (hvaða kona?) — „og fylgi henni skýrsla umsækjanda, gefin af sjálfri henni“. Hverri? (JakM: Konunni). Já, kannske sé átt við konuna.

Ég veit, að þessir menn kunna að orða lög, og því undrast ég, að þeir skuli orða svo, að óskiljanlegt verður, en nú mun það vera orðin tízka að orða lagafrv. eins og blaðagreinar, svo að ekki fellur neitt í venjulegar skorður. Það eru ekki nema nokkrir mánuðir — eða rétt fyrir jólin — síðan l. þessi voru samþ., en nú er lagt til, að 26. gr. verði felld niður, og í samræmi við það 62. gr. Þessar gr. tala um það, hvernig meðgjöf skuli greidd með börnum eftir að kona giftist aftur. Nú vill þetta áróðursfólk fá þessu breytt, og hæstv. forsrh. flýtti sér að troða hér upp til að taka undir það, að nú skyldi þessu breytt, þannig, að þegar kona giftist aftur, þá skuli faðir barnanna halda áfram að kosta framfærslu þeirra eða uppeldi. Nú er það vitað, að þegar ekkja hefir fengið úrskurð, þá er sá úrskurður kveðinn upp vegna þess, að hún er ekkja, en þegar hún er aftur gift, þá er hún lagalega komin í þá aðstöðu, að hún á ekki að fá greitt meðlagið lengur frá sínum fyrra barnsföður eða framfærslusveit, enda er það órétt gagnvart öðrum konum. En nú vill þetta áróðursfólk beita sér fyrir því af miklum móði, að ekkjan haldi meðlaginu þrátt fyrir það, að hún giftist aftur og maður hennar sé þá lagalega orðinn faðir barna hennar eða skyldugur um framfærslu þeirra, þ. e. án tillits til löggjafarinnar í öllum tilfellum öðrum.

Ég vil t. d. minna hæstv. ráðh. á það, að í l. um lífeyrissjóð barnakennara og l. um lífeyrissjóð embættismanna er tekið til og áskilið, að greiðslur úr þeim sjóðum falli niður, ef ekkja giftist aftur, og eftir almennum skilningi er þetta líka rétt. Þetta vill áróðursfólkið fella burtu, til þess að þessar konur verði í ósamræmi við aðrar konur, og eins og ég hefi bent á, í ósamræmi við önnur l., eins og t. d. lífeyrissjóðslögin.

Svo skal ég aðeins benda á 6. gr., sem er brtt. við 3. gr. 1., en þar er talað um ráðstafanir, sem framkvæma megi eftir tillögum barnaverndarnefna eða skólanefnda, og skuli farið eftir þeirra áliti, eftir því sem við verði komið, og þetta er eðlilegt, og þarf að vera eitthvert svigrúm til að fara eftir. — Þessu vilja þeir nú breyta, sem að þessum brtt. standa, strika þessi orð burtu, og er þá vitanlega tilgangurinn, að fara skuli eftir þessum till. n. undir öllum kringumstæðum. Nú er sagt, að þessar n. eigi að hafa málin til að reyna að leysa þau. Má því ætla, að till. þær, sem þessar n. kunna að gera eftir tilraunir sínar, séu ekki svo ákveðnar, að rétt sé að lögbjóða að fara eftir þeim, og geta þær verið svo óákveðnar, að vel getur brugðið til beggja vona að fara ettir þeim. Þess vegna er í gr. eins og hún er tekið rétt á þessum málum, því að það fer ekki alltaf að öllu leyti vel að fara eftir till., sem byggðar eru á slíkum tilraunum, heldur verður að taka þær eftir því, sem nauðsynlegt og gagnlegt þykir.

Niðurstaðan af þessu verður því sú, að þessar till. eru sumar óframbærilegar og að sumu leyti ekki tímabærar, hvað snertir framkvæmd laganna. Ég fullyrði, að lögin hafa ekki sýnt í framkvæmdinni, að nauðsynlegt sé að breyta þeim, og mun tíminn leiða það betur í ljós. — Að öðru leyti liggja ekki fyrir neinar rökstuddar kærur heiman úr héruðum, en þessi l. eru ekki aðeins samin fyrir Reykjavík, heldur vil ég minna á, að þau gilda fyrir landið allt, og mætti hv. 1. landsk. gjarnan heyra það og vera kunnugt um, að framfærslulögin eru fyrir landið allt, en ekki aðeins fyrir Reykjavík, og þaðan af síður fyrir eina undirnefnd, og þegar formlega er upplýst, að sú n., sem komin er upp samkv. l. þessum, framfærslunefndin hér í Reykjavík, leggur á móti þessu frv., sé ég enga ástæðu til að taka þetta mál alvarlegar en rök liggja til. — Ég býst því við, að hv. þm. hafi gert sér grein fyrir, að þessar breytingar eru á alls engan hátt réttlætanlegar.