24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Magnús Jónsson:

Ég hafði skrifað undir nál. með fyrirvara, þar sem ég hafði hugsað mér að bera fram 1–2 brtt., en geri það þó að líkindum ekki fyrr en við 3. umr. Bandormurinn hefir nú lengzt þó nokkuð, en það, sem ég hafði hugsað mér að bera fram brtt. um, var einkum 14. liðurinn, niðurfelling á framlagi til bókasafna prestakalla. Þessi niðurfelling er blátt áfram hlægileg, þar sem þessi upphæð er svo lítil, að hana hefir sjaldnast verið hægt að skrifa með 4 tölustöfum. Ég held, að þetta hafi numið um 800–1000 kr. á ári. En þetta hefir þó ýtt undir bókasöfnun presta, þótt lítið væri, og gert þeim kleift að byggja bókasöfnin dálítið upp frá ári til árs. Ég skal ekki orðlengja þetta meira, en fyrirvari minn var um þetta og fleiri smáatriði.